Kvikmyndir

Baran

Leikstjórn: Majid Majidi
Handrit: Majid Majidi
Leikarar: Hossein Abedini, Zahra Bahrami, Mohammad Amir Naji, Hossein Mahjoub, Abbas Rahimi, Gholam Ali Bakhshi, Jafar Tawakoli, Yadollah Hedayati, Parviz Larijani, Mahmoud Behraznia, Pasha Barabadi og Kamal Parto
Upprunaland: Íran
Ár: 2001
Lengd: 96mín.
Hlutföll: 1.85:1
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Þegar afganskur byggingaverkamaður í Teheran í Íran slasast alvarlega við vinnu sína í vetrarkuldanum, þrýsta félagar hans á verkstjórann að leyfa unglingssyni hans, Rahmat, að hlaupa í skarðið til að geta framfleytt barnmargri fjölskyldunni, en flestir afgönsku verkamannanna eru flóttamenn sem er nauðugur einn kostur að stunda láglaunaða svarta vinnu. Þegar í ljós kemur að Rahmat veldur ekki erfiðsvinnunni með góðu móti er hann brátt látinn skipta um starf við Lateef, húðlatan og uppstökkan 17 ára íranskan pilt af azerskum ættum, sem séð hefur um matreiðsluna fyrir verkamennina og ýmis íhlaupaverk. Fyrir vikið leggur Lateef megna fæð á nýja starfsmanninn og reynir að gera honum allt til miska þar til hann kemst óvænt að leyndarmáli hans en þá gjörbreytist afstaða hans og reynir hann upp frá því allt hvað hann getur til að varðveita það áfram og hjálpa fjölskyldunni afgönsku, jafnvel þótt hann þurfi að fórna öllu sem hann eigi til þess.

Almennt um myndina:
Majid Majidi er einn af virtustu kvikmyndagerðarmönnum Írans í dag og hafa myndir hans hlotið fjölda tilnefninga og verðalauna á ýmsum alþjóðlegum kvikmyndahátíðum á liðnum árum. Þannig var mynd hans Bacheha-Ye aseman (1997) tilnefnd til óskarsverðlauna fyrir bestu erlendu myndina það árið og myndin Baran (2001) var valin besta myndin á kvikmyndahátíðinni í Montreal.

Það viðfangsefni sem Majidi er kunnastur fyrir er hversdagslegur reynsluheimur þeirra sem minna mega sín en þar er oftar en ekki um börn og unglinga að ræða. Persónusköpunin í myndum hans einkennist jafnan af einskærri hlýju þó svo að þar komi vissulega við sögu gagnrýniverðir breyskir menn sem breyti rangt með afdrifaríkum afleðingum, en allir geta þeir séð að sér og þroskast að sama skapi. Kvikmyndastíllinn er í anda ítalska raunsæisins þar sem áherslan er á hversdagslegar aðstæður trúverðugra persóna sem fæstar eru leiknar af atvinnuleikurum og er myndin tekin á raunverulegu sögusviði hennar. Fjölmörg tungumál er töluð í myndinni sem endurspeglar það fjölþjóðlega samfélag sem finna má í Íran nú á dögum, en m.a. koma við sögu í myndinni Afganir, Íranar, Azerar og Tyrkir.

DVD diskurinn frá Mirmax í Bandaríkjunum er óaðfinnanlegur að öðru leyti en því að aukaefnið hefði mátt vera meira en fáeinar stiklur úr öðrum kvikmyndum. Það að risaútgáfufyrirtæki á borð við Mirmax skuli gefa myndir Majids Majidis út þar í landi er aðeins til marks um hversu viðurkenndur kvikmyndagerðarmaður hann er fyrir löngu orðinn.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Enda þótt kvikmyndir Majids Majidis séu tiltölulega hægar og geti jafnvel í fljótu bragði virkað sem tiltölulega einfaldar speglanir á fegurð mannlífsins frá oftar en ekki sjónarhóli barna eða unglinga er ekki þar með sagt að þær skorti alla dýpt og séu þar með snöggafgreiddar. Það er ekki síst í persónusköpunni sem vægi mynda hans er fólgið en þar er hver og einn jafnan trúverðug og heildstæð persóna, hverjar svo sem aðstæður viðkomandi persónu eru, þroski hennar eða félagsfærni.

Persónurnar í myndinni Baran, sem eins og svo margar íranskar kvikmyndir byrjar á orðunum „Í nafni Guðs“, eru margar hverjar hornreka í írönsku samfélagi, ýmist vegna þess hversu sérstæðir einstaklingar þeir eru eða vegna þess hversu bágar félagslegrar aðstæður þeirra eru. Afgönsku verkamennirnir eru flóttamenn frá stríðshrjáðu landi sem eiga í fá hús að venda og njóta sjaldnast sömu félagslegra réttinda og aðrir íranskir þegnar. Vinnan sem stendur þeim til boða er víða erfið, láglaunuð og svört að auki og eru bæði þeir og vinnuveitendurnir í vondum málum ef eftirlitsmenn yfirvalda komast að því, en þeir heimsækja vinnustaðina reglulega í eftirlitsferðum. Í myndarbyrjun kemur fram að milljónir Afgana hafi flúið land allt frá innrás Sovétríkjanna árið 1979 en styrjöldin næsta áratuginn og borgarastyrjaldirnar í kjölfar falls kommúnismans auk harðstjórnar talíbananna hafi lagt landið mikið til í rúst. Sagt er að Sameinuðu þjóðirnar telji að alls um 1,5 milljón afganskra flótta!manna dvelji því í Íran í byrjun 21. aldarinnar.

Enda þótt verkstjórinn í myndinni kjósi að mestu að nota ólöglegt vinnuafl sem hægt sé að borga léleg laun, sé skapstór og hiki ekki við að segja mönnum til syndanna ef svo ber undir, reynist hann samt góðviljaður undir niðri, hjálpar þeim sem reynast hjálparþurfi og sýnir slökum starfsmönnum eins og Lateef ótrúlega þolinmæði, mögulega vegna þess að hann býst við að pilturinn muni sennilega hvergi eiga í önnur hús að venda (a.m.k. er hvergi gefið í skyn að hann óttist að pilturinn kunni að segja til sín). Lateef gengur þó lengst af illa að fá öll laun sín borguð en það tekst þó að lokum þegar hann gerir verkstjóranum grein fyrir hversu mjög á bjáti hjá hans nánustu.

Það sem skiptir þó mestu máli í þessari mynd varðar sjálfa sögufléttuna, þ.e. leyndarmál nýja starfsmannsins, unglingsins Rahmats sem afgönsku verkamennirnar þrýsta á að verði ráðinn í stað föðurins sem slasast hafði alvarlega við vinnu sína. Það sem Lateef kemst óvænt að þegar hann njósnar um þennan keppinaut sinn inni í eldhúsi verkamannanna er að Rahmat er ekki piltur heldur stúlkan Baran (sem mun á farsi merkja regn og vísa til þeirrar bjartsýni sem fylgir vorregninu). Þar sem ekki má sýna konur slæðulausar í írönskum kvikmyndum er aðeins skugginn sýndur þar sem Baran greiðir sítt hár sitt inni í eldhúsinu en það verður til þess að Lateef sér ekki aðeins að sér heldur verður hann yfir sig ástfanginn af henni. Baran hafði tekist að ganga inn í karlmannshlutverkið með því að dúða sig vel í vetrarkuldanum og láta afgönsku verkamennina um að svara fyrir sig sem allir leggja sitt að mörkum til að varðveita leyndarmál hennar gagnvart vinnuveitandnum og öðrum starfsmönnum þar.

Lateef reynir nú allt hvað hann getur til að hjálpa Baran og leggur sig fram við að vinna hug hennar sem er vandkvæðum háð eftir allt sem á undan er gengið. Hann virðist þó gera sér grein fyrir takmörkum sínum og nálgast hana með varfærni án þess þó að taka hana nokkurn tímann tali. Þess í stað fórnar hann öllu sem hann á, þar með talið persónuskilríkjum sínum, til að hjálpa fjölskyldu hennar bak við tjöldin, ekki síst eftir að afgönsku verkamennirnir eru staðnir að verki af yfirvöldum og missa allir vinnu sína. Það er ekki fyrr en í lok myndarinnar sem hann loks stendur augliti til auglitis við stúlkuna sem hann elskar og uppsker þakklátt augnaráð frá henni í kveðjuskyni áður en hún hylur sig með grænbláum búrka afgönsku talíbanana áður en hún heldur af stað með fjölskyldu sinni aftur til heimalandsins. (Myndin er gerð skömmu fyrir hryðjuverkaárásina á Bandaríkin 11. september 2001 þannig að talíbanarnir eru enn við völd þegar sagan gerist.) Öll von er þó ekki þar með úti því að fjölskyldan veit hver hafði hjálpað henni og heitir því að viðhalda áfram tengslunum við Lateef þegar heim er komið.

Það sem vekur helst athygli í þessari ágætu og vel leiknu írönsku kvikmynd er að þar skuli unglingsstúlka komast upp með að látast vera karlmaður og jafnvel standa sig betur en hinir byggingarverkamennirnir í flestu öðru en því að bera þunga sementspoka upp margar hæðir eftir bröttum sigum. Það er því sem leikstjórinn Majid Majidi sé með þessu að segja að í raun séu konur jafngildar karlmönnum á öllum sviðum mannlífsins og eigi því að vera þeim jafn réttháar í öllum efnum. Væntumþykjan í persónusköpuninni skilar sér að sama skapi til áhorfandans en megin stef myndarinnar er hvernig ungur maður sem fæstir hafa trú á fer að meta sjálfan sig að verðleikum og þroskast við það að láta sér annt um aðra manneskju og elska náungann eins og sjálfan sig.

Persónur úr trúarritum: Guð, Imam Reza
Guðfræðistef: miskunnsemi, kærleikur, hjálp Guðs
Siðfræðistef: svört vinna, blekking, félagsleg staða kvenna, hlutverk kynjanna, ást, styrjöld, flóttamenn, uppsögn, öfund, hefnd, hjálpsemi, félagslegt réttlæti
Trúarbrögð: islam
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: Shoeb
Trúarleg tákn: slæða, talnaband
Trúarlegt atferli og siðir: sverja