Kvikmyndir

Amiée & Jaguar

Leikstjórn: Marx Färberböck
Handrit: Marx Färberböck og Rona Munro, byggð á sannsögulegri bók eftir Erica Fischer
Leikarar: Maria Schrader, Juliane Köhler, Johanna Wokalek, Heike Makatsch, Elisabeth Degen, Detlev Buck, Inge Keller og Kyra Mladeck
Upprunaland: Þýskaland
Ár: 1999
Lengd: 126mín.
Hlutföll: 1.66:1
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Myndin gerist Berlín í síðari heimsstyrjöldinni (einkum 1943-1944) þegar farið er að halla undan fæti hjá Þjóðverjum. Felice (Maria Schrader), greind, lagleg en umfram allt hugrökk Gyðingakona lifir undir fölsku flaggi og hefur svo rækilega tekist að leyna því hver hún er að hún starfar á skrifstofu nasista á daginn. Á kvöldin starfar hún hins vegar í neðanjarðarhreyfingu þeirra Gyðinga sem enn eru eftir í Berlín. Þar við bætist að hún er lesbísk og leitast við að sinna því eðli sínu einnig.

Önnur aðalpersóna myndarinnar er Lilly (Juliane Köhler), þýsk umhyggjusöm fjögurra barna móðir, sem hefur þó á stundum gert sig seka um að halda framhjá manni sínum, þýskum hermanni, sem oftast er á vígvellinum en kemur þó af og til heim til Berlínar.

Þessar ólíku konur hittast og ástir takast með þeim meðan sprengjum rignir yfir Berlínarborg. Í sambandi sínu taki þær upp dulnefnin Amiée og Jaguar og skýrir það heiti myndarinnar. Felice á það stöðugt á hættu að Gestapo komist að hver hún er í raun og veru.

Þegar vinir hennar úr neðanjarðarhreyfingu Gyðinga flýja borgina tekur hún þá afdrifaríku ákvörðun að verða um kyrrt vegna ástar sinnar á Lilly. Þar með teflir hún lífi sínu í meiri hættu en ella. Þessi óvenjulega mynd er sannsöguleg.

Almennt um myndina:
Ég flokka þessa mynd sem helfararmynd þrátt fyrir að helförin geti tæpast talist meginefni hennar. En þótt við sjáum ofsóknir Gyðinga, fylgjumst við fyrst og fremst með óvenjulegri Gyðingakonu sem teflir svo djarft að maður hefur tilhneigingu til að líta á hana sem áhættufíkil. Hún starfar í innsta hring nasista, á skrifstofu áróðursblaða þeirra, undir fölsku nafni en er jafnframt mjög virk í andspyrnuhreyfingu Gyðinga á kvöldin. Samtímis tekur hún sem lesbía þátt í hinu ljúfa lífi og vinnur einnig fyrir sér sem nektarfyrirsæta.

Myndin er líka athyglisverð fyrir þá sök að hér sjáum við stríðið í raun og veru af sjónarhóli kvenna. Leikur þeirra Maríu Schrader og Juliane Köhler, sem fara með hlutverk þeirra Felice og Lillyar, er hreint út sagt stórkostlegur og myndin í heild mjög vel og fagmannlega gerð.

Berlín er að hruni komin en í því sambandi er athyglisvert að gefa gaum að andstæðunum. Víða blasa við rústir húsa, auðn og eyðilegging en engu að síður fáum við innsýn í lúxuslíf og spillingu innandyra.

Myndin er sannsöguleg og þegar hún var gerð var önnur aðalpersónan, þ.e. Lilly, enn á lífi og er myndin byggð á ævisögu hennar sem hún sagði rithöfundinum Erica Fischer. Afrakstur samtals þeirra varð bók með sama nafni og myndin. Vakti hún mikla athygli og hlaut mjög lofsamlega dóma. Bókin hefur verið þýdd á fjölmörg tungumál.

Meðal sögulegra atburða sem gerð eru skil í myndinni er tilræðið við Hitler. Þegar ljóst er að það hefur mistekist er sem Felice verði ljóst að nú taki hringurinn að þrengjast um hana.

Í aukaefni á DVD-disknum er m.a. viðtal við hina öldnu Lilly þar sem hún skýrir afstöðu sína, hvernig hún leitaðist við að hafa upp á ástkonu sinni að stríðinu loknu en allt bendir til þess að Felice hafi látið lífið í útrýmingarbúðum nasista. Við vitum að hún hafnaði í Theresienstadt-fangabúðunum í Tékkóslóvakíu og að Lilly heimsótti hana þangað en sú heimsókn hefur vafalítið orðið til þess að draga úr lífslíkum hennar. Það kemur og fram í viðtalinu við gömlu konuna að einn af sonum hennar hafi tekið Gyðingatrú og flust til Ísraels. Þannig að ekki fer á milli mála að Felice hefur haft umtalsverð áhrif á fjölskylduna, ekki bara á móðurina Lilly. Þetta er vissulega óvenjuleg saga og vafalaust hlyti hún þá dóma að það væri galli á henni hversu ótrúverðug hún er ef við vissum ekki að hún er sannsöguleg.

Venjulegt fólk lenti oft í óvenjulegum aðstæðum í síðari heimsstyrjöldinni og það kallaði fram óvenjulegar gerðir þeirra.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Siðferðistefin eru fyrirferðarmikil í þessari mynd eins og jafnan í helfararmyndum. Ofsóknir á hendur Gyðingum, þær niðurlægingar sem þeir mega þola svo og grimmileg morð eru vissulega til staðar hér en ekki í eins ríkum mæli og í flestum þeim myndum sem við köllum helfararmyndir.

Útrýmingarbúðir sjást t.d. aldrei í myndinni. En við sjáum hvar ein af vinkonum Felice er skotin úti á götu er hún leggur á flótta eftir að hafa verið krafin um skilríki. Við sjáum líka nasista ryðjast inn í híbýli Gyðinga og hvernig þeir eru síðan leiddir á brott.

Hið lesbíska samband þeirra Felice og Lilly vekur að sjálfsögðu margar siðferðilegar spurningar, ekki fyrst og fremst vegna þess að þær eru samkynhneigðar heldur vegna þess að Lilly er gift kona, fjögurra barna móðir. En ekki fer á milli mála að ást þetta er einlæg og djúp. Lilly veit í upphafi ekki um sínar lesbískur kenndir eða hefur a.m.k. birgt þær innra með sér. Þær kyssast í fyrsta sinn í framhaldi af því er Lilly hefur komið að manni sínum í ástaratlotum með annarri konu.

Aðeins einu sinni í myndinni er minnst á Guð. Það gerir ein vinkona Felice er hún segir: „Guð skapaði heiminn, Felice, ekki þú.“ Þessi staðhæfing segir nokkuð um Felice. Hún er annáluð fyrir að framkvæma hlutina, kjörkuð kona sem gerir það sem hugur hennar og samviska stendur til. Eitt sinn er hún nánast ávítuð af einum samverkamanni sínum með þeim orðum að hún hafi misst alla tilfinningu fyrir áhættu. „Það er ekki gott, ekki fyrir neitt okkar,“ bætir hann við. Og víst teflir Felice ótrúlega djarft og tekst raunar með því móti að dvelja lengur í Berlín en flestir aðrir Gyðingar.

Sjálf kýs Felice að hafna flóttaleið með félögum sínum í neðanjarðarhreyfingunni í Berlín. Það reynist því ekki um neitt exodus-stef að ræða í hennar tilfelli. Flóttaleið hennar er önnur og djarfari sem raunar endar í öngstræti.

En eins og svo oft í kvikmyndum kemur epli við sögu með augljósri skírskotun til paradísarsögunnar. Strax við fyrstu kynni þerra réttir Felice verðandi ástkonu sinni epli, og stendur eplið augljóslega sem tákn fyrir að hún er að tæla hana (sbr. 1M 3:1-7).

Þegar þær elskast í fysta sinn segir Felice: ‚Þú ert Amiée, ég er Jagúar.‘ Þau nöfn nota þær síðan m.a. í ástarbréfum sem þeim fara á milli.

Þar kemur að Felice trúir ástkonu sinni fyrir helgasta leyndarmáli sínu, þ.e. því að hún sé Gyðingur. Samtal þeirra fer þannig fram:

Felice: „Ég er Gyðingur, Lilly.“
Lilly Wust: „Ertu hvað?“
Felice: „Það versta sem gerðist var þegar móðir mín dó. Eftir það hef ég aldrei fundið til öryggis, fyrr en með þér.“
Lilly Wust: „Hvernig geturðu elskað mig?“
Felice: „Ég hef reynt að gera það ekki.“
Lilly Wust: „Felice … Ekki yfirgefa mig.“

Faðir Lillyar sér hið furðulega við samband þeirra er hann segir við dóttur sína: „Maðurinn þinn er nasisti og ástkona þín Gyðingur, lesbía!“

Lilly hvetur Felice til að forða sér án hennar, reyna að bjarga lífi sínu en hún vill ekki yfirgefa ástkonu sína sem hún hafði kallað Amiée, sem er einmitt franska orðið yfir vinkonu eða ástkonu.

Athyglisvert er að Lilly skuli nota trúarlegt orðalag þegar hún tilkynnir vinkonum sínum að hún hafi farið fram á skilnað frá manni sínum: „Mér finnst að ég sé endurfædd.“

Felice er að lokum handtekin 21. ágúst 1944. Örvænting Lilly er mikil þegar það gerist og hún hrópar í mikilli angist: „Nei, nei!“ Felice er síðan flutt í Theresienstadt-þrælkunarbúðirnar í Tékkóslóvakíu. Þangað heimsækir Lilly hana og hefur trúlega spillt lífslíkum hennar sem ekki voru góðar fyrir. Hún er enda spurð í myndinni í framhaldi af því: „Veistu hvað þú hefur gert Lilly?“

„Svo lengi sem hún er í Theresienstadt getum við vonað,“ sagði Lill Wust og lengi eftir stríðið hélt hún í þá von að Felice kynni að hafa lifað af.

Eins og jafnan í helfararmyndum kemur vonin við sögu í þessari mynd, því að án vonar er engin framtíð.

En fyrst og fremst er þetta ástarsaga tveggja kvenna við ótrúlegar og vægast sagt grimmilegar aðstæður.

Hliðstæður við texta trúarrits: 1M 1:1; 1M 3:1-7
Sögulegar persónur: Bonhoeffer, Hitler, Göbbels
Guðfræðistef: fórn, endurfæðing, sköpun heimsins, von
Siðfræðistef: ábyrgð, áróður, ást, afbrýðisemi, aftaka, daður, samkynhneigð, stríð, hatur, helförin, iðrun, manndráp, ofbeldi, ótti, niðurlæging, flótti traust, hatur, fyrirlitning, kynþáttahatur, loftárás á almenna borgara, þrælkunarbúðir
Trúarbrögð: gyðingdómur, nazismi
Trúarleg tákn: Davíðstjarnan, epli, jólatré, hakakross, róðurkoss, Rauði krossinn, Hitlersstytta
Trúarlegar hátíðir, sögulegir atburðir: jól, nýjárshátíð, helförin