Kvikmyndir

Young Adam

Leikstjórn: David Mackenzie
Handrit: David Mackenzie, byggt á samnefndri skáldsögu eftir Alexander Trocchi.
Leikarar: Ewan McGregor, Tilda Swinton, Peter Mullan, Emily Mortimer, Jack McElhone, Therese Bradley, Ewan Stewart, Stuart McQuarrie, Pauline Turner, Alan Cooke og Rory McCann
Upprunaland: Bretland
Ár: 2003
Lengd: 93mín.
Hlutföll: 2.35:1
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Joe fær vinnu á pramma hjá Ellu og eiginmanni hennar, Leslie. Joe vingast við Leslie en á sama tíma á hann í leynilegu ástarsambandi við Ellu. Dag einn finna Joe og Leslie lík ungrar konu fljótandi í höfninni. Brátt kemur í ljós að Joe veit meira um málið en hann lætur uppi.

Almennt um myndina:
David Mackenzie er líttþekktur skoskur leikstjóri en þetta er önnur mynd hans í fullri lengd en hann hefur áður leikstýrt þrem stuttmyndum; California Sunshine (1997), Somersault (1999) og Marcie’s Dowry (1999). Fyrsta mynd hans í fullri lengd var The Last Great Wilderness (2002), en undirritaðir hafa hvorki séð stuttmyndir hans né þá mynd. Af þessari mynd að dæma er þó ljóst að hér er djarfur og hæfileikaríkur leikstjóri á ferð sem spennandi verður að fylgjast með í framtíðinni.

Young Adam er byggð á samnefndri skáldsöguAlexander Trocchi frá 1954. Og Mackenzie þykir takast vel upp í útfærslu sinni á sögunni. Hann ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur með því að gera neo-noir mynd um andhetju sem áhorfandanum á erfitt að samsama sig við og því meir sem líður á myndina. Honum tekst einstaklega vel, í samvinnu við kvikmyndatökumanninn Giles Nuttgens (The Deep End: 2001), að fanga andartakið í lífi fólks sem og hugsanir þeirra, án þess að styðjast við sögumann eða aðrar einfaldar lausnir. Þá hefur myndin mjög þroskað og heilsteypt yfirbragð með hægan og þéttan stíganda, nánast eins og hægur hjartsláttur. Hugmyndarík sviðsmynd og hrífandi tónlist David Byrne tekst jafnframt einstaklega vel að fanga andrumsloft og vonleysi eftirstríðsáranna í Bretlandi.

Aðalleikarar myndarinnar eru engir aukvisar, en öll standa þau sig alveg framúrskarandi vel. Ewan McGregor sló fyrst í gegn í hryllingsmyndinni A Shallow Grave (Danny Boyle: 1994) og svo aftur í Trainspotting (Danny Boyle: 1996). Þá vakti hann nokkra athygli í Star Wars: Episode 1 og 2 sem Obi-Wan Kenobi, (George Lucas: 1999 og 2002) þótt það sé nú líklega vegna vinsælda þeirra mynda frekar en einhverja leiksigra. Hans stærsta og eftirminnilegasta hlutverk er þó aðalhlutverkið í Moulin Rouge (Baz Luhrmann: 2001). Ewan McGregor tekst einstaklega vel að tjá hinn tilfinningadofna og eigingjarna Joe Taylor.

Shakespeare leikkonan Tilda Swinton stendur sig einnig stór vel, en hún er hvað þekktust fyrir hlutverk sín í Edward II (Derek Jarman: 1991), Orlando (Sally Potter: 1992) og Adaptation. (Spike Jonze: 2002) en meðal annarra frægra mynda sem hún hefur leikið í er The War Zone (Tim Roth: 1999), The Beach (Danny Boyle: 2000), The Deep End (Scott McGehee og David Siegel: 2001) og Vanilla Sky (Cameron Crowe: 2001).

Þá er Peter Mullan engu síðri í hlutverki hins kokkálaða og drykkfelda Les. Peter Mullan er fyrst og fremst þekktur sem leikari í myndum á borð við Riff-Raff (Ken Loach: 1990), Braveheart (Mel Gibson: 1995), Trainspotting (Danny Boyle: 1996) og My Name Is Joe (Loach: 1998). Hann hefur þó einnig leikstýrt nokkrum myndum en af þeim er The Magdalene Sisters (2002) þeirra þekktust.

Það er í raun furðulegt að jafn þung, dimm og krefjandi neo-noir mynd skuli á annað borð hafa fengist gerð en McGregor staðfestir í nýlegu viðtali að það hafi ekki verið auðvelt að fá framleiðendur að myndinni.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Í sögunni af Adam og Evu segir frá því þegar Adam og Eva földu sig eftir að hafa etið af skilningstré góðs og ills. Þegar Guð spyr Adam hvar hann sé segist Adam hafa falið sig vegna þess að hann var nakinn. Guð spyr þá: „Hver hefur sagt þér, að þú værir nakinn? Hefur þú etið af trénu sem ég bannaði þér að eta af?“ Adam neitar að taka ábyrgð á eigin gjörðum og segir: „Konan, sem þú gafst mér til sambúðar, hún gaf mér af trénu, og ég át.“ (1M 3:10-12)

Þessi kafli gæti verið yfirskrift þessarar myndar. Það er áhugavert að þótt myndin (og bókin eftir Alexander Trocchi) heiti Adam ungi/ungur ber enginn það nafn. Aðalpersóna myndarinnar/sögunnar heitir Joe Taylor. Hver er þá þessi Adam? Titillinn gæti merkt „ungur maður“ en líklegra er að hér sé verið að vísa til sögunnar af Adam og Evu. Það er áhugavert að pramminn sem Joe Taylor vinnur á ber heitið Atlantic Eve. Þá er vísað til sögunnar af Adam og Evu í lokalagi myndarinnar (The Great Western Road) eftir David Byrne, en þar segir meðal annars:

„The Old Human Highway
From Eden to Nod
Brothers and Sisters
Husbands and Wives
Strangers and Cripples
In love with their lives“

Allt gefur þetta til kynna að nafn myndarinnar hafi guðfræðilega vísun. Það er einnig margt líkt með Joe Taylor og Adam í Biblíunni. Hann veður úr einni syndinni í aðra, án þess að taka ábyrgð á sínum eigin gjörðum. Rétt eins og Adam sem hleypur í felur og skellir svo skuldinni á Guð (sem gaf honum konu) og Evu (sem rétti honum ávöxtinn). Þá er það einnig áhugavert að synd Joe Taylor er fyrst og fremst kynferðisleg en í kristinni túlkunarhefð hefur kynlífið oft verið tengt við fallið. Hann sefur með nánast hvaða kvenmanni sem hann kemst í tæri við, hvort sem hún er gift eða ekki eða eiginkona vinar hans eða ekki, en hleypur síðan í burtu þegar hann þarf að axla ábyrgð.

Augljósasta dæmið um afskipta og ábyrgðarleysi Joe er framkoma hans við Cathy, en um leið og hún er orðin ólétt hafnar hann henni, jafnvel þótt þau séu nýbúin að elskast. Þegar hún reynir að elta hann á bryggjunni og dettur óvart út í sjó reynir hann ekki að bjarga henni, jafnvel þótt hann viti að hún er ósynd. Þess í stað felur hann vegsummerkin og flýr hann af hólmi. Joe reynir síðar reyndar að telja sjálfum sér trú um að þetta hafi verið slys en ekki er hægt að líta öðruvísi á aðgerðaleysi hans en sem morð. Jafnvel þegar pípari nokkur er dæmdur saklaus til dauða fyrir morðið á Cathy er Joe fyrirmunað að taka ábyrgð á gjörðum sínum til að bjarga lífi saklauss manns.

Hann skrifar reyndar nafnlaust bréf til dómarans sem þar sem hann segir Cathy hafa dáið af slysförum og að píparann sé því saklaus en það er greinilega ekki tekið neitt mark á því, enda er Joe ekki tilbúinn að gangast við innihaldi þess. Þegar að dómsuppkvaðningu kemur þá situr Joe, eins og áður er getið, í salnum og hlýðir á það þegar dauðadómur er kveðinn upp yfir saklausum manni án þess að gangast við eigin synd. Að þessu leyti er Joe andstæða Krists. Jesús dó saklaus fyrir syndir annarra en Joe lætur aðra deyja fyrir sínar eigin syndir.

En aftur að lagi David Byrne. Í fyrrnefndum texta segir að allt þetta fólk sem kemur fyrir í textanum sé ástfangið af eigin lífi. Þessi lýsing á vel við Joe Taylor. Hans markmið með lífinu virðist vera það eitt að uppfylla eigin þarfir og langanir en hann er t.d. aldrei tilbúinn að leggja neitt í þau fjölmörgu sambönd sem hann stofnar til. Í þessu sambandi er áhugavert að á spegil sem Cathy gaf honum er skrifað: „Think of me when you look at yourself, with undying love.“ Merkingin er að sjálfsögðu sú að hann eigi að hugsa til hennar, brennandi af ást, þegar hann lítur í spegilinn. Hins vegar má einnig skilja setninguna á þá vegu að hann eigi að hugsa til hennar þegar hann lítur á sig í speglinum, brennandi af ást til sjálfs sín. Sú túlkun á orðunum á að mörgu leyti betur við Joe en upprunaleg merking þeirra.

Túlkun myndarinnar á sögunni af Adam og Evu er því sú að fallið felist fyrst og fremst í sjálfumhverfu ástandi mannsins. Í þessu sambandi verður manni hugsað til lýsingar Ágústínusar og síðar Lúthers á ástandi mannsins, en sá síðarnefndi sagði að hinn fallni og syndugi maður væri kengboginn inn í sjálfan sig (homo incurvatus in se). Hann er algjörlega sjálfhverfur. Sú lýsing passar vel við Joe.

Annars er það athyglisvert við myndina að hún geymir fyrst og fremst þessa lýsingu á ástandi mannsins, en enga endurlausn. Þannig er hún ekki hjálpræðissaga eins og oft er raunin með myndir af þessu tagi heldur minnir hún frekar á spegil (sbr. spegilinn sem Cathy gefur Joe) sem er brugðið upp af ástandi mannsins og sem kann að nýtast áhorfendum til að skoða sig sjálfa(n).

Hér má horfa til siðferðisstefja, en af þeim er mikið í myndinni. Þau eru kynnt til sögunnar án þess að nokkur afstaða sé tekin til þeirra. Eins og þegar hefur komið fram eru þau helstu tengd kynlífi. Joe er uppfullur af losta til kvenna og engin gift kona er óhult fyrir töfrum hans, ef svo má að orði komast. En hann er jafnframt mjög ófyrirleitinn í samskiptum sínum við konur, notar þær til að fullnægja eigin löngunum. Eitt besta dæmið um þetta er sena þar sem hann niðurlægir Cathy, lemur hana og nauðgar henni að lokum.

Að lokum má geta þess að tónlist David Byrne við kvikmyndina hefur verið gefin út en nafn hljómplötunnar er reyndar einnig ágætis yfirskrift myndarinnar: „Lead Us Not into Temptation“ eða „Eigi leið þú oss í freistni“.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 1M 2-3
Persónur úr trúarritum: Eva, Adam
Guðfræðistef: iðrun, vanrækslusynd, sekt, sektarkennd, samviskubit, dómsdagur
Siðfræðistef: nauðgun, framhjáhald, lygi, morð, skilnaður, fjárhættuspil, siðblinda, játning, dauðarefsing, öfundsýki, áfengisneysla, heimilisofbeldi
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: Eden, Nód
Trúarleg tákn: kross
Trúarleg reynsla: sýn