Kvikmyndir

A.I. Artificial Intelligence

Leikstjórn: Steven Spielberg
Handrit: Ian Watson og Steven Spielberg. Byggt á smásögunni Supertoys Last All Summer Long eftir Brian Aldiss.
Leikarar: Haley Joel Osment, Jude Law, Frances O’Connor, Sam Robards, Jake Thomas, Daveigh Chase, Brendan Gleeson, William Hurt
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 2001
Lengd: 145mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Credits?0212720
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Vélmennið Davíð er fullkomin eftirmynd ellefu ára drengs. Hann er fyrsta gervigreindarvélmennið sem getur raunverulega elskað og það skilyrðislaust. Sonur hjónanna Henry og Monicu er í svefndái en til að vinna sig úr sorginni fallast þau á að prófa Davíð. Monica forritar hann til að elska sig en þegar sonur þeirra vaknar úr svefndái er ekki lengur þörf fyrir Davíð. Hann er því skilinn eftir út í skógi og á að bjarga sér upp á eigin spýtur. En Davíð er sannfærður um að „móðir“ hans myndi endurgjalda honum ástina ef hann verði raunverulegur drengur og hefur leit sína að dísinni góðu með töfrasprotann sem mun breyta honum í alvöru strák.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Þá er hún loksins komin, myndin sem Stanley Kubrick entist ekki ævin til að klára. Steven Spielberg hljóp í skarðið og kláraði myndina fyrir vin sinn. Þótt maður gleðjist vissulega yfir því að vinna Kubricks skuli ekki hafa farið í vaskinn þá verð ég að viðurkenna að myndin olli mér nokkrum vonbrigðum. Einn helsti galli myndarinnar er hversu ósamstæð hún er. Til skiptist er myndin í anda Kubrick og Spielberg. Báðir leikstjórarnir eru risar á sínu sviði en ekki er þar með sagt að stíll þeirra fari endilega vel saman. Spilberg hefur alltof sterkan persónulegan stíl til að geta gert mynd í anda Kubrick. Úr verður ruglingsleg blanda með ólíku handbragði. Í upphafi er stíllinn kaldur og vitsmunalegur í anda Kubricks en þróast svo út í Spilberg ævintýrablæ sem minnir á E.T. og Close Encounters of the Third Kind.

Annað vandamál myndarinnar er handritið. Þrátt fyrir að það sé byggt á smásögu vantar í það alla stefnu. Í stað þess að draga fram einn þátt eða einn boðskap er reynt að fjalla um allt samtímis. Þarna ægir öllu saman og á rúmum tveimur tímum fær áhorfandinn aðeins að kynnast jafn stórum viðfangsefnum og eðli mannsins, trúarþörf, heimilisofbeldi, kynþáttafordómar, ást, hatur, umhverfisvernd, tilvist Guðs, sköpun í mynd Guðs, maðurinn sem skapari, dauðinn, fóstureyðing, tilgangi lífsins og svo mætti lengi telja.Í sjálfu sér er ekkert slæmt við að hafa þetta mörg járn í eldinum, en því fylgir alltaf sú hætta að hverju viðfangsefni sé ekki gefinn nægur gaumur og að umfjöllunin verði of grunnhyggin. Þetta eru einmitt örlög A.I. Í myndinni er raunverulega stöðugt verið að velta upp nýjum spurningum og álitamálum, en engin þeirra fær þá umfjöllun sem æskilegt væri.

Myndin er augljóslega nútíma útfærsla á Gosa og sem slík er hún stórskemmtileg útlegging. Þótt sagan af Gosa sé augljósasti efniviður myndarinnar minnir hún einnig mikið á The Wizard of OZ, Blade Runner og Frankenstein. Hliðstæðurnar við Blade Runner eru mjög áhugaverðar. Í báðum myndunum hefur maðurinn skapað fullkomna eftirmynd af sjálfum sér (sbr. Fyrstu Mósebók þar sem Guð skapar manninn í sinni mynd), en skortir siðferðisþrek til að umgangast sköpun sína af virðingu. Í báðum myndunum er sköpunin gerð mennskari en skaparinn. Rétt eins og í Blade Runner leitar sköpunin að þeim einstaklingi sem getur gert hana fullkomlega mennska. Báðar myndirnar fjalla því um eðli mannsins og þá staðreynd að manninum farnast illa að vera í hlutverki Skaparans.

Guð skapar til blessunar, en það sem maðurinn skapar er hins vegar ekki til blessunar, heldur til ills. Þetta er áréttað strax í upphafi myndarinnar, en hún gerist á þeim tíma þegar mengun mannanna hefur leitt til þess að allir jöklar jarðar hafa bráðnað og fært fjölda landa og borgir í kaf. Afleiðingar þessa urðu þær að minna af mat var til skiptanna. Því tók maðurinn að skapa vélmenni sem þurftu ekki á fæðu að halda. Vélmenni sem hægt var að þrælar út og henda þegar þau biluðu eða ekki var lengur þörf fyrir þau. Myndin fjallar því fyrst og fremst um manninn sem skapara, eða réttara sagt manninn sem misheppnaðan skapara. Því maðurinn skapar ekki af ást eða til að elska heldur af eigingirni og fullkomnu ábyrgðarleysi. Þetta kemur skýrt fram í fyrstu senu myndarinnar þar sem skapari Davíðs kynnir áætlun sína um að skapa fullkomið barn, barn sem veikist aldrei og er alltaf blítt og elskulegt. Þegar hann er spurður hvort mannkynið kunni að meta slíka gjöf og geti endurgoldið skilyrðislausa ást barnsins svarar hann með því að vitna í söguna af Adam og Evu: “Skapaði Guð ekki Adam svo hann mætti elskað sig?” Afstaða til sköpunarinnar er augljós: Maðurinn hefur enga siðferðilega ábyrgð gagnvart sköpun sinni.

Ástæðan fyrir því að Guð skapaði manninn kemur reyndar hvergi fram í sögunni af Adam og Evu, en jafnvel þótt við gefum okkur að Guð hafi skapað manninn svo hann mætti elska sig þá er ljóst að Guði hafur alltaf látið sér annt um sköpun sína, nokkuð sem ekki verður sagt um mannkynið í kvikmyndinni A.I. Framkoma þess við vélmennin minnir um margt á þrælahaldið í suðurríkjum Bandaríkjanna eða meðhöndlun Rómverja á kristnum á dögum frumkristninnar.

Sköpunarstaður Davíðs er því ekki fullkominn Edenslundur heldur sjálfumhverfur og fjandsamur heimur. Hér er enginn snákur og enginn forboðinn ávöxtur. Sköpunin er dæmd til refsingar frá fyrsta degi, og svo lengi sem Guð hennar lifir, mun hún kveljast.

Mennskan er einnig fyrirferðamikið viðfangsefni í myndinni. Davíð elskar “móður” sína skilyrðislaust (einhverja hluta vegna hefur hann engar tilfinningar til “föður” síns) en hans heitasta ósk að “móðir” hans endurgjaldi honum ástina. Þegar móðirin skilur hann eftir út í skógi, langt frá heimili sínu, sannfærist Davíð um að fjandskapur hennar sé honum sjálfum að kenna. Hann er þess fullviss að móðir hans myndi elska hann ef hann væri alvöru barn. Þar sem Davíð þekkir söguna af því hvernig dísin breytti Gosa í lifandi barn ákveður hann að leita dísina uppi og biðja hana að gera sig mennskan.

En í hverju fellst mennska mannsins og er hún í raun svo eftirsóknarverð? Hvað er það sem greinir vélmennin frá mönnunum og veldur því að annað getur talist mennskt og hitt ekki? Í myndinni hrópar einmitt eitt vélmennið: “Ég er!”, en hér er líklega verið að vísa í fræg orð Descartes, “Ég hugsa, þess vegna er ég”. Vélmennin hugsa og eru meðvituð um eigin tilvist en samt sem áður er gengið út frá því sem vísu að tilvist þeirra skipti engu.

Megin niðurstaða myndarinnar er tvíþætt, jákvæð og neikvæð. Jákvæða niðurstaðan er sú að mennska mannsins felist í trúarþörf mannsins. Það eðli mannkynsins að trúa á æðri mátt og að líf þess hafi tilgang. Að þessu leyti sannar Davíð að hann er álvöru strákur því trú hans er óbifanleg og fyrir vikið er hann á vissan hátt bænheyrður.

Neikvæða niðurstaðan er sú að maðurinn er einnig ótrúr, hrokafullur og spilltur í eðli sínu. Maðurinn þekkir ekki stað sinn í náttúrunni, og í stað þess að tilbiðja Guð beinir hann oft trúarþörf sinni að sjálfum sér. Fyrir vikið eyðir mannkynið sjálfu sér. Kaldhæðnin er sú að um leið verður það sem maðurinn skapaði raunverulegra en hinir feigu skaparar þess, því það er sköpunin sem lifir áfram og geymir minninguna um skapara sinn.

Að lokum er áhugavert að skoða myndina í ljósi heimilisofbeldis. Davíð er í raun dæmi um barn sem foreldrar bregðast algjörlega og fyrir vikið er hann rændur lífsgleði sinni og hamingju. Það er einkar viðeigandi að hann skuli vera vélmenni sem eldist aldrei. Jafnvel þótt aldirnar líða þá er hann ávallt barn. Það sama hendir oft þá sem verða fyrir kúgun og ofbeldi í bernsku. Þeir eru rændir lífsgleðinni og hætta að þroskast. Alla sína ævi eru þeir að fást við sömu atvikin úr bernsku sinni og því geta þeir ekki notið líðandi stundar. Það er eins og þeir séu frystir í tíma og rúmi. Þetta eru einmitt örlög Davíðs. Hann er heiltekinn af þeirri þrá að öðlast ást móður sinnar og því ófær um að lifa merkingartæku lífi. Hann er fullviss um að óvild móður hans sé honum sjálfum að kenna og því lifir hann í stöðugri sektarkennd og sjálfsafneitun. Myndin er því einnig áhugavert dæmi um sálarflækju og vanlíðan barna sem alin eru upp við heimilisofbeldi.

Af öllu þessu er ljóst að A.I. er einkar áhugaverð kvikmynd og þrátt fyrir fyrrnefnda vankanta skal það viðurkennast að myndin er nokkuð Góð. Vandinn er bara sá að hún hefði getað verið miklu betri … ef Kubrick hefði verið við stjórnvölinn.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 1M 2-3, Jh 8:7
Hliðstæður við texta trúarrits: 1M 1:26-27
Persónur úr trúarritum: María mey
Guðfræðistef: ást, dauði, hatur, heimsslit, mennska, tilgangur lífsins, upprisa
Siðfræðistef: fordómar, heimilisofbeldi, kynþáttahatur, umhverfisvernd, útburður
Trúarbrögð: kristni
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: kross
Trúarlegt atferli og siðir: bæn