Leikstjórn: Ting Shan-Si
Handrit: Ting Shan-Si
Leikarar: George Lazenby, Judith Brown, Jimmy Wang Yu, Angela Mao, Dean Shek, Niu Tien, Helen Poon og Bolo Yeung
Upprunaland: Hong Kong
Ár: 1976
Lengd: 89mín.
Hlutföll: 1.66:1 (var sennilega 2.35:1)
Ágrip af söguþræði:
Lögreglan í Hong Kong kemst að því að írsku hryðjuverkasamtökin IRA hafa í samvinnu við kínverska kommúnista undirbúið morðtilræði við Elísabetu II Bretlandsdrottningu sem væntanleg er þar í opinbera heimsókn. Þegar að heimsókninni kemur reynast írsku hryðjuverkamennirnir þó áhugasamari um gullforða Kambódíu sem þeir freista að komast yfir.
Almennt um myndina:
Alslæm harðhausamynd sem allir nema ruslmyndafíklar ættu að forðast. Enska talsetningin er afleit og hljóðsetningin í slagsmálaatriðunum með ólíkindum.
George Lazenby er þekktastur fyrir að hafa leikið James Bond í kvikmyndinni On Her Majesty’s Secret Service (Peter Hunt: 1969), sem flestir forfallnir Bond aðdáendur telja aðra af tveim bestum myndunum um njósnarann vinsæla, ef ekki þá bestu. Hann lék hins vegar aðeins í einni Bond mynd og var lengi álasað fyrir reynsluleysi sitt sem leikari enda fyrsta alvöru kvikmyndahlutverk hans. Óhætt er þó að segja að Lazenby hafi verið vanmetinn í hlutverki Bonds og stóð hann sig þar síst verr en margir aðrir. Og hann var fínn í gulmyndarmorðgátunni Who Saw Her Die? (Aldo Lado: 1972), sem er reyndar ein af fáum góðum myndum sem hann lék í. Honum er hins vegar vorkunn í Hong Kong harðhausamyndinni A Queen’s Ransom því að hún er hreinlega of slæm til þess að nokkur leikari geti komist klakklaust frá henni. Lazenby verður þó að teljast óborganlegur í þeim atriðum þar sem reynir á hæfni hans í Kung Fu bardagalistum.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Græðgin reynist drifkraftur írsku hryðjuverkamannanna í myndinni sem virðist að mestu laus við alla dýpt í persónusköpun og sögufléttu að öðru leyti. Lauslega er minnst á austræna mystík í myndinni án þess að hún hafi þar nokkurt vægi.
Siðfræðistef: þjófnaður, hryðjuverk, vændi, ofbeldi, nauðgun, fóstureyðing, hefnd, sjálfsvíg
Trúarbrögð: austræn mystík