Blessun og barnsfæðing í bíó
Svefnherbergi. Dagur. Ung kona er að gera upp gamalt barnarúm. Skrapar af því málningu af því. Svo stynur hún stundarhátt og áhorfandinn áttar sig á tvennu: Hún er barnshafandi og það er komið að fæðingu. Og svo er klippt og barnið fæðist. Konan virðist óörugg og kannski fjarlæg meðan á henni stendur. En allt gengur eins og það á að ganga og barnið fæðist og það er lagt í fang móðurinnar. „Þetta er stúlka,“ segir ljósmóðirin. „Þetta er stúlka,“ segir hin nýbakaða móðir og það er ekki laust við að greina megi vonbrigði í röddinni. Þannig hefst danska kvikmyndin Blessun sem er sýnd á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík. Þetta er reyndar verðlaunamynd því hún hlaut fyrr á þessu ári kvikmyndaverðlaun sænsku kirkjunnar. Blessun fjallar um Katrine og hún gerist á fyrstu dögunum eftir fæðingu dóttur hennar og kærastans Andreasar. Dóttirin heitir Rose og barnsfæðingin, sem ætti að vera blessun og gleðigjafi, reynist ekki vera það. Lífið er ekki „dans á rósum“ – að minnsta kosti ekki fyrst um sinn. Barnið tekur ekki brjóst og hún …