Kvikmyndir

What Remains of Us

Leikstjórn: Hugo Latulippe og François Prévost
Handrit: Hugo Latulippe og François Prévost
Leikarar: Kalsang Dolma og Dalai Lama
Upprunaland: Kanada
Ár: 2004
Lengd: 77mín.
Hlutföll: 1.66:1
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Ung flóttakona frá Tíbet heldur frá Quebec í Kanada aftur til heimalands síns með stuttan boðskap frá Dalai Lama, útlægum trúarleiðtoga tíbetískra búddhista, á myndbandi til landa sinna. Heimildamyndin greinir frá ferð hennar um landið og varpar ljósi á ástandið þar undir stjórn kínverskra stjórnvalda.

Almennt um myndina:
Þessi kanadíska heimildamynd vakti mikla athygli á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Reykjavík haustið 2005 og var uppselt á fyrstu sýningarnar á henni. Annar leikstjóranna var viðstaddur frumsýninguna og svaraði hann nokkrum spurningum að henni lokinni.

Myndin var tekin upp í Tíbet án formlegs leyfis frá stjórnvöldum í Kína og því eru allir þeir sem fram koma í henni sjálfkrafa brotlegir við landslög en allt að 15 ára fangelsi getur beðið þeirra ef upp um þá kemst. Af þeim sökum var heilmikil öryggisgæsla við sýningu myndarinnar og engar myndavélar fengu að fara í salinn. Í heimildamyndinni er tekin mjög afgerandi afstaða með íbúum Tíbet og gegn stjórnvöldum Kína og er því alls ekki segja að dregin sé upp hlutlaus mynd í henni.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Í upphafi myndarinnar er vitnað til Gandhis sem sagði þrjú möguleg svör vera við ranglæti:
(1) Að berjast.
(2) Að lúta því.
(3) Að streitast gegn því án ofbeldis.
Þriðja svarið er leiðin sem íbúar Tíbet hafa farið.

Sögumaðurinn, ung kona frá Tíbet sem er fædd í flóttamannabúðum á Indlandi og býr í Kanada, leiðir okkur svo í gegnum landið og kynnumst við þannig fólkinu sem þar býr. Rauði þráðurinn í myndinni er myndband sem hún sýnir mörgum hópum fólks. Myndbandið, sem er 5 mínútur á lengd, geymir skilaboð til íbúa Tíbet frá Dalai Lama, trúarleiðtoga þeirra. Hann er í útlegð á Indlandi og hefur aldrei stigið fæti á tíbetska grund frá því að hann flúði undan kínverska hernum þegar hann réðist inn í landið árið 1959.

Í myndbandinu leggur hann áherslu á að íbúar Tíbet missi ekki vonina, að þeir haldi áfram sinni ofbeldislausu andspyrnu. Hann leggur áherslu á friðarboðskap og vill greinilega blása þeim í brjóst hugrekki og eldmóð. Skilaboðin hafa mikil áhrif á þá sem þau sjá, margir virka hrærðir og láta ýmsir í ljós þá miklu von sem fólk virðist binda við Dalai Lama og mögulega heimkomu hans til Tíbet. Sumir tjá skoðanir sínar, en aðrir ekki – enda hafa þeir ekki allir alist upp við slíkt.

Eitt sjónarmið sem heyrist oft í myndinni er það að Tíbet verði því aðeins frjálst land á nýjan leik að Dalai Lama snúi þangað aftur. Ekki er þó hægt að segja að neinn sé fullviss um það enda aðeins von sem margir halda í.

Í myndinni fæst einnig heilmikil innsýn í menningu Tíbetbúa og trúarlíf þeirra. Bænaflögg eru áberandi og við verðum vitni að ólíkum bænastundum. Munkar og nunnur eru meðal þeirra sem koma fram í myndinni og talað er um þau sem andlega og vitsmunalega leiðtoga þjóðarinnar.

Á einum tímapunkti í myndini nefnir sögumaðurinn Kalsang Dolma þá skoðun sumra Tíbeta að landið þeirra hafi glatast af því að fólkið bað ekki nóg. Hún veltir hins vegar upp andstæðri skoðun, hvort það geti verið að landið hafa glatast einmitt af því að fólkið bað um of en lét annað sitja á hakanum. Afstaða Dalai Lama er í öllu falli ljós: „Non-violent struggle“ er sú leið sem ber að fara, að glata aldrei samúð eða meðaumkun með andstæðingi sínum, að leita alltaf að lausnum sem eru gagnlegar fyrir alla aðila sem tengjast hverju máli, þ.e. séu „mutually beneficial“ eins og hann orðar það.

Það er ómögulegt að horfa á svona mynd og finna ekki til með fólkinu sem hún fjallar um. Ég held líka að það hljóti að vera markmið þeirra sem gera heimildamyndina að vekja fólk til meðvitundar um ástandið í Tíbet og hvetja til aðgerða. Fyrra markmiðið hefur náðst, um það þarf ekki að deila, og tíminn leiðir svo í ljós hvað verður með síðara markmiðið.

Persónur úr trúarritum: : Dalai Lama, Gandhi
Guðfræðistef: bæn, von
Siðfræðistef: innrás, herseta, félagslegt misrétti, landflótti, samúð, lögbrot
Trúarbrögð: Búddhismi (tíbetískur búddhismi), kommúnismi
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: Tíbet
Trúarleg tákn: mandala
Trúarleg embætti: munkur (tíbetískur búddhismi), nunna (tíbetískur búddhismi)
Trúarlegt atferli og siðir: bæn