Leikstjórn: Giuseppe De Santis
Handrit: Ennio De Concini, Giuseppe De Santis, Augusto Frassinetti, Gian Domenico Giagni og Serghei Smirnov
Leikarar: Arthur Kennedy, Riccardo Cucciolla, Raffaele Pisu, Peter Falk, Zhanna Prokhorenko (undir nafninu Gianna Prokhorenko), Tatyana Samojlova, Andrea Checchi, Valeri Somov, Nino Vingelli, Lev Prygunov, Grigori Mikhajlov, Gino Pernice, I. Paramonov og Boris Kozhukhov
Upprunaland: Ítalía og Rússland (Sovétríkin)
Ár: 1965
Lengd: 137mín.
Hlutföll: 1.33:1 (var sennilega 1.66:1)
Einkunn: 4
Ágrip af söguþræði:
Ítölsk herdeild fylgir þýzka hernum í innrásinni í Sovétríkin sumarið 1941 en er tortímt í árslok 1942 í gagnsókn rauða hersins í orrustunni um Stalingrad.
Almennt um myndina:
Mögnuð ítölsk-sovésk stríðsmynd, raunar ein af þeim allra bestu, sem segir frá blóðbaðinu á austurvígstöðvunum í síðari heimsstyrjöldinni. Myndin er tekin þar sem helstu orrustur Ítala voru háðar í Sovétríkjunum, þ.e. í Bessarabíu (sem nefnist Moldavía í dag), við Odessa ána og á Dnjepropetrovsk og Don víglínunni.
Átakaatriðin eru vel útfærð og trúverðug (a.m.k. fyrir tæplega fjörtíu ára gamla mynd) en best er þó persónusköpunin sem er óvenju djúp fyrir stríðsmyndir, ekki síst þær myndir sem hafa mikinn fjölda sögupersóna. Svart-hvít kvikmyndatakan er ennfremur falleg og tónlistin viðeigandi.
Ítalarnir eru leiknir af ýmsum þekktum ítölskum og bandarískum leikurum en þýzku hermennirnir og íbúar Sovétríkjanna eru flestir leiknir af sovéskum leikurum. Þannig koma Bandaríkjamennirnir Arthur Kennedy og Peter Falk við sögu í hlutverkum ítalsks herforingja og herlæknis, en eðalleikararnir Riccardo Cucciolla og Raffaele Pisu eru í hlutverkum ítalskra fótgönguliða sem þrá ekkert heitar en mannkærleika og frið. Úkraínska leikkonan Zhanna Prokhorenko, sem er hvað þekktust fyrir hlutverk sitt í sovésku eðalmyndinni Ballada o soldate (Grigori Chukhraj: 1959) og jafnframt ein fallegasta kona sem ég hef séð, er ógleymanleg í hlutverki ungrar konu sem þýzkur herforingi vill láta taka af lífi fyrir skemmdarverk. Rússneska leikkonan Tatyana Samojlova, sem lék aðalhlutverkið í Letjat zhuravli (Mikhail Kalatozov: 1957), einni af bestu myndum Sovétríkjanna, er sömuleiðis frábær í hlutverki örvæntingafullrar hjákonu þýzks herforingja sem verður úti í jökulgaddi á undanhaldinu vestur á bóginn. Áhrifamestu atriði myndarinnar eru í raun með þessum tveim eðalleikkonum.
Allmargar kvikmyndir hafa verið gerðar um orrustuna um Stalingrad og er þessi ein af þeim bestu. Þýzka stríðsmyndin Stalingrad (Joseph Vilsmaier: 1993), sem sömuleiðis er frábær, er undir augljósum áhrifum frá henni eins og sjá má t.d. af mjög svo svipuðu lokaatriði myndanna.
Myndgæðin á DVD diskinum frá bandaríska útgáfufyrirtækinu Belle and Blade eru slök, sérstaklega þó í byrjun myndarinnar, en þau verða samt að teljast þolanleg. (Ég hef raunar oft séð það verra, t.d. eru myndgæðin á flestum DVD diskunum frá alræmda útgáfufyrirtækinu Brentwood mun verri.) Hvorki er þó að finna skjámynd né kaflaskipti á diskinum og er aukaefnið ekkert. Þessa kvikmynd myndi ég því hiklaust kaupa aftur ef hún kæmi einhvern tímann út í betri DVD útgáfu.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Ítölsku hermennirnir undrast yfirleitt guðleysi kommúnistanna í myndinni og spyrja þá jafnvel um það en fátt er um svör.
Snemma í myndinni tekst t.d. nokkrum handteknum sovéskum borgurum að flýja þegar þýzku hermennirnir lenda í slagsmálum við Ítalana en flestir þeirra nást aftur og eru skotnir. Ungu pari tekst þó að leita skjóls í stórri kirkju, sem notuð er sem byrðargeymsla fyrir hveiti, en dúfur fljúga um uppi í hvelfingunni. Ítölsku hermönnunum, sem sendir eru inn í kirkjuna í leit að strokuföngunum, bregður mjög við að sjá ástand hennar og furða sig á guðleysi Rússanna. Þegar þeir finna parið, ákveða þeir hins vegar að láta það eiga sig en áður en þeir komast aftur út kemur einn af yfirmönnum þeirra og handtekur piltinn um leið og hann sér hann. Þýzku hermennirnir skjóta piltinn síðan um leið og hann fer út en stúlkunni tekst að fela sig áfram.
Persónur úr trúarritum: dýrlingur
Guðfræðistef: kraftaverk, guðstrú, kærleiki Guðs
Siðfræðistef: stríð, innrás, kynþáttahatur, hugleysi, meðaumkun, þjófnaður, svik, dauðarefsing, aftaka, skemmdarverk, ást, miskunarleysi, fórn, nauðgun, manndráp, blekking
Trúarbrögð: kristindómur, kommúnismi, nazismi, fasismi, rétttrúnaðarkirkjan
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg embætti: prestur
Trúarlegt atferli og siðir: signun, maríubæn, bæn
Trúarlegar hátíðir, sögulegir atburðir: jól