Kvikmyndir

Wide Awake

Leikstjórn: M. Night Shyamalan
Handrit: M. Night Shyamalan
Leikarar: Denis Leary, Dana Delany, Robert Loggia, Joseph Cross
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1998
Lengd: 93mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0120510
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Joshua A. Beal (Joseph Cross) er 10 ára og er að hefja nám í fimmta bekk í kaþólskum drengjaskóla. Afi hans (Robert Loggia) lést skömmu áður og Joshua saknar hans mikið. Þetta verður til þess að Joshua hefur leit að Guði til þess að spyrja hann að því hvernig afi sinn hafi það.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Wide Awake er barnamynd. Líkt og margar slíkar fjallar þessi mynd um vináttuna og fyrstu ástina, en þó enn frekar um söknuð og trúarleit. Joshua er mjög hugsandi og spurull strákur. Ef hann er í vafa um eitthvað, spyr hann og reynir að komast að svarinu. Aðalspurningin hjá honum er hvort það sé rétt hjá afa hans, sem var trúaður, að Guð sé til eða hvort hann sé uppspuni eins og ofurmennið og Indiana Jones.

Myndin nær yfir eitt skólaár eða 9 mánuði og segja mætti að henni ljúki með endurfæðingu Joshua. Hann efaðist um allt, en er farinn að trúa í lokin. Þetta er því saga af trúarvakningu, sem meðal annars er sýnt með því að framan af á Joshua erfitt með að vakna á morgnana. Í raun er hann nærri meðvitundarlaus áður en hann kemst í skólann á morgnana eins og sést vel í upphafsatriðinu. Mamma hans (Dana Delany) dregur hann á fætur, en stuttu seinna kemur pabbi hans (Denis Leary) að honum sofandi á baðinu með tannburstann í munninum. Undir lokin ber svo við að hann þarf ekki neina hjálp til að komast á fætur. Það er síðasti kennsludagurinn og nemendurnir eiga að halda ræðu um árið. Í ræðu sinni segir Joshua að hann hafi verið sofandi, en sé nú glaðvakandi.

Stuttu seinna segir engill honum að afa hans líði vel. Engillinn (Michael Craig Bigwood) er í gervi lítils ljóshærðs drengs, sem hefur verið til staðar í skólanum frá upphafi leitar Joshua, en þeir hafa aldrei talast við. Þegar þeir talast við undir lokin segir engillinn honum, að hann hafi í raun aldrei séð sig fyrr. Sem má kannski útleggja á þann hátt að trúin hafi verið til staðar hjá Joshua, en hann hafi bara ekki séð hana fyrr en undir lokin.

Leitin er samt ekki einföld. Myndin skiptist í forleik og þrjá kafla sem kallast: september: spurningarnar, desember: teiknin og maí: svörin. Leitin hefst í fyrsta kafla þegar Joshua dettur í hug spurning þegar hann horfir á sólstafi streyma inn um glugga á skólanum. Spurningin er til Guðs, um það hvort afa hans líði ekki vel.

Vinur hans David (Timothy Reifsnyder) reynir að telja honum hughvarf, fyrst með því að segja að of margt slæmt komi fyrir fólk að ástæðulausu. Seinna spyr David Joshua að því hvar hann ætli að leita. Í næsta atriði á eftir situr Joshua og horfir á hörmungar heimsins í sjónvarpinu. Þetta er ein þversögnin í trúnni, sem Joshua verður að reyna að finna leið til að sætta. Hann leitar til kaþólsks prests sem heitir Peter (Dan Lauria) og Geary kardinála (Gil Robbins), en hvorugur getur leiðbeint honum. Hann reynir að fá foreldra sína til að fara með sig til Rómar að hitta páfann, en tekst ekki. Þá færir hann leit sína út til annarra trúarbragða.

Í öðrum kafla þegar ekkert af þessu hefur leitt hann nær takmarki sínu fer hann að örvænta. Hann biður um teikn frá Guði og fær það í formi snjókomu. Í upphafi þriðja kafla hefur lítið gerst í trúarleitinni eftir bænheyrsluna og hann er að því kominn að gefast upp.

Versta bakslagið er eftir að hann kemur að vini sínum David í flogaveikikasti. Joshua bjargar vini sínum, en missir um leið móðinn í leit sinni. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að David hafi haft rétt fyrir sér, það komi of margt slæmt fyrir fólk að ástæðulausu. Þá ber svo við að David hefur skipt um skoðun og telur það kraftaverk að Joshua kom á réttum tíma og þess vegna eigi hann ekki að hætta leitinni. Þetta veitir Joshua styrk til að ljúka leit sinni, sem endar á fundinum með englinum.

Í myndinni er að finna trúarlegar tengingar mjög víða og á mörgum plönum. Hún gerist í kaþólskum drengjaskóla þar sem nunnur kenna. Fleiri trúarembætti koma við sögu, eins og prestur, kardináli og páfi, sá síðasti að vísu aðeins sem mynd. Helgistaðir eins og kirkja og kapella koma við sögu, en einnig trúarleg tákn eins og kross, helgimyndir, Maríulíkneski og Búddalíkneski. Trúarlegar tengingar má líka finna í nöfnum persóna. Stelpan sem Joshua verður hrifinn af heitir Hope (Heather Casler) eða von og án hennar er varla mikil trú, enda er Hope eina persónan, sem segir Joshua að hann muni finna svörin sem hann leitar að.

Leikstjórinn Shyamalan virðist því koma trúnni inn í flesta þætti myndarinnar og það er nokkuð sem hann gerir í fleiri verkum sínum eins og The Sixth Sense sem fjallað er um á öðrum stað á þessum vef. En það verður að teljast nokkuð merkilegt, að þegar myndbandahulstur Wide Awake er skoðað kemur trú hvergi fyrir í textanum um myndina. Á myndinni framan á stendur Joshua á stafla af Britannica alfræðiorðabókum, eins og verið sé að draga úr vægi trúarinnar í myndinni eða til þess að hún hræði ekki áhorfendur frá.

Guðfræðistef: himnaríki
Siðfræðistef: ást, efi, náungakærleikur, vinátta, svindl
Trúarbrögð: rómversk-kaþólska kirkjan, íslam, gyðingdómur, hindúismi og Búddismi
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja, kapella, Róm
Trúarleg tákn: kross, Kristlíkneski, Maríulíkneski, Búddalíkneski, helgimyndir
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, messa, altarisganga, sálmasöngur, skriftir
Trúarleg reynsla: bænheyrsla