Leikstjórn: Kinji Fukasaku
Handrit: Kenta Fukasaku, byggt á skáldsögu eftir Koshun Takami
Leikarar: Tatsuya Fujiwara, Aki Maeda, Taro Yamamoto, Masanobu Ando, Kou Shibasaki og Chiaki Kuriyama
Upprunaland: Japan
Ár: 2000
Lengd: 114mín.
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0266308
Einkunn: 2
Ágrip af söguþræði:
Fjörtíu og tveir nemendur eru færðir á eyðieyju með mat, kort og vopn sér til varnar auk þess sem sprengja er fest sem ól um háls þeirra. Þar eru þau tilneydd til að berjast hvert við annað til síðasta manns og hafa aðeins þrjá daga til að klára verkið. Ef þau fylgja ekki reglunum, eða ef fleiri en einn er eftir að þrem dögum liðnum verða hálsólarnar sprengdar.
Almennt um myndina:
Kvikmyndin er byggð á umdeildri japanskri skáldsögu, sem hneykslaði landsmenn þar í landi svo um munaði. Það sama gerðist líka með tilkomu myndarinnar og komust deilurnar um hana meira að segja í fréttirnar hér uppi á klakanum. Þessi neikvæðu viðbrögð koma í raun ekki á óvart, enda er myndin afar óþægileg. Í rauninni minnir hún um margt á Clockwork Orange hvað neikvæða mannsmynd og ofbeldi varðar. Ástæðurnar fyrir öllu saman eru reyndar frekar ótrúverðugar. Betra hefði verið að láta brjálaðan vísindamann (ekki síst sálfræðing) standa fyrir öllu saman í staðinn fyrir uppreisn fullorðina gegn óstýrilátum unglingum.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar maður sér myndina er: Hvað myndi maður sjálfur gera? Fyrsta svarið væri eflaust að svipta sig lífi. Einnig kæmi til greina að reyna að flýja. Þriðji möguleikinn væri svo að berjast gegn kúgaranum. Það áhugaverða við þessa mynd er einmitt spurningin, sem hún varpar fram: Hvernig bregst maður við ranglæti? Lætur maður kúga sig (drepur aðra í þessu tilfelli), gefst upp (og sviptir sig lífi) eða berst gegn ranglætinu?Myndin er einnig áhugaverð ádeila á lífsgæðakapphlaupið og hvað fólk er tilbúið að ganga langt til að komast áfram í lífinu.
Persónur úr trúarritum: Guð
Guðfræðistef: mannseðlið
Siðfræðistef: einelti, lífsgæðakapphlaup, morð, traust