Kvikmyndir

Adams æbler

Adams æbler

Leikstjórn: Anders Thomas Jensen
Handrit: Anders Thomas Jensen
Leikarar: Ulrich Thomsen, Mads Mikkelsen, Paprika Steen, Nicolas Bro, Ali Kazim, Lars Ranthe, Tomas Villum Jensen, Ole Thestrup, Gyrd Løfqvist, Nikolaj Lie Kaas og Peter Reichhardt
Upprunaland: Danmörk
Ár: 2005
Lengd: 94mín.
Hlutföll: 2.35:1
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði

Ivan er óvenju jákvæður prestur sem leggur mikið upp úr því að sinna sínum minnstu bræðrum þar sem hann starfar á landsbyggðinni í Jótlandi. Einn þeirra er ný-nazistinn Adam sem lýkur fangelsisafplánun sinni með 12 vikna samfélagsþjónustu í kirkjunni þar sem Ívan þjónar. Hann fær það verkefni að annast eplatré fyrir utan kirkjuna og baka eplaköku þegar eplin hafi náð fullum þroska en það reynist hægara sagt en gert enda er sem sjálf máttarvöldin reyni að hindra það með öllum ráðum.

Almennt um myndina

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Anders Thomas Jensen gert nokkrar kvikmyndir sem náð hafa töluverðum vinsældum og jafnvel uppskorið viðurkenningar fyrir á alþjóðlegum kvikmyndahátíðum. Áður hefur hann t.d. leikstýrt myndunum Blinkende lygter (2000) og De grönne slagtere (2003), sem fengu báðar almennt góða dóma. Þá hefur hann skrifað handrit að fleiri myndum, t.a.m. myndunum Brödre (2004) og Rembrandt (2003). Hann hefur þrisvar verið tilnefndur til óskarsverðlauna fyrir stuttmyndir, fyrst fyrir Ernst & lyset árið 1996, þá fyrir Wolfgang árið 1997 og loks fyrir Valgaften árið 1998, en hann hlaut að lokum verðlaunin fyrir hana. Adams æbler verður framlag Dana til Óskarsverðlaunana þetta árið og mun keppa um tilnefningu í flokki erlendra kvikmynda.

Adams æbler er óvenju vel gerð mynd og harla skondin. Kvikmyndatakan er góð, klippingarnar sömuleiðis og hljóðsetningin, ekki síst í þrumveðrinu. Handritið er bæði frumlegt og persónusköpunin eftirminnileg og standa leikararnir sig almennt vel. Óhætt er að segja að Ívan sé einn eftirminnilegasti prestur sem sést hafi í kvikmynd lengi og það sama gildir raunar um ný-nazíska snoðhausinn Adam sem helst tjáir sig með hnefunum einum.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum

Kvikmyndin er svo hlaðin trúarstefjum að skrifa þyrfti langa og ítarlega umfjöllun til að gera henni almennileg skil, en hér verður aðeins staldrað við þrennt af því áhugaverðasta við myndina í trúarlegu tilliti.

Jobsstef
Nokkrum sinnum í myndinni er vísað til Jobsbókar. Adam fær Biblíu afhenta strax á fyrsta degi og Ivan hvetur hann til að lesa í henni. Biblían er þó lengst af ólesin og geymd á skenk í herberginu. Hún fellur nokkrum sinnum af skenknum við ýmis tækifæri og opnast þá alltaf á sama stað: Á fyrstu síðu Jobsbókar. Adam undrast þetta og fer sjálfur bráðlega að láta hana falla í gólfið, en alltaf opnast hún á sama stað: Á fyrstu síðu Jobsbókar. Með þessu er gefið sterklega í skyn að áhorfandinn geti leitað til Jobsbókar við túlkun myndarinnar.

Jobsbók fjallar um Job frá Ús-landi, sem var réttlátur og guðhræddur maður. Engu að síður var hann reyndur af Guði og missti allar eignir sínar, börn sín og heilsuna einnig. Viðfangsefni bókarinnar er hvers vegna slæmir hlutir hendi réttláta og hvort Guð eigi þar hlut að máli en það er sístæð glíma trúarinnar. Það má að mörgu leyti sjá hliðstæðu milli Jobsbókar og sögunnar af prestinum Ívan. Að vísu kemur ekki fram að hann tapi eignum sínum, en hann virðist í öllu falli ekki vera auðmaður heldur af fátæku fólki kominn og lifir sjálfur eins spart og kostur er. Í myndinni kemur fram að eiginkona hans tók eigið líf og sonur hans er svo alvarlega fatlaður að hann er í engum tengslum við raunveruleikann. Þá er Ívan sjálfur með krabbamein og er vart hugað líf. Þegar líður á síðari hluta myndarinnar er ljóst að hann er deyjandi og á líklega bara nokkra daga eftir ólifaða.

Í gegnum alla myndina er Ívan sannfærður um að djöfullinn sé á móti honum og sé að reyna hann, en Guð sé aftur á móti með honum. Hann hvílir öruggur í þessari trú og segja má að hún haldi í honum lífi. Um leið er það þessi fullvissa sem er uppspretta þeirrar miklu jákvæðni sem einkennir lífsafstöðu hans. Allt er túlkað á allra besta veg, enda er Guð með honum sama hvað gengur á!

Adam ákveður hins vegar snemma að ráðast gegn þessari trú, en það tekst honum að lokum eftir að hafa lesið Jobsbók og áttað sig á innihaldi hennar. Hann bendir Ívani á að það sé í raun ekki djöfullinn sem sé á móti honum heldur Guð sem sé ábyrgur fyrir öllu því sem komið hefur fyrir. Um leið og honum hefur tekist að sá efasemdum hjá Ívani brýtur það hann niður og verður hann helsjúkur af krabbameininu. Í þessu sambandi mætti segja að boðskapur myndarinnar væri öðrum þræði sá að trúin geti gert kraftaverk, þ.e. að halda svo lengi aftur af krabbameini prestsins, hvort sem hún er byggð á raunveruleika eða ekki.

Rétt eins og í Jobsbók þá miða árásir Adams að því að brjóta niður trúartraustið og eyðileggja þannig samband Ívans við Guð. Tilgangurinn er því sá að fá hann til að afneita Guði. Og það tekst, en aðeins um stundar sakir. Adam er eiginlega bæði í hlutverki djöfulsins í Jobsbók og vina Jobs, en ólíkt því sem gerist í Biblíunni snýst hann að lokum á band Jobs þegar hann sér þrátt fyrir allt náð Guðs í lífi hans. Hann sér að máttur trúarinnar er svo voldugur og kærleiksríkur að hann kýs að ganga honum á hönd og lifa í honum.

Jesús Kristur
Nokkrar vísanir eru í söguna af Jesú Kristi í myndinni, ekki síst undir lokin. Þegar Adam hefur tekist að svipta Ívan trúnni hrakar prestinum mjög. Á því andartaki er honum vart hugað líf nema í fáeina daga. Hann býr sig því undir að deyja, vill fá frið og er sama um allt fólkið í kringum sig. Segja mætti að hann væri þegar dáinn þótt líkaminn lifi enn.Svo gerist kraftaverkið. Í handalögmálum við fyrrum félaga Adams, ný-nazista sem koma til að ganga í skrokk á Khalid, Saudi-Araba sem býr og starfar í kirkjunni, hleypur skot í höfuð Ívans. Það dregur hann samt ekki til dauða, heldur feykir það æxlinu í heila hans þvert á móti burt og þannig að hann læknast af sjúkdómi sínum. Læknirinn skilur þetta ekki og þaðan af síður Adam. Þetta hefur það í för með sér fyrir aldraðan lækninn að hann ákveður að segja starfi sínu lausu, enda virðast að verki einhver öfl sem séu handan skynsemi og vísinda.Hér má greina hliðstæðu við dauða og upprisu Jesú Krists. Hún verður enn skýrari þegar horft er til afleiðinga þessa ferils fyrir þá sem eru Ívani nákomnir, þ.e. mennina þrjá sem búa með honum á prestssetrinu.

Endurlausnarstef

Best er að lýsa afleiðingum óvæntrar lækningar eða jafnvel upprisu prestsins sem endurlausn (eða tilbrigði við hana) fyrir allar helstu persónur myndarinnar, ekki bara Adam heldur einnig hina tvo kirkjustarfsmennina. Khalid ákveður að halda heim á leið til Saudi-Arabíu. Hann snýr baki við glæpaferli sínum sem bensínstöðvaræningi en þar voru fyrst og fremst Statoilbensínstöðvarnar sem orðið höfðu fyrir barðinu á honum. Vasaþjófurinn Gunnar og Sara ganga í hjónaband og gengur hann jafnframt þroskaheftu barni hennar í föðurstað en það er mongólíti. Þau hyggjast flytja til útlanda og ætlar Gunnar að ástunda tennis á nýjan leik.

Síðast en ekki síst er það Adam sem hverfur frá sínu fyrra lífi sem andfélagslyndur ný-nazisti sem gegnsýrður hafði verið af neikvæðni út í allt og alla. Sennilega getum við merkt róttækustu breytinguna hjá honum enda kemur í ljós í lok myndarinnar að hann er orðinn aðstoðarmaður Ívans, ekki lengur með snoðaður ofbeldishneigður og jafnvel hættulegur ný-nazisti heldur hárprúður og jákvæður gagnvart náunganum og lífinu öllu. Hann tekur meira að segja undir þegar Ívan spilar Bee-Gees lagið How deep is your love eina ferðina enn í bílnum. Við það tækifæri eru þeir félagarnir einmitt að taka við tveimur föngum í samfélagsþjónustu. Ferlið heldur því áfram og má búast við að fleiri megi þroskast og komast til trúar við kynnin af prestinum.

Segja má að boðskapur myndarinnar sé í stuttu máli sá að finna megi hið góða þegar eftir því sé leitað, en að sama skapi finna menn hið illa og uppskeri það ef þeir leiti eftir því. Jafnframt er viðfangsefni myndarinnar hið sama og Jobsbókar, það er hin sístæðu spurningar hvers vegna henda slæmir hlutir réttláta, hvort Guð eigi þar einhvern hlut að máli og hvort þrengingar geti orðið til góðs þegar upp er staðið.

Þetta er frábær kvikmynd sem myndi nýtast einkar vel í kristilegu unglingastarfi, t.d. í fermingarfræðslu, ekki síst til að vekja fólk til meðvitundar um boðskap helstu rita Biblíunnar og kristinnar trúar.

Nánar
Á vef dönsku kvikmyndastofnunarinnar er að finnakennsluefni um Adams æbler sem er ætlað til notkunar í efri bekkjum grunnskóla og í framhaldsskólum. Þar er jafnframt hægt að nálgasthandrit myndarinnar (pdf-skjal).

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Jobsbók, [margar beinar tilvitnanir í Biblíuna sem taka þarf saman síðar]
Persónur úr trúarritum: Jesús Kristur, Job, djöfullinn, Adam, Guð
Sögulegar persónur: Adolf Hitler
Guðfræðistef: endurlausn, hið illa, hið góða, freisting, angist trúarinnar, hatur Guðs, gæska Guðs, kristsgervingur, jobsgervingur
Siðfræðistef: ofbeldi, morð, nauðgunartilraun, þjófnaður, kynþáttahatur, misrétti, sjálfsvíg, sifjaspell, nauðgun, sjálfsblekking
Trúarbrögð: kristni, evangelísk-lúthersk kirkja, ný-nasismi
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: kross, altari, epli
Trúarleg embætti: prestur
Trúarlegt atferli og siðir: útför, skírn, prédikun, sálgæsla
Trúarleg reynsla: endurlausn, kraftaverk, sektarkennd