Leikstjórn: Fina Torres
Handrit: Vera Blasi
Leikarar: Penelope Cruz, Murilo Benício, Harold Perrinaeu jr., Mark Feuerstein
Upprunaland: Venesúela
Ár: 2000
Lengd: 92mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Title?0206420
Einkunn: 3
Ágrip af söguþræði:
Isabella Oliveira er ung og hæfileikarík kona. Hún er meistarakokkur og er gift manni sem kann ekki fyllilega að meta hana – þau eru þó afar ástfanginn. Þegar hann heldur framhjá henni fer hún frá honum og heldur til San Fransisco þar sem hún dvelur hjá vini, klæðskiptingnum Moniku.Eldamennska hennar hefur mögnuð áhrif á fólk og fljótlega er orðin stjórnandi eigin sjónvarpsþáttarPassion Food Live og nýtur mikillar velgengni. En sönn ást lætur ekki svo glatt undan og eiginmaðurinn Toninho er síður en svo tilbúinn að gefast upp.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Gegnumgangandi í myndinni er skírskotun til átrúnaðar á hafgyðjuna Yemanja. Hún mun tilheyra Candombl átrúnaði (sem er útgáfa af Santeria trúarbrögðunum). Í myndinni fáum við innsýn í þessi trúarbrögð og ýmsar trúarathafnir, m.a. fórnir og bænir.Í upphafi myndarinnar segir frá því að Yemanja hafi blessað Isabellu með hæfileikum til að elda mat til að bæta fyrir hina hastarlegu sjóveiki (motion sickness) sem hún þjáist af.Síðar, þegar Isabella hefur yfirgefið Toninho, og er í raun í ástarsorg, þá leitar hún til seiðkonunnar í þorpinu sínu og biður hana að hjálpa sér að losna undan þessari ást. Sú segir henni að leita til Yemanja, sem er m.a. þekkt fyrir að hjálpa til í málefnum hjartans.Isabella færir þá fórn sem hún fleytir út á haf með bæn um að gyðjan afmái ástina til Toninho úr hjarta hennar. Síðar leitar Isabella aftur til Yemanja og vill þá taka aftur fórn sína svo hún geti öðlast aftur ástina til Toninho, í sýn fer hún niður í sjóinn og tekur fórnina sem hún hafði útbúið og syndir með hana upp á yfirborðið.Boðskapur myndarinnar er því jákvæður í garð hinnar sönnu ástar sem getur verið öllu sterkari, jafnvel mætti guðanna. En um leið fjallar myndin á gamansaman hátt (með alvarlegum undirtóni þó) um samskipti kynjanna, sem geta á köflum verið æði brösuleg.
Persónur úr trúarritum: Yemanja
Siðfræðistef: Framhjáhald, losti
Trúarbrögð: Candombl, Santeria, Voodoo
Trúarlegt atferli og siðir: Fórnir, galdrar
Trúarleg reynsla: Sýn