Kvikmyndir

Ballada o soldate

Leikstjórn: Grigori Chukhraj
Handrit: Grigori Chukhraj og Valentin Yezhov
Leikarar: Vladimir Ivashov (undir nafninu Volodya Ivashov), Zhanna Prokhorenko, Antonina Maksimova, Nikolai Kryuchkov, Yevgeni Urbansky, Elza Lezhdey, Aleksandr Kuznetsov, Yevgeni Teterin, V. Markova, Marina Kremnyova, Vladimir Pokrovsky og Georgi Yumatov
Upprunaland: Rússland (Sovétríkin)
Ár: 1959
Lengd: 84mín.
Hlutföll: 1.33:1
Einkunn: 4

Ágrip af söguþræði:
Nítján ára gamall rússneskur hermaður, sem tortímdi einsamall tveimur þýzkum skriðdrekum, fær sex daga leyfi frá vígstöðvunum til að heimsækja móður sína og verður ástfanginn á leiðinni.

Almennt um myndina:
Þessi frábæra sovéska stríðsmynd, sem gerist sumarið 1943, er í senn gullfalleg ástarsaga og sorgleg örlagasaga. Sögupersónurnar eru fólk sem manni þykir vænt um og vill að farnist vel, en fyrir vikið verða stríðshörmungarnar enn átakanlegri. Reyndar eru stríðsátökin að mestu leyti í byrjun myndarinnar, en megin áherslan er á samskipti rússneska hermannsins við meðborgara sína á heimferðinni til móðurinnar.

Vladimir Ivashov í hlutverki hermannsins og hin gullfallega Zhanna Prokhorenko í hlutverki laumufarþegans, sem hann verður ástfanginn af í flutningarlestinni á heimleiðinni, eru bæði stórgóð, en þetta var fyrsta kvikmynd þeirra beggja. Leikstjórinn Grigori Chukhraj vildi unga og óþekkta leikara í þessi hlutverk og þurfti að berjast við kerfið til að ná sínu fram.

Ekki má þó fjalla um gæði myndarinnar án þess að geta þess hversu falleg tónlistin eftir Mikhail Ziv er og svart-hvít expressíónísk kvikmyntataka þeirra Vladimirs Nikolayev og Eru Savelyeva er glæsileg. Era Savalyeva var reyndar rekin frá myndinni hálfkláraðri vegna ósamkomulags við leikstjórann, en hann segir, að hún hafi reynt að skella skuldinni af alvarlegu slysi, sem átti sér stað við töku eins atriðsins, á saklausan starfsmann. Sem leikstjóri myndarinnar hafi hann sjálfur verið ábyrgur fyrir þessu slysi, en hann hafi ekki getað sætt sig við að reynt væri að skella skuldinni á einhvern annan í staðinn bara til að bjarga sér.

Kvikmyndin er fáanleg frá Criterion DVD útgáfufyrirtækinu í Bandaríkjunum, en DVD diskurinn frá Ruscico í Rússlandi er samt betri að ýmsu leyti. Vegur þar þyngst aukaefnið, en þar er m.a. að finna mjög svo áhugavert viðtal (með enskum texta) við leikstjórann Grigori Chukhraj, sem segir frá reynslu sinni sem sovéskur hermaður í stríðinu, þátttöku sinni í orrustunni við Stalingrad, vinnslunni við gerð myndarinnar og baráttunni fyrir að fá að hafa hana eins og hann vildi. Einhverjir kerfiskarlar töldu myndina ekki nægilega kommúníska og létu setja hana til hliðar strax eftir gerð hennar og ráku leikstjórann meira að segja úr kommúnistaflokknum, en myndin var þó brátt tekin í sátt og festi hún sig í sessi sem ein af bestu kvikmyndum Sovétríkjanna. Þetta aukaefni vantar á Criterion diskinn en þar er hins vegar að finna viðtal, sem tekið var við leikstjórann og aðalleikarana tvo eftir frumsýningu hennar í New York á sínum tíma. Myndgæðin eru fín á Ruscico diskinum en þau þykja jafnvel betri á Criterion diskinum.

Þetta er ein af þessum kvikmyndum sem hægt er að horfa á aftur og aftur án þess að fá leið á henni. Þess vegna ættu allir kvikmyndaáhugamenn að gefa sér tíma til að sjá hana.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Síðari heimsstyrjöldin er blóðugasta stríð sem háð hefur verið en talið er að allt að 60 milljónir manns hafi týnt líf um allan heim vegna hennar. Þar af féllu um 28 milljónir íbúa Sovétríkjanna, jafnt hermenn sem óbreyttir borgarar. Það er því ekki að undra að helstu söguhetjur margra sovéskra kvikmynda, sem gerast á þessum árum, skuli vera persónur, sem fórna sér fyrir ættjörð sína og landsmenn án þess að eiga afturkvæmt.

Myndin byrjar á þeim tíma þegar hún er gerð en þar syrgir móðirin fallinn son sinn, sem grafinn er í ómerktri gröf í einhverju fjarlægu landi. Þannig eru örlög hans áréttuð strax í upphafi og áhersla lögð á hvers konar fólk það var, sem þurfti að fórna lífi sínu til að koma á réttlæti og friði í heiminum. Þessi áhersla á mikilvægi fórnarinnar þarf ekki endilega að vera trúarleg, en engu að síður hefur hún án efa öðlast helgi meðal rússnesku þjóðarinnar, sem þurfti að berjast fyrir tilvist sinni gegn innrásarherjum eins versta harðstjóra sögunnar, Adolfs Hitlers. Stalín, einræðisherra Sovétríkjanna, var í sjálfu sér engu betri enda ferill hans ekki síður blóði drifinn. Það var þó fremur fyrir eigin tilveru sem Rússar og helstu nágrannaþjóðir þeirra þurftu að berjast í síðari heimsstyrjöldinni en að viðhalda völdum Stalíns.

Guðfræðistef: fórn, sannleikur
Siðfræðistef: stríð, framhjáhald, hetjuskapur, ást, föðurlandsást, þjáning, sorg, frelsi, heiðarleiki, skyldurækni, mútur