Leikstjórn: Sergio Corbucci
Handrit: Luciano Vincenzoni, Sergio Corbucci, Sergio Spina og Adriano Bolzoni, byggt á sögu eftir Giorgio Arlorio og Franco Solinas
Leikarar: Franco Nero, Tony Musante, Jack Palance, Giovanna Ralli, Eduardo Fajardo, Franco Giacobini, Lorenzo Robledo, Álvaro de Luna, Remo De Angelis, Vicente Roca og Bruno Corazzari
Upprunaland: Ítalía og Spánn
Ár: 1968
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0063293
Einkunn: 2
Ágrip af söguþræði:
Í borgarastyrjöldinni í Mexíkó fær landeigandinn Alfonso Garcia pólska málaliðann Sergei Kowalski til að flytja silfur úr námum sínum í örugga geymslu í Bandaríkjunum. Þegar Kowalski nær loks til námanna, reynast þær hins vegar eyðilagðar eftir uppreisn námuverkamannanna og allir verkstjórarnir hengdir. Til að hafa eitthvað upp úr krafsinu gengur Kowalski til liðs við uppreisnarmennina og kennir þeim að berjast gegn stjórnarhernum, en stingur af um leið og þeir hætta að geta borgað honum. Þar með er hann þó ekki sloppinn því að uppreisnarmennirnir reyna allt hvað þeir geta til að fá hann í lið með sér aftur auk þess sem landeigandinn Garcia sendir út samkynhneigðan launmorðingja til höfuðs þeim öllum.
Almennt um myndina:
Enda þótt Sergio Corbucci hafi gert fjölda spaghettí-vestra á undan A Professional Gun (eða Il Mercenario eins og hann nefnist á ítölsku), var þetta fyrsti vestrinn hans sem skilgreindur hefur verið sem pólitískur, en í kjölfarið fylgdu Companeros árið 1970 og What Am I Doing in the Middle of a Revolution? árið 1972, sem gerast báðir líka í borgarastyrjöldinni í Mexíkó. Árangurinn hjá Corbucci er alveg viðunandi í þetta skiptið en tónlist Ennios Morricone hjálpar þar auðvitað til. Franco Nero er óvenju fínn í hlutverki pólska málaliðans en hann lék síðar sænskan málaliða í Companeros. Tony Musante stendur sömuleiðis fyrir sínu sem mexíkanski byltingarleiðtoginn Paco, en Giovanna Ralli ber af sem unnusta hans að ógleymdum Jack Palance sem fer á kostum sem samkynhneigður launmorðingi, er signir sig við minnsta tilefni.
Myndgæðin á DVD disknum, sem er hér til umfjöllunar, eru í slakari kantinum, enda myndin augljóslega tekin beint af slitinni NTSC myndbandsspólu. Auk þess er afskaplega pirrandi að horfa á myndina hálfa (1.33:1) enda upphaflegi myndramminn (2.35:1) nýttur til fulls.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Ýmsar trúarlegar vísanir má finna í myndinni. Þegar Kowalski kemur til námanna, reynast uppreisnarmennirnir tólf talsins og gantast þeir með það að þeir séu jafn margir og postularnir. Sjálfsagt má líta á það sem kristsvísun en Kowalski frelsar þá hvað eftir annað úr höndum óvinanna og er meira að segja ‚krossfestur‘ undir lok myndarinnar. Í eitt skiptið dulbúa þeir sig jafnvel sem María mey og englar og taka þátt í helgigöngu á trúarhátíð til að fá betra færi á stjórnarherinn. Þegar Paco og Kowalski standa síðar frammi fyrir aftökusveit, hvíslar Pólverjinn því að byltingarleiðtoganum að honum skjátlist ef hann haldi að lömbin þar í kring muni bjarga þeim því að frelsunin komi aðeins af himnum. Það reynist líka orð að sönnu því að félagar þeirra hafa komið sér fyrir uppi á húsþökunum og hafa aftökusveitina þar í góðu sigti. Annars eru uppreisnarmennirnir allir tortryggnir í garð kirkjunnar og gera ekki greinarmun á málflutningi þjófa og presta, auk þess sem Paco segist ekki þurfa á presti að halda til að geta gengið í hjónaband.
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: P 1:26
Persónur úr trúarritum: María mey, engill
Guðfræðistef: krossfesting, kristsvísun
Siðfræðistef: manndráp, vændi, þjófnaður, bylting
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: róðukross, englamynd
Trúarlegt atferli og siðir: signun, helgiganga