2. árgangur 2002, Vefrit

Allen og leitin að hinu sanna lífi

Annie Hall

Ég hef hér fyrir framan mig skemmtilega grein úr dagblaðinu mínu„Sænska“ sem kynni að vekja áhuga einhvers. Yfirskriftin mætti útleggjast: Leitin fyndna að samsvarandi (autentisk) lífi og fjallar greinin um grínistann Woody Allen – sem eitthvað hefur komið til tals í hópnum ef minnið svíkur mig ekki.

Heimspekingurinn Vittorio Hösle gaf nýverið út bókina Woody Allen. Versuch ueber das komische. Þar skoðar hann myndir Woody Allen með kenningar þeirra Schopenhauers og Bergers um kímnina að leiðarljósi. Heimspekingur þessi hefur víst getið sér gott orð innan fræðanna en til þessa hafa bækur hans snúist um hefðbundið viðfang heimspekinga: Hegel, gríska harmleikinn, stjórnmálaheimspeki, frumspeki, siðfræði og fleira í þeim dúr. Nú hefur hann sem sagt snúið sér að kvikmyndunum (nema hvað?) og spyr hvað það sé raunverulega í myndum Woody Allen sem fái okkur til þess að hlæja.

Snemma í greininni er vísað í myndina Annie Hall. Í einu atriðinu skammast Alvy (sem Woody Allen leikur) út í mann sem stendur í biðröð og talar „aldeilis“ of hátt um fjölmiðlafræðinginn Marshall McLuhan. Alvy segir við manninn að hann viti ekkert um McLuhan en sá svarar því tl að hann sé fyrirlesari um kenningar McLuhan við Columbiaháskóla! Alvy kippir sér ekkert upp við það og segir að McLuhan myndi ekki sjálfur gefa mikið fyrir þessi orð mannsins og að hann sé einmitt þarna fyrir aftan sig í röðinni. Þar birtist McLuhan og tekur akademíkerinn á beinið. Atriðinu lýkur með því að Alvy snýr sér að myndavélinni og segir:„Boy! If life were only like this!“

Hösle heldur því fram að lykillinn að kímninni í myndum Woody Allen felist í e.k. misfellu í listaverkinu: blekkingunni sem gerir myndina að mynd er ýtt til hliðar þar sem Woody Allen lætur hinn raunverulega McLuhan koma fram sem deus ex machina og verja málstað sinn – sem er fyndið vegna þess að það brýtur gegn kröfunni um raunsæi – og svo hins vegar er hann talar inn í myndavélina – tekur hann henni eins og hún er, einmitt sem myndavél. Grínið felst í því að eitthvað er fellur ekki inn í rammann, það passar ekki inn í samhengið.

Rauði þráðurinn er leitin að samsvöruninni (autenticit): leitin að því að geta verið maður sjálfur. Greinarhöfundur ræðir í framhaldi um nýjustu mynd Woody Allen Smáþjófar mitt á meðal okkar þar sem Ray Winkler, sem Allen leikur, getur ekki verið hann sjálfur vegna auðsins sem hann hefur fengið. Sífellt leita listamenn og akademíkerar til hans og biðja um fé en í þeim félagsskap getur hann ekki drukkið bjór og etið ostborgara að vild fyrir framan sjónvarpið, svo sem hann er vanur. Þegar auðurinn er að horfinn og afæturnar þar með einnig, finnur hann skyndilega sjálfan sig. Þarna er falinn viljinn til samsvörunar sem Hösle sér í öllum myndum Allen. Aðalpersónurnar í myndum hans eru haldnar þeirri þráhyggju að vera þær sjálfar!

Besta dæmið um þetta er auðvitað klassíkerinn (sem flestar myndir Allen reyndar eru) Zelig. Þar tekur líkami titilpersónunnar á sig útlit þeirra sem hún umgengst. Kannske er sú mynd einmitt lykillinn að þráhyggju persóna Woody Allen af eigin eðli. Í heimi sem hefur glatað fyrirmyndum sínum óttast maðurinn það að tapa sérkennum sínum.

Ég þarf að fara að koma mér út í „vorveturinn“ eins og hérlendir kalla hann. Þetta er einmitt tíminn þar sem hvorki er hægt að tala um vetur né vor – talandi um ídentítetskreppu!