Kvikmyndir

Any Gun Can Play

Leikstjórn: Enzo G. Castellari
Handrit: Tito Carpi, Enzo G. Castellari, Giovanni Simonelli og John Hart, byggt á sögu eftir Romolo Guerrieri og Sauro Scavolini
Leikarar: George Hilton, Edd Byrnes, Gilbert Roland, Stefania Careddu, José Torres, Gérard Herter, Ivano Staccioli, Ignazio Spalla, Adriana Giuffrè, Valentino Macchi, Riccardo Pizzuti, Rodolfo Valadier og Marco Mariani
Upprunaland: Ítalía
Ár: 1967
Lengd: 97mín.
Hlutföll: 2.35:1
Einkunn: 1

Ágrip af söguþræði:
Svikull mannaveiðari, bófaforingi og erindreki tryggingarfélags svífast einskis til að hafa uppi á földnum fjársjóði í villta vestrinu.

Almennt um myndina:
Þetta var einn af fyrstu spaghettí-vestrunum sem tók sig mátulega alvarlega og má segja að hann hafi að því leyti verið fyrirrennari Trinity myndanna svo nefndu, þ.e. spaghettí-vestrans They Call Me Trinity (Enzo Barboni: 1970) og allra þeirra fjölmörgu sem komu í kjölfar hans. Helstu fyrirmyndirnar eru þó augljóslega spaghettí-vestrar Sergios Leone, einkum þó The Good, the Bad and the Ugly (1966) sem eins og þessi segir frá svo til samviskulausum þremenningum í leit að földum fjársjóði.

Upphafsatriði myndarinnar er meira að segja sótt til Leones, sem hafði hugsað sér að byrja eina kvikmynd sína með því að þrír þekktir leikarar, helst af öllu þeir Clint Eastwood, Lee van Cleef og Eli Wallach, kæmu ríðandi inn í smábæ til þess eins að vera skotnir til bana af enn betri skyttu. Reyndar eru upphafsatriði spaghettí-vestranna The Good, the Bad and the Ugly og Once Upon a Time in the West (1968) í þessum anda, en Leone ætlaði einnig að nota þessa útfærslu þar til Castellari varð fyrri til. Reyndar er athyglisvert í því sambandi að þremenningar Castellaris eru klæddir eins og Clint Eastwood og Lee van Cleef úr myndum Leones og Franco Nero í spaghettí-vestranum Django (Sergio Corbucci: 1966).

Gamansemin í myndinni er samt frekar illa heppnuð og er pína og kvöl að horfa á ærslafengin en langdregin slagsmálaatriðin. Ekki er hægt að segja að leikararnir taki hlutverk sín sérstaklega alvarlega og er leikur sumra þeirra hreinlega slæmur. Þó er ánægjulegt að sjá til nokkra ágætra leikara í myndinni, sem ættu að vera flestum spaghettí-vestra aðdáendum vel kunnir, einkum þó þeir George Hilton, José Torres og Gérard Herter.

Spaghettí-vestrinn var til skamms tíma fáanlegur á íslenskum myndbandaleigum undir upprunalegum titli sínum, Go, Kill and Come Back, sem verður að teljast öllu flottari en titillinn Any Gun Can Play sem honum var síðar gefinn í Bandaríkjunum. Fyrri titillinn er sóttur í orð Eli Wallach í spaghettí-vestranum The Good, the Bad and the Ugly og er Leone sagður hafa verið ósáttur við að Castellari skuli hafa nýtt sér það með þessum hætti því að hann hafi sjálfur ætlað að nota titilinn síðar meir.

Þó svo að myndin Any Gun Can Play sé í réttum breiðtjaldshlutföllum á DVD diskinum frá VCI í Bandaríkjunum, er hún samt töluvert stytt. Breska pal myndbandsútgáfan með titlinum Go, Kill and Come Back, sem umskorin er í hlutföllin 1.85:1, er hins vegar óstytt og nokkrum mínútum lengri. Munurinn er einkum sá að ýmis atriði hafa verið stytt en einnig vantar þar langt samtal milli þeirra Edds Byrnes og Gilberts Roland þar sem þeir eru á hestbaki. Reyndar er NTSC myndbandsspólan með titlinum Any Gun Can Play jafnvel enn styttri en DVD diskurinn, en hún er aðeins 87 mín. að lengd.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Svik á svik ofan einkenna þennan spaghettí-vestra og er persónusköpunin í samræmi við það. Mannaveiðarinn, sem George Hilton leikur, bíður jafnan með að fella hina eftirlýstu ef hann hann væntir þess að þeir eigi eftir að hækka eitthvað í verði. Hann bregður sér meira að segja í prestsgervi til að bjarga fanga úr fangelsi til þess eins að geta framselt hann aftur fyrir enn hærri fjárhæð. Fyrirmyndin er því augljóslega mannaveiðarinn, sem Clint Eastwood lék í spaghettí-vestranum The Good, the Bad and the Ugly, en hann bjargaði jafnan hinum eftirlýstu aftur úr snörunni til þess eins að geta framselt þá aftur fyrir enn hærri fjárhæð.

Orðfærið er víða biblíulegt og er t.d. talað um hungraða úlfa og sálir sem eru hrein sem lömb. Mannaveiðarinn minnir menn ennfremur á boðorðið að ekki megi morð fremja áður en hann skýtur þá sjálfur og er það lýsandi fyrir persónusköpunina í myndinni.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 2M 20:13, 5M 5:17
Guðfræðistef: helvíti, synd, samviskan
Siðfræðistef: manndráp, ofbeldi, dauðarefsing, trúnaður, þjófnaður, lygi, hræsni
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: kross á líkkistu, altari, maríumynd, pípuorgel, lamb, úlfur
Trúarleg embætti: prestur (rómversk-kaþólskur)
Trúarlegt atferli og siðir: krjúpa, blessun, signun, skriftir
Trúarleg reynsla: samviskustríð