Kvikmyndir

2001: A Space Odyssey

2001: A Space Odyssey

Leikstjórn: Stanley Kubrick
Handrit: Stanley Kubrick og Arthur C. Clarke, byggt á skádsögu Arthur C. Clarke.
Leikarar: Keir Dullea, Gary Lockwood, William Sylvester og Daniel Richter
Upprunaland: Bandaríkin og Bretland
Ár: 1968
Lengd: 148mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0062622
Einkunn: 4

Ágrip af söguþræði:
Kvikmynd Stanley Kubricks 2001: A Space Odyssay er ein frægasta framtíðar-geimmynd allra tíma. Myndin hefst í dögun mannkynsins, þ.e. þegar maðurinn er enn api og skortir allt það sem aðgreinir mennina frá dýrunum. Einn daginn birtist steinsúla fyrir framan apahóp og um leið öðlast aparnir sköpunargáfu. Einn þeirra uppgötvar hvernig hægt er að nota bein sem vopn og eftir að hafa veitt sér til matar og náð stóru vatnsbóli á sitt vald kastar hann beininu í loft upp. Beinið breytist í geimstöð og við erum komin til “framtíðar”, þ.e. ársins 2001. Undarleg steinsúla hefur fundist á yfirborði tunglsins en súlan sendir útvarpsbylgjur í átt til Júpíters. Leiðangur er sendur til Júpíters til að kanna svæðið en á miðri leið gerir Hal (hin “óskeikula” tölva geimskipsins) mistök. Þegar skipverjar íhuga að taka tölvuna úr sambandi gerir hún uppreisn og reynir að koma þeim fyrir kattarnef. En hver er þessi steinsúla og hvað olli bilun í tölvunni?

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Þótt flestir væru strax sammála um að 2001: A Space Odyssay væri sannkallað meistaraverk þá fannst mörgum hún flókin og ruglingsleg. Hvað táknaði steinsúlan? Og hvernig bar að túlka hin furðulegu endalok myndarinnar? Sjálfur hef ég alltaf túlkað steinsúluna sem verkfæri Guðs. Það er hafið yfir vafa að steinsúlan olli því að aparnir öðluðust sköpunargáfu. Því er ljóst að steinsúlan er tákn fyrir eitthvað yfirnáttúrulegt eða er að minnsta kosti yfirnáttúruleg sjálf.

Trúartengslin eru áréttuð í lok myndarinnar þegar steinsúlan svífur í átt til Júpíters (hér ættu þeir sem ekki hafa séð myndina að hætta lestrinum). Bowman er eini skipverjinn sem lifði af uppreisn Hal. Þegar hann nálgast Júpíter ferðast hann í gegnum furðulegt landslag og marglita ljós. Það er líklega hægt að túlka þessar senur á margan hátt en kaflaheitin í DVD disknum eru ágætis hjálp; en þeir heita “And beyond the infinite” og “Through space and time”. Samkvæmt þessum titlum er ferðalag Bowmans hvorki meira né minna en ferðalag inn í eilífðina.

Þegar Bowman hefur dvalið um stund í eilífðinni (ef hægt er að tala um tíma á annað borð á þeim stað) birtist steinsúlan á ný og þá loks fær Bowman skýringu á því hvers vegna skip þeirra mátti ekki nálgast Júpíter. Verið er að skapa líf á Júpíter og afskipti mannanna getur skaðað hina viðkvæmu þróun. Hér er líklega einnig að finna ástæðuna fyrir því að Hal bilaði, en líklegt er að tölvan hafi verið rugluð til að gerð geimförunum ferðina erfiðari.

Í ljósi þessa er líklegt að steinsúlan sé í samskonar hlutverki og heilagur andi er í mörgum trúarbrögðum. Kvikmyndin 2010 styður einnig þessa niðurstöðu en hún er n.k. útskýring á 2001: A Space Odyssey.

Að lokum er gaman að geta þess að þegar myndin var frumsýnd sagði Arthur C. Clarke (höfundur sögunnar og handrits) að sagan fjallaði um hina réttu stöðu mannsins í alheiminum, þ.e. að mannkynið er ekki miðja alheimsins og ekki heldur mjög ofarlega í goggunnarröðinni. Um lokaatriðið sagði Clarke að það væri ferð inn í andlegt svið.

2001: A Space Odyssay hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér, ekki síst vegna þess að hún sameinar vísindi og trúarbrögð. Í myndinni er það viðurkennt að maðurinn hafi átt sér þróun en samt sem áður er gert ráð fyrir guðlegu inngripi í söguna. Myndin nær einnig að fanga mystíkina í trúarbrögðum og á ég þá sérstaklega við hið stórbrotna lokaatriði.

Persónur úr trúarritum: Heilagur andi
Guðfræðistef: eilífðin, sköpun
Siðfræðistef: lygi, morð,
Trúarleg reynsla: sýn