Kvikmyndir

A Minute to Pray, a Second to Die

Leikstjórn: Franco Giraldi
Handrit: Louis Garfinkle, Ugo Liberatore og Albert Band
Leikarar: Alex Cord, Arthur Kennedy, Robert Ryan, Mario Brega, Nicoletta Machiavelli, Enzo Fiermonte, Giampiero Albertini, Renato Romano, Franco Lantieri, Rosita Palomar, Alberto Dell’Acqua, Ottaviano Dell’Acqua, Daniel Martín, José Manuel Martín, Antonio Molino Rojo og Giovanni Ivan Scratuglia
Upprunaland: Ítalía
Ár: 1968
Lengd: 99mín.
Hlutföll: 1.85:1 (var 2.35:1)
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Clay McCord er sárþjáður bæði á líkama og sál. Mest alla ævina hefur hann verið ofsóttur af meðbræðrum sínum og eftirlýstur af yfirvöldum enda með fjölmörg mannslíf á samviskunni allt frá því þegar hann skaut morðingja föður síns til bana aðeins barn að aldri. Og þegar hann þarf mest á byssu sinni að halda fær hann orðið sársaukafullt krampakast í hægri handlegginn sem aðeins ágerist sem á líður. Þegar hann síðan fréttir að ríkisstjóri Nýju Mexíkó hafi ákveðið að veita öllum þeim útlögum sakaruppgjöf sem gefi sig fram innan tiltekins tíma og heiti því að snúa af glæpabrautinni, vaknar hjá honum von um nýtt og betra líf.

Lögreglustjórinn sem McCord gefur sig fram við telur hann hins vegar of illræmdan til að hljóta sakaruppgjöf og neyðist hann því til að flýja á ný við illan leik. Þegar ríkisstjórinn svo fréttir af þessu ákveður hann að leita manninn uppi til að veita honum annað tækifæri, en lendir fyrir vikið brátt í átökum við harðsnúið bófagengi sem vill McCord feigan hvað sem það kostar, enda óttast bófaforinginn að missa liðsmenn sína mikið til frá sér takist einhverjum að verða sér úti um sakaruppgjöf.

Almennt um myndina:
Þetta er einn af fjórum spaghettí-vestrum ítalska leikstjórans Francos Giraldis, en hann var aðstoðarleikstjóri Sergios Leones við gerð tímamótaverksins A Fistful of Dollars nokkrum árum áður. Í bók sinni Western All’Italiana: The Specialists taka þeir Antonio Bruschini og Antonio Tentori fyrir þá níu leikstjóra sem þeir telja að beri af í spaghettí-vestrunum og er Franco Giraldi þar í hópi ásamt Sergio Leone, Sergio Corbucci, Sergio Sollima, Duccio Tessari, Tonino Valerii, Enzo G. Castellari, Giulio Petroni og Giuseppe Colizzi.

Spaghettí-vestrinn A Minute to Pray, a Second to Die er hins vegar ekkert snilldarverk á borð við myndir Leones og er hér í besta falli um að ræða mynd sem er rétt fyrir ofan meðallag að gæðum. Persónusköpunin er þó mjög í anda spaghettí-vestranna og eru menn jafnan skotnir til hægri og vinstri af minnsta tilefni, auk þess sem sögupersónurnar reynast oftar en ekki ótrúlega færar með annars mjög svo ónákvæm skotvopn sín. Þannig hitta menn svo til hvað sem er með skammbyssu af löngu færi og ná jafnvel að skjóta riffla úr höndum manna í tvennt.

Andlitin eru spaghettí-vestra unnendum mörg vel kunn enda koma sömu aukaleikararnir hvað eftir annað við sögu í þessum myndum. Frammistaða helstu leikaranna er ennfremur eins og búast má við en Alex Cord verður þó að teljast frekar litlaus í hlutverki aðalsöguhetjunnar Clays McCords. Tónlist Carlos Rustichellis er á köflum nokkuð góð en útsetningin er í höndum Brunos Nicolais.

DVD diskurinn frá MGM í Bandaríkjunum er því miður meingallaður. Ekki er aðeins slæmt að myndin skuli ekki höfð í réttum breiðtjaldshlutföllum (er aðeins í 1.85:1 í stað 2.35:1) heldur hefur hún verið stytt um tuttugu mínútur og vantar þar t.d. mjög svo bölsýnan endinn sem að sjálfsögðu gjörbreytir efni myndarinnar og ásýnd hennar. Í ofan á lag er upprunalega sýningarlengd myndarinnar tilgreind aftan á kápunni, þ.e. 118 mín. en á diskinum er hún aðeins tæpar 99 mín. Aukaefnið á diskinum er auk þess ekkert að undanskyldum enskum texta sem í sjálfu sér telst gagnlegur.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Lánleysið fylgir útlaganum Clay McCord og eru flestir brátt drepnir sem rétta honum hjálparhönd. Einn þeirra er skriftarfaðir McCords en tveir af fjandmönnum hans freista þess að knýja hann til sagna með barsmíðum snemma í myndinni. Þeir minna skrifarföðurinn hæðnislega á frammi fyrir altarinu hvað standi í „hinni góðu bók“ um að ljúka beri upp dyrum þegar knúið er á (Op. 3:20) en hann bendir þeim að bragði á að þar standi líka að ekki megi morð fremja (2M 20:13, 5M 5:17). Annar fjandmannanna skýtur þá skriftarföðurinn umsvifalaust til bana en í óþökk félaga síns sem segir ógæfu fylgja þeim sem drepi presta. Morðinginn segist þá aðeins hafa bannfært prestinn og geti vel tekið sér stöðu hans í skriftarklefanum með eigin vígslu. McCord sér hins vegar við honum um leið og hann mætir í kirkjuna enda grillir í stígvélasprotana undan kuflinum þar sem hann situr í skriftarstólnum. Það reynast því orð að sönnu að ógæfa fylgi þeim sem drepi presta.

Ríkisstjórinn (leikinn af Robert Ryan), sem leggur svo mikla áherslu á fyrirgefningu og mannkærleika í stjórnarháttum sínum og leitar útlagann eftirlýsta meira að segja sjálfur uppi úti í óbyggðum þegar hann fréttir að honum hafi ekki verið veitt sú sakaruppgjöf sem hann átti rétt á, minnir að nokkru leyti á góða hirðinn í dæmisögu Jesú, sem skilur eftir sauðina sína níutíu og níu til að leita uppi þann týnda (Lk 15:4-7). Hann hikar ekki einu sinni við að plaffa niður alla þá varga í sauðaklæðum sem verða á vegi hans og reyna að hremma sauðinn týnda enda lítur hann á það sem skyldu sína að gæta hans (Mt 7:15, Jh 10:12).

Í styttu útgáfu myndarinnar sem MGM kvikmyndafyrirtækið ákvað að gefa út í Bandaríkjunum er áherslan þannig lögð á réttsýni ríkisstjórans sem fylgir útlaganum eftirlýsta til byggða og veitir honum að lokum sakaruppgjöf og smávægilega upphæð að auki til að auðvelda honum að hefja nýtt líf. Upprunalega útgáfa myndarinnar er hins vegar ekki jafn bjartsýn á manninn og hlutskipti hans því að um leið og Clay McCord ríður úr hlaði eftir sakaruppgjöfina verður hann á vegi tveggja mannaveiðara sem umsvifalaust skjóta hann til bana og misþyrma síðan líkinu þegar þeir átta sig á því að það er orðið verðlaust. Ítölsk bölsýni virðist því tæpast höfða til Bandaríkjamanna.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían, 2M 20:13, 5M 5:17, Op 3:20
Hliðstæður við texta trúarrits: Mt 7:15, Lk 15:4-7, Jh 10:12
Guðfræðistef: vígsla, bannfæring, skriftir, þagnarskylda, fyrirgefning, hjátrú
Siðfræðistef: manndráp, ofbeldi, mannaveiðar, bölsýni, pyntingar, blekking, félagslegt misrétti, virðingarleysi, aftaka, dauðarefsing, spilasvindl, hefnd, hræsni, illska, græðgi, hótun, sakaruppgjöf, náðun, auðmýking, skömm
Trúarbrögð: rómversk-kaþólska kirkjan
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: róðukross, kross á kirkjuturni, kross á altari, altari, kufl, skriftarstóll, maríulíkneski, helgimynd, jesúmynd
Trúarleg embætti: prestur (rómversk-kaþólskur)
Trúarlegt atferli og siðir: kirkjuklukknahringing, spenna greipar, skriftir, þagnarskylda, sverja, biblíulestur