Kvikmyndir

Amélie

Leikstjórn: Jean-Pierre Jeunet
Handrit: Guillaume Laurant, byggt á sögu eftir Guillaume Laurant og Jean-Pierre Jeunet
Leikarar: Audrey Tautou, Mathieu Kassovitz, Rufus, Yolande Moreau, Artus de Penguern, Urbain Cancelier, Maurice Bénichou og Dominique Pinon
Upprunaland: Frakkland og Þýskaland
Ár: 2001
Lengd: 120mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0211915
Einkunn: 4

Ágrip af söguþræði:
Þegar Amélie ákveður að hjálpa öllum minni máttar sem verða á vegi hennar og refsa hinum vondu, gleymir hún sínu eigin lífi.

Almennt um myndina:
Kvikmyndin Le fabuleux destin d’Amélie Poulain eftir snillinginn Jean-Pierre Jeunet (Delicatessen og Börn hinnar týndu borgar) er í alla staði stórkostleg: Frábær kvikmyndataka, heillandi leikur, bráðfyndið handrit og frumlegar tæknibrellur. Le fabuleux destin d’Amélie Poulain er einfaldlega ein besta kvikmynd síðustu ára og án efa ein besta gamanmynd allra tíma. Amélie er stórkostleg kvikmynd og ein af þrem bestu myndum þessa árs. Hinar tvær eru Moulin Rouge og The Lord of the Rings: Fellowship of the Ring. Ekki missa af þessu meistaraverki!

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Enda þótt nokkuð sé um trúar- og biblíuvísanir í myndinni þá gegna þær ekki veigamiklu hlutverki. Gert er grín að dýrlingastöðu Díönu prinsessu meðal margra, en dauði hennar markar mikilvæg tímamót í lífi Amélíu. Þá er eitthvað minnst á Adam og Evu, Maríu Magdalenu og móður Teresu, án þess að það skipti verulegu fyrir framvindu myndarinnar.

Amélie er sjálfskipaður verndar- og refsiengill þeirra sem verða á vegi hennar. Dag einn ákveður hún að hjálpa öllu mannkyninu en gengur svo langt í viðleitni sinni að hún gleymir alveg að lifa sínu eigin lífi. Hún verður í raun eins og nágranni hennar, glerkarlinn sem varði allri ævi sinni í að mála þekkt málverk eftir Renoir. Rétt eins og hann málaði aldrei sín eigin ,,verk“ heldur verk einhvers annars, lifir Amélie ekki sínu eigin lífi heldur annarra.

Nú er Amélie ekki neydd inn í þetta hlutverk, heldur notar hún það sem flóttaleið. Með því að hjálpa öðrum upplifir hún hluti sem hún hefði ekki haft kjark til að reyna sjálf. Kvikmyndin Le fabuleux destin d’Amélie Poulain er því áhugaverð þroskasaga um mikilvægi þess að þora að lifa lífinu og taka við gjöfum þess. Boðskapur myndarinnar um náungakærleika og mikilvægi þess að hjálpa öðrum er einnig fallegur.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Jh 20:11
Persónur úr trúarritum: Adam, álfur, Eva, María mey, María Magdalena, verndarengill
Sögulegar persónur: Díana prinsessa, Móðir Teresa
Siðfræðistef: klám, refsing
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, fótaþvottur