Kvikmyndir

Why Did You Pick on Me?

Leikstjórn: Michele Lupo
Handrit: Marcello Fondato og Francesco Scardamaglia
Leikarar: Bud Spencer, Cary Guffey, Ferruccio Amendola, Roberto Undari, John Bartha, Giovanni Cianfriglia, Giancarlo Bastianoni, Carlo Reali og Ottaviano Dell’Acqua
Upprunaland: Ítalía
Ár: 1980
Lengd: 87mín.
Hlutföll: 1.33:1 (var 1.66:1)

Ágrip af söguþræði:
Lögreglustjóri, sem heldur verndarhendi yfir velviljaðri geimveru í barnslíkama, hreinsar smáborgina Monroe af heimsvaldasinnuðum vélmönnum utan úr geimnum.

Almennt um myndina:
Ferlega slæm ítölsk gamanmynd með hefðbundnum langdregnum og heimskulegum slagsmálaatriðum. Myndin er framhald annarrar jafn slæmrar gamanmyndar sem nefnist The Sheriff and the Satellite Kid (Michele Lupo: 1979).

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Trú á tilvist geimvera er að sjálfsögðu trúarlegs eðlis. Geimveran í barnslíkamanum á föður á himnum, sem vitjar hennar í geimskipi þegar á þarf að halda, en hún getur með tækjabúnaði sínum gert alls kyns kraftaverk, t.d. látið hluti hverfa og aðra birtast í staðinn. Hún reisir meira að segja svín upp frá dauðum af matarborði, en jafnvel það hefur lítil áhrif á lögreglustjórann, sem reynist lengst af áhugalaus með öllu um geimverur og yfirnáttúruleg fyrirbrigði.

Persónur úr trúarritum: Jesús Kristur
Guðfræðistef: fljúgandi furðuhlutir, kraftaverk
Siðfræðistef: ofbeldi, bankarán
Trúarleg embætti: norn
Trúarlegar hátíðir, sögulegir atburðir: jól