Kvikmyndir

A Fistful of Dynamite

Leikstjórn: Sergio Leone
Handrit: Sergio Leone, Sergio Donati og Luciano Vincenzoni
Leikarar: James Coburn, Rod Steiger, Romolo Valli, Domingo Antoine, Rik Battaglia, Franco Graziosi, David Warbeck, Antoine Saint-John (undir nafninu Jean-Michel Antoine), Maria Monti, Vivienne Chandler, John Frederick, Michael Harvey, Biagio La Rocca, Vincenzo Norvese, Jean Rougeul, Renato Pontecchi og Anthony Vernon
Upprunaland: Ítalía
Ár: 1971
Lengd: 147mín.
Hlutföll: 2.35:1
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Fáfróður mexíkanskur bófi lætur draum sinn rætast um að ræna bankann í Mesa Verde en verður óvænt byltingarhetja fyrir vikið vegna bellibragðs eftirlýsts hryðjuverkamanns frá Írlandi.

Almennt um myndina:
Þetta var síðasti spaghettí-vestrinn sem Sergio Leone leikstýrði undir eigin nafni, en hann átti eftir að framleiða tvo til viðbótar sem hann leikstýrði sjálfur að hluta enda þótt aðrir væru skráðir fyrir þeim. Það voru vestrarnir My Name Is Nobody (Tonino Valerii: 1973) og A Genius, Two Partners and a Dupe (Damiano Damiani: 1975) og voru þeir báðir frekar í anda Trinity gamanmyndanna svo kölluðu en fyrri mynda Leones, jafnvel þótt einstök atriði í þeim bæru augljós höfundareinkenni meistarans.

Enda þótt kvikmyndin A Fistful of Dynamite sé jafnan talin síst af spaghettí-vestrum Leones, þýðir það alls ekki að hún sé eithvað slæm. Allir vestrar Leones voru frábærir og er aðeins stigsmunur á gæðum þeirra. Og jafnvel bestu spaghettí-vestrar annarra kvikmyndagerðarmanna eru síðri en þessi eða í besta falli svipaðir og hann.

Ein ástæða þess að aðdáendur Leones hafa flestir tekið hina spaghettí-vestra hans fram yfir þennan er sennilega sú tiltölulega óheflaða gamansemi sem einkennir hann. Þannig er t.d. Rod Steiger í hlutverki mexíkanska bófans Juans Miranda sýndur pissa yfir skordýr í upphafi myndarinnar og bæði persónur og bankar umbreytast fyrir augum hans í samræmi við draumóra hans. Í rauninni minnir persónusköpun hans á mexíkanska bófanum á þann grimma (eða réttara sagt ljóta samkvæmt ensku nafngiftinni) í spaghettí-vestranum The Good, the Bad and the Ugly (Sergio Leone: 1966), sem Eli Wallach lék með snilldarbrag, en það hafa ýmsir látið fara í taugarnar á sér, ekki síst framburður hans sem sagður er vera langt frá öllum kunnum spönskum mállýskum. Rod Steiger er engu að síður stórfenglegur í hlutverkinu og tekst auðveldlega að skapa tiltölulega siðlausan bófa, sem er í senn skondinn, aumkunarverður og viðkunnanlegur.

Aðrir leikarar myndarinnar eru sömuleiðis fínir, ekki síst James Coburn í hlutverki Johns Mallory hryðjuverkamannsins landflótta frá Írlandi, Romolo Valli í hlutverki eins af helstu byltingarhugmyndafræðingunum í Mexíkó og Domingo Antoine í hlutverki kinnfiskasogins herforingja sem sjaldnast segir neitt en er samt ein eftirminnilegasta persóna myndarinnar. Leone kunni svo sannarlega að velja leikara eftir útliti þeirra í jafnt aðalhlutverkin sem aukahlutverkin. Þá er David Warbeck (sem allir aðdáendur kvikmynda Lucios Fulci eiga að kannast við) vel valinn í hlutverk vinar Johns og baráttufélaga í IRA heima á Írlandi, en hann kemur aðeins við sögu þegar fortíðin er rifjuð upp með reglulegu millibili í gegnum alla myndina með frábærri tónlist snillingsins Ennios Morricone. (Þar sem söngtextinn er einskorðaður við nafnið Sean hafa ýmsir heimfært það upp á vininn en það gæti líka átt við John enda nefnir hann sig líka Sean í eitt skiptið.)

Handbragð Sergios Leones leynir sér ekki í myndinni enda er framsetningin frábær, persónusköpunin skondin, samtölin hnyttin, kvikmyndatakan snilld, ekki síst nærmyndirnar af andlitum og jafnvel augum sögupersónanna á viðeigandi augnablikum, og samspil tónlistar, myndar og klippinga frábær. Eitt eftirminnilegasta atriði myndarinnar er þegar mexíkanski herforinginn burstar tennurnar undir taktfastri en sýrðri tónlist Morricones þar sem hann er með herflokki sínum um borð í lest á leiðinni til vígstöðvanna til að berjast við byltingarsinnana. Í heild er myndin því veisla fyrir bæði augu og eyru áhorfandans.

Um tíma vildi Leone aðeins framleiða myndina og fá annan leikstjóra, en hvorki aðalleikararnir né fjármagnsveitendurnir sættu sig við það og settu það sem skilyrði fyrir þátttöku sinni að hann leikstýrði henni sjálfur. Samstarfsmenn Leones héldu því þó margir fram að hann hafi alla tíð viljað leikstýra myndinni sjálfur, en hafi bara viljað slá þann varnaggla að hann hefði þurft að bjarga henni á síðustu stundu ef hún skyldi mistakast og ekki falla í kramið hjá almenningi. Sagt er að Leone hafi alla tíð verið frekar óöruggur með sig auk þess sem fullkomnunarárátta hans hafi aukist til muna eftir því sem orðstír hans varð meiri.

Bent hefur verið á ýmis tengsl myndarinnar við vestrann The Wild Bunch (Sam Peckinpah: 1969), bandaríska kvikmynd sem margir telja vera undir áhrifum frá fyrri spaghettí-vestrum Leones. Báðir gerast þessir vestrar um svipað leyti í borgarastyrjöldinni í Mexíkó og byrja þeir báðir með skordýrum. Í The Wild Bunch kvelja nokkur börn sporðdreka til dauða með maurum en í A Fistful of Dynamite pissar Juan á skordýrin. Þýzkir hernaðarráðgjafar mexíkanska stjórnarhersins gegna þýðingarmiklu hlutverki í The Wild Bunch meðan nafn mexíkanska herforingjans Gunthers Reza í A Fistful of Dynamite virkar þýzkt, a.m.k. eiginnafnið. Athyglisvert er í því sambandi að Leone bauð Peckinpah samstarf við gerð myndarinnar en af því gat ekki orðið vegna anna hjá honum. Síðar skráði Leone nafn Peckinpahs á legstein í spaghettí-vestranum My Name Is Nobody og vottaði honum þannig virðingu sína með skondnum og kannski eilítið kaldhæðnum hætti.

Sjá má vísanir í ýmsar aðrar þekktar kvikmyndir, einkum þó í myndina The Informer (John Ford: 1935) sem segir frá Íra, sem svíkur félaga sinn í hendur yfirvalda í uppreisninni gegn yfirráðum Breta í landinu árið 1922. Finna má samsvaranir í þeirri mynd við flestar endurminningar Johns. Þar sem A Fistful of Dynamite gerist nokkrum árum áður en uppreisnin á Írlandi hófst, þ.e. skömmu fyrir fyrri heimsstyrjöldina, hafa ýmsir tilgreint það sem galla við myndina að þar skuli önnur aðalsöguhetjan vera liðsmaður írsku uppreisnarsamtakanna IRA (sem fljótlega tóku á sig mynd hryðjuverkasamtaka) en þau voru ekki stofnuð fyrr en árið 1919. Vel er hins vegar hægt að hugsa sér að einhverjir hefðu getað tekið upp baráttu gegn yfirráðum Breta í landinu nokkrum árum áður en sjálf uppreisnin hófst, jafnvel þótt margir liðsmennirnir hafi í raun verið ungir að árum við stofnun samtakanna.

Sögusvið myndarinnar er borgarastyrjöldin í Mexíkó skömmu fyrir fyrri heimsstyrjöldina. Eftir byltinguna árið 1910 reyndi Madero forseti að koma á umbótum í þágu eignarlaus bændarlýðsins en fékk samt nokkra af helstu stuðningsmönnum sínum upp á móti sér og var að lokum steypt af stóli af herforingjanum Huerta (nefndur forsjón Guðs af valdastéttinni í myndinni) sem reyndi síðan að brjóta uppreisnaröflin á bak aftur. Myndin gerist því undir lokin á valdartíma Huerta þar sem hann á í höggi við uppreisnarleiðtogana Zapata og Pancho Villa. Borgarastyrjöldinni var þó hvergi nærri lokið enda vörðu átökin fram yfir fyrri heimsstyrjöldina.

Upphaflega átti kvikmyndin að heita Einu sinni var bylting (C’era una volta la rivoluzione á ítölsku og Once Upon a Time the Revolution á ensku) í samræmi við titil besta spaghettí-vestra Leones, Once Upon a Time in the West, sem hann hafði þá nýlokið við, en hann hafði þá þegar ákveðið að gera einnig síðar meir gyðinglega mafíumynd með titlinum Once Upon a Time in America. Þar sem Once Upon a Time in the West varð ekki eins vinsæl og búist hafði verið við (nema í Frakklandi og nokkrum öðrum Evrópuríkjum) og stytt útgáfa myndarinnar hafði kolfallið í miðasölunni í Bandaríkjunum, var að lokum ákveðið að gefa nýju myndinni annan titil. Á Ítalíu er hún kölluð Giù la testa, en í enskumælandi löndum hefur hún oftast gengið undir titilunum Duck You Sucker! og A Fistful of Dynamite (í samræmi við titil fyrsta og eins af vinsælustu spaghettí-vestrum Leones, A Fistful of Dollars). Enda þótt hefðbundin aðstandendaskrá fylgi titillaginu í myndarbyrjun kemur sjálfur titillinn ekki fram fyrr en í lok myndarinnar. Sums staðar var þó upprunalegi titillinn notaður, sem Leone hafði í huga, t.d. í Frakklandi.

Ótal útgáfur eru til af myndinni þar sem ýmist framleiðendurnir eða rétthafarnir fyrir utan Ítalíu létu klippa hana, stytta og skera á alla kanta. Bandaríkjamenn töldu t.d. þennan skondna en hrottafengna og óvenjulega vestra úr mexíkönsku borgarastyrjöldinni lítt söluvænlegan og létu því stytta hann verulega til að geta sýnt hann á barna- og unglingasýningum þar sem lítið átti eftir að fara fyrir honum. Fyrir vikið hefur myndin verið illfáanleg óstytt og er raunar umdeilt hvernig sú útgáfa var eða átti að vera.

Á íslenskum myndbandaleigum hefur kvikmyndin verið ófáanleg nema í verulega styttri útgáfu með káputitlinum A Fistful of Dynamite og titlinum Duck You Sucker! í lokin en sú útgáfa var sýnd í Ríkissjónvarpinu á níunda áratugnum með íslenska titlinum Hnefafylli af dýnamíti og nokkru síðar á Stöð 2 með þeim mjög svo flatneskjulega titli Bankaræningjarnir. Sú útgáfa myndarinnar er 132 mín. að lengd og skorin hörmulega niður í hlutföllin 1.33:1, en nýverið kom hún út á DVD í Bretlandi í réttum 2.35:1 breiðtjaldshlutföllum og 147 mín. að lengd. Ítalski DVD diskurinn (sem hvorki er með ensku tali né enskum texta) er hins vegar enn lengri, en lengsta útgáfa myndarinnar var sýnd á kvikmyndahátíð þar í landi fyrir nokkrum árum síðan.

Þrátt fyrir að breska DVD útgáfan sé korteri lengri en stutta útgáfan hér á landi, vantar hana samt mikilvægt atriði úr henni, þ.e.a.s. næst síðasta atriði myndarinnar þar sem John hugsar helsár til helstu hamingjustundar lífs síns. Þar eltir hann unnustu sína í skóglendi heima á Írlandi og faðmar hana að sér í návist vinar þeirra en mjög svo viðeigandi tónlist snillingsins Ennios Morricone veitir atriðinu tilætluð áhrif. Atriðið í styttu útgáfunni er um hálf mínúta að lengd en á ítalska DVD diskinum er það mun lengra og ítarlegra og sést þar t.d. hversu illa vinurinn bregst við ástaratlotum elskendanna og þegar stúlkan kyssir hann síðan eins líka hverfur brosið af John. Þetta varpar auðvitað nýju og gleggra ljósi á örlög sögupersónanna allra.

Verulegur munur er einnig á lokaatriðinu í þessum mismunandi útgáfum myndarinnar. Í lok stuttu útgáfunnar hrópar Juan nafn írska hryðjuverkamannsins þegar hann áttar sig á því hvað hann æltar að gera og lítur svo framan í myndavélina með örvæntingarsvip og spyr hvað verði um sig, en titillinn Duck You Sucker! birtist þá með stórum stöfum yfir tjaldið. Á breska DVD diskinum heyrist hins vegar ekkert í Juan þótt hann augljóslega hrópi af öllum lífs og sálar kröftum og líti síðan beint framan í myndavélina, en titillinn A Fistful of Dynamite birtist þá með sama hætti.

Þótt ánægjulegt sé að sjá myndina loksins í réttum breiðtjaldshlutföllum og korteri lengri í þokkabót, þá verður það að teljast mikil vonbrigði að endirinn skuli hafa verið settur fram með þessum klúðurslega hætti. Atriðið sem vantar er eitt það besta úr allri myndinni og veitir henni aukna dýpt en auðvitað er það líka ferlegt er að ekkert skuli heyrast í Juan.

Flest af því sem vantar í stuttu útgáfu myndarinnar en er með á breska DVD diskinum er þýðingarmikið fyrir hana og gerir hana í alla staði heilsteyptari. Viðbæturnar eru þessar helstar:
(1) Myndin byrjar á tilvitnun í Mao Tse Tung þar sem hann heldur því fram að bylting sé ekkert annað en ofbeldi og verði aldrei framkvæmd með friðsamlegum hætti. (Leone sleppir reyndar úr þeim orðum Maós úr tilvitnunni að byltingin felist í því að stétt kollvarpi stétt.)
(2) Strax að tilvitnunni lokinni pissar Juan á skordýrin meðan hann bíður eftir hestvagni.
(3) Mun meira er sýnt frá því þegar Juan býr sig undir að nauðga yfirstéttarkonu sem hann hafði rænt.
(4) Sýnt er hvar konan og naktir fylgdarmenn hennar, þar á meðal rómversk-kaþólskur kardínáli, falla öll af hestakerru ofan í svínagryfju.
(5) Í alllöngu atriði neyðir Juan John til að myrða vinnuveitanda sinn, þýzkan auðjöfur, með því að sprengja í loft upp kirkju sem hann og samstarfsmenn hans eru niðurkomnir í.
(6) Atriðið þar sem Juan finnur börn sín öll myrt er mun lengra og klippt öðru vísi. Þannig sjást t.d. líkin ekki fyrr en í lok atriðsins í lengri útgáfunni.
(7) Mun meira er sýnt frá ýmsum fjöldaaftökum undir stjórn mexíkanska stjórnarhersins og er ofbeldið í myndinni víða mun ítarlegra og grófara.
(8) Eins og greint hefur verið frá hér að framan er lokaatriðið í lengri útgáfunni mun styttra og öðru vísi framsett.

Þess er óskandi að þegar myndin verður gefin út á DVD í Bandaríkjunum eða endurútgefin í Bretlandi þá verði það óstytta útgáfa hennar sem verði fyrir valinu. Auk þess má alveg skipta um kápumynd á DVD diskinum, sem er bæði óskýr og ljót.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Eins og aðrir spaghettí-vestrar Sergios Leone er ofbeldið mikið og virðingarleysið fyrir mannslífinu svo til algjört. Mexíkanski stjórnarherinn tekur hvern þann umsvifalaust af lífi sem grunaður er um stuðning við byltingaröflin og eru fórnarlömbunum jafnan stillt upp við vegg og þau skotin. T.d. er sýnt hvar liðhlaupi dulbúinn sem prestur er tekinn af lífi fyrir framan aftökusveit. Þegar á líður verða aftökurnar svo stórtækar að stjórnarherinn grípur til þess ráðs að smala saman hinum dauðadæmdu í gryfjur þar sem þeir eru síðan allir skotnir í stórum hópum.

Það sama gildir í raun um mexíkanska bófaforingjann, syni hans og ættingja en þeir drepa allir hiklaust flesta þá sem þeir eru í nöp við. Juan meira að segja signir sig og biður til Guðs áður en hann sallar stjórnarhermennina niður með vélbyssu sinni. Í raun er það ósköp táknrænt að Juan skuli pissa yfir skordýrin og heimkyni þeirra í myndarbyrjun. Samfélagið er gerspillt eins og sést vel í atriðinu, þar sem Juan tekst að sníkja sér far í stórum hestvagni í óþökk farþeganna. Allir eru þeir broddborgarar samfélagsins, einn er rómversk-kaþólskur kardínáli, annar bandarískur auðkýfingur og hinir mexíkanskt yfirstéttarfólk, sem hæðast að alþýðunni, fáfræði hennar, siðleysi og hugsjónum. Meira að segja kardínálinn kvartar undan þeirri kvöð að þurfa að hlýða á skriftir þessa auma lýðs, sem sagt er að hafi sjaldnast hugmynd um hver eigi hvaða barn. Þegar Juan rænir síðan fólkið öllu steini léttara og tekur yfirstéttarkonuna afsíðis til að nauðga henni, ákallar hún Jesúm eftir hjálp og segist u.þ.b. vera að falla í yfirlið, en bófinn segir henni glottandi að þá muni hún missa af því skemmtilegasta.

Þrátt fyrir allt er Juan trúaður, ber kross um hálsinn, er með heimilisaltari í vagninum sínum og ræðir við Guð um allt sem honum dettur til hugar. Þegar hann svo hittir írska hryðjuverkamanninn í fyrsta sinn og áttar sig á að þar er kominn maður með sérþekkingu á alls kyns hagnýtum sprengiefnum, umbreytist John fyrir augum hans í dýrling eða engil úr mexíkönskum helgidómi með nafn bankans í Mesa Verde sem yfirskrift á nokkurs konar geislabaugi yfir höfði hans um leið og heyra má viðeigandi kirkjuorgelundirleik að hætti Morricones. Eftir það kallar Juan sprengivökva hryðjuverkamannsins ávallt heilagt vatn (sbr. vígt vatn) og ber mikla virðingu fyrir honum.

Enda þótt allmargir ættingjar Juans týni tölunni framan af myndinni vegna ránsferða þeirra eða eigin axaskafta, hefur það sjaldnast nokkur áhrif á hann. Hann biður Guð þó um að varðveita börn sín þegar hann þarf að skilja við þau um miðja mynd en þegar hann finnur þau síðan aftur öll látin í felustað byltingarmannanna bregður honum svo mjög að hann verður aldrei samur aftur. Í reiði sinni snýr hann baki við Guði, rífur af sér krossinn og hendir honum burt, en John fylgist með án þess að segja nokkuð.

Undir lok myndarinnar þegar John liggur helsár eftir átökin við stjórnarherinn dregur hann hins vegar fram kross Juans og réttir honum. Í gegnum alla myndina hefur John þurft að hafa vit fyrir hinum fáfróða og tiltölulega einfalda mexíkanska bófa og er sem hann bendi honum á með þessu að það hafi verið lítt ígrunduð ákvörðun að kasta krossinum og trúnni enda þótt málin hafi þróast með öðrum hætti en hann vildi og ætlaðist til af Guði. Um leið og John réttir Juan krossinn segir hann jafnframt við hann: „Ó, vinur, mér þykir leitt að hafa farið svona svakalega illa með þig.“ Michael Carlson segir í bókinni Sergio Leone (Pockets Essentials, Harpenden, 2001) að það sé sem John veiti Juan trúna þar aftur með dauða sínum. Carlson heldur því ennfremur fram að lokaorð Juans þar sem hann spyr örvæntingarfullur hvað verði um sig minni á viðbrögð lærisveina Krists eftir krossdauða hans.

Það er þó ekki alveg út í hött að tala um kristsvísun eða gerving í tengslum við John. Margar sögur eru til af einræðum Leones um kvikmyndir meðal vina sinna og samstarfsmanna, hvernig hann baðaði út höndunum til að leggja áherslu á orð sín og notaði háfleyg dæmi til að lýsa sviðsetningu tiltekinna atriða og boðskap þeirra. Peter Bogdanovich, sem um tíma átti að leikstýra myndinni en féll brátt í ónáð hjá Leone, segir að meistarinn hafi alloft fullyrt að vestrinn væri í raun um Jesúm Krist og flutt langar einræður um írska hryðjuverkamanninn sem kristsgerving. Eftir að nokkrar greinar höfðu birst um trúarleg táknmál í myndum hans, hafi Leone orðið einstaklega upptekinn af þeirri djúpu speki sem ýmsir þóttust finna í verkum hans. Einn af handritshöfundum myndarinnar, Luciano Vincenzoni (sem reyndar skrifaði nokkur háguðfræðileg kvikmyndahandrit), er sagður hafa sagt háðslega um þetta að „hugmyndin hafi í raun verið sú að Leone ætti að vera Guð og James Coburn sonur hans Jesús Kristur.“ Sir Christopher Frayling tekur þó upp hanskann fyrir Leone og segir ástæðuna fyrir skrifum sínum um trúarstef í myndum hans á þessum árum hafa einfaldlega verið þá að Leone hafði sjálfum verið tíðrætt um þau allt frá upphafi leikstjórnarferils síns. (Christopher Frayling: Sergio Leone: Something to do with Death. Faber and Faber. London. 2002.)

Hörmulegar afleiðingar svika er annað mikilvægt stef myndarinnar. Bæði á Írlandi og í Mexíkó svíkja mikilvægir liðsmenn úr innsta hring byltingarleiðtoganna félaga sína með þeim afleiðingum að margir þeirra láta lífið. Í kvikmyndinni The Informer, sem spaghettí-vestrinn er undir augljósum áhrifum frá, eru þessi svik heimfærð upp á Júdas en í þessu tilfelli er aldrei á hann minnst. Engu að síður má sjá þar vissa hliðstæðu enda er svikarinn náinn vinur þess og jafnvel þeirra sem hann svíkur og leiðir það að lokum til dauða þeirra. Í guðspjöllunum er gefið í skyn að ástæða svika Júdasar hafi verið fégræðgi hans en ýmsar aðrar túlkanir hafa einnig komið fram, m.a. í þeim biblíumyndum sem gerðar hafa verið um Jesúm Krist. Svikararnir tveir í spaghettí-vestranum A Fistful of Dynamite svíkja hins vegar félaga sína þegar þeir eru pyntaðir, enda má sjá á andlitum þeirra merki um þær misþyrmingar sem þeir höfðu mátt sæta frá kvölurum sínum. Annar þeirra er myrtur fyrir vikið, en hinn kýs að svipta sig lífi eins og Júdas forðum, reyndar ekki með því að hengja sig heldur með því að valda árekstri tveggja lesta á fullri ferð. Í lengstu útgáfu myndarinnar er jafnframt gefið í skyn að afbrýðisemi hafi átt hlut að máli hjá vininum sem sveik félaga sína heima á Írlandi. Reyndar hefur einnig verið bent á það í því sambandi að kannski hafi það verið John sem sveik vin sinn upphaflega í hendur yfirvaldanna vegna afbrýðisemi sinnar samkvæmt lengstu útgáfu lokaatriðsins. Sjálfur hélt Leone því þó fram að konan ætti þar að tákna byltingarhugsjónina sem vinirnir reyndu báðir að eignast en glötuðu svo að lokum.

Svo virðist sem John hafi misst trúna á málstað byltingarinnar vegna svikseminnar og afleiðingar hennar. Að vísu gengur hann til liðs við mexíkönsku uppreisnarmennina en óvíst er hvort það hafi verið ætlun hans þegar hann flýði til Mexíkó, enda talar hann um það snemma í myndinni að hann ætli að ganga þar í þjónustu þýzks auðjöfurs sem síðan er myrtur að tilstuðlan Juans þar sem hann vill allt til þess vinna að fá John í lið með sér til að ræna bankann í Mesa Verde. Auk þess dregur John víða úr mikilvægi byltingarinnar, t.d. þegar hann segir: „Eitt sinn trúði ég á margt, á allt saman! Núna trúi ég bara á dýnamítið.“ Þegar upp kemst um svik eins af mexíkönsku byltingarleiðtogunum undir lok myndarinnar, segir John við hann, að hann muni ekki dæma hann, því að það hafi hann þegar gert öðrum manni og það hafi verið nóg.

Sagt er að um miðjan sjöunda áratuginn hafi sérhver marxisti í evrópska kvikmyndaiðnaðinum viljað gera vestra til að koma gagnrýninni á auðvaldshyggjuna og heimsvaldastefnuna á framfæri við almenning. Dæmi um slíka vinstri sinnaða spaghettí-vestra eru A Bullet for the General (Damiano Damiani: 1965), The Big Gundown (Sergio Sollima (1966), Kill and Pray (Carlo Lizzani: 1968), Blood and Guns (Giulio Pertroni: 1968) og Revenge of Trinity (Mario Camus: 1971). Í rauninni má líta á spaghettí-vestrann A Fistful of Dynamite sem háðsádeilu á þessa tilhneigingu að koma marxískri hugmyndafræði til skila í formi spaghettí-vestra. Sergio Leone dregur upp neikvæða mynd af öllum hlutaðeigandi í stéttarbaráttunni og tekur ekki afstöðu með neinum, ekki frekar en sögupersónurnar sem ýmist verða afhuga byltingunni eða verða hreinlega byltingarhetjur gegn vilja sínum þegar þeir ætluðu sér eitthvað allt annað og verra.

Leone hafði fyrir löngu glatað trúnni á stjórnmálastefnur og taldi þær allar hafa brugðist. Í einu viðtalinu sagði hanni: „Stjórnmálin á Ítalíu eru orðin glórulaus. Það er þess vegna sem ég geri myndirnar mínar eins og ég hef þær.“ Fjölskylda Leones hafði fylgt jafnaðarmönnum að máli en hann sneri brátt við þeim baki. „Við skulum segja að ég sé vonsvikinn jafnaðarmaður. Að því marki að verða stjórnleysingi. En þar sem ég hef samvisku, er ég hógvær stjórnleysingi sem kastar ekki sprengjum í allar áttir … Það sem ég á við er að ég hef upplifað svo til öll rangindi sem lífið hefur upp á að bjóða. Svo hvað stendur eftir að lokum? Fjölskyldan. Hún er eina frumgerðin mín ­ komin frá forsögulegum tímum. … Hvað annað er þar að finna? Vinátta. Og það er allt og sumt. Ég er bölsýnismaður að eðlisfari. Hjá John Ford fær fólk að líta út um gluggann með von. Ég sýni hins vegar fólk sem þorir ekki einu sinni að opna dyrnar. Og ef það gerir það, fær það jafnan byssukúlu milli augnanna. En þannig er það bara. Stjórnmál eru aldrei fjærri kvikmyndum mínum. Og í kvikmyndunum eru það stjórnleysingjarnir sem eru hinar sönnu persónur.“ (Christopher Frayling: Sergio Leone.)

Leone var með öllu áhugalaus um stjórnmálalega þýðingu byltingarinnar í Mexíkó á sínum tíma. Hann vildi hins vegar nota hana sem tákn, dæmisögu eða mýtu um böl heimsins á öllum tímum, ekki síst þó grimmdarverk nazista og fasista í síðari heimsstyrjöldinni, vegna þess hversu þekkt hún er, m.a. í kvikmyndasögunni. Það var einkum af þeirri ástæðu sem Leone vildi upphaflega kalla myndina Einu sinni var bylting.

Titillinn Duck You Sucker! er þó lýsandi fyrir viðhorf Leones og boðskap hans í myndinni, en hann má þýða sem „Forðaðu þér, flónið þitt!“. Boðskapurinn er því sá að maður skuli ekki blanda sér í málin því að þá geti hæglega farið illa fyrir manni. Í myndarbyrjun kemur við sögu fátækur bófi sem er skítsama um allt nema fjölskyldu sína en í lokin stendur eftir uppreisnarmaður sem sér hvernig byltingarhugsjónin hefur tortýmt öllu sem var honum kært. Leone útskýrði þetta með tilvísun í skilningstré góðs og ills og syndafallsins: „Írínn hefur gefið Mexíkananum samvisku, en fyrir vikið er hann glötuð sál um alla eilífð.“ En um leið tekst mexíkanska bófanum að sýna hryðjuverkamanninum fram á tilgangsleysi byltingarinnar þegar hann bendir honum á að hún hafi aldrei leyst vanda lítilmagnans. Það hafi ávallt verið lítilmagninn sem hafi þurft að líða mest í öllum byltingum og hlutskipti hans hafi alltaf orðið það sama, þ.e. dauðinn. Fyrir vikið hendir John bókinni sem hann hafði verið að lesa, stjórnmálariti eftir Michael A. Bakunin, og gefur byltingarhugsjónina að því er virðist endanlega upp á bátinn. Ekki kemur á óvart að myndin skuli hafa verið fordæmd af ýmsum vinstri sinnuðum kvikmyndagagnrýnendum á sínum tíma.

Hliðstæður við texta trúarrits: 1M 3, 3M 24:20
Persónur úr trúarritum: Jesús Kristur
Sögulegar persónur: Maó Tse Tung
Guðfræðistef: forsjón Guðs, kraftaverk Guðs, töfrar, hlið himins, örlög, bölsýni, varðveisla Guðs, kristsvísun, trúin
Siðfræðistef: manndráp, ofbeldi, bylting, félagslegt misrétti, stéttaskipting, niðurlæging, lauslæti, kynþáttahatur, nauðgun, þjófnaður, hefnd, svik, stríð, aftaka, borgarastyrjöld, hryðjuverk, hetjudáð, sorg, dauðarefsing, sjálfsvíg, liðhlaup
Trúarbrögð: rómversk-kaþólska kirkjan, heiðindómur
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: kross í hálsmeni, kross, heimilisaltari, dýrlingamynd, heilagt vatn, maríulíkneski, geislabaugur, maríulíkneski
Trúarleg embætti: rómversk-kaþólskur kardínáli, töframaður
Trúarlegt atferli og siðir: sverja við Guð, bæn, fyrirbæn, kropið, signun, skriftir
Trúarleg reynsla: reiði við Guð