Kvikmyndir

Big Hero 6

Big Hero 6

Leikstjórn: Don Hall, Chris Williams
Handrit: Jordan Roberts, Daniel Gerson og Robert L. Baird
Leikarar: Scott Adsit, Ryan Potter, Daniel Henney, T.J. Miller, Jamie Chung, Damon Wayans Jr., Genesis Rodriguez, James Cromwell
Upprunaland: Bandaríkin
Tungumál: Enska
Ár: 2014
Lengd: 102 mín.
Hlutföll: 2.39:1
Einkunn: 3,5

Ágrip af söguþræði

Uppblásna vélmennið Baymax verður eins konar lífgjafi hins unga Hiro Hamada sem glímir við depurð og sorg eftir að hafa misst bróður sinn í slysi. Baymax og Hiro verða svo lykilpersónur í hátækni ofurhetjuteyminu Big Hero 6. Þetta er fyrsta kvikmyndin um ofurhetjurnar.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum

Upprisa ofurhetjunnar

Kvikmyndin um hlýlega vélmennið Baymax er ofurhetjumynd sem byggir á teiknimyndablöðum um ofurhetjuteymið Big Hero Six. Þetta er jafnframt upprunasaga sem skýrir hvernig teymið varð til, lýsir þroskasögu þeirra og grunngildum.

Biblíufróður áhorfandi sér ákveðna hliðstæðu milli Baymax sjálfs og Jesú frá Nasaret:

  • Baymax er sendur til að lækna, Jesús læknaði.
  • Það er andstætt eðli Baymax að beita ofbeldi, Jesús var á móti ofbeldi.
  • Baymax er freistað með því að skipta um forrit í honum, Jesú var freistað í eyðimörkinni.
  • Baymax deyr undir lok myndarinnar, Jesús dó á krossinum.
  • Baymax fórnar sér til að aðrir megi lifa, krossdauði Jesú hefur verið túlkaður sem fórn í þágu annarra.
  • Baymax lifnar aftur við í lok myndarinnar því hann sendi forritskubbinn með Hiro, Jesús reis upp á þriðja degi.

Það er í sjálfu sér ekkert nýtt að ofurhetjur séu tengdar við Jesú, Ofurmennið er til að mynda einn þekktasti kristsgervingurinn. En að ofurhetjuJesús sé jafnframt læknir og friðarsinni er nýstárlegt. Það minnir okkur á að til eru ólíkar myndir af Jesú, líka í kvikmyndum. Þær byggja alltaf á því að lagðir eru til grundvallar einhverjir ritningarstaðir úr guðspjöllunum, tilteknar sögur sem þykja gagnlegri en aðrar til að skýra hver og hvernig Jesús var.

Það væri forvitnilegt að skoða teiknimyndablöðin um Big Hero 6 með tilliti til þessa og kanna hvort Jesúvísanirnar eru til staðar í upprunasögunni í blöðunum og eins hvort og þá hvernig er unnið með þessi stef í sögunum sem fylgja á eftir. Þetta skýrist væntanlega líka í næstu kvikmynd um hetjurnar sem hlýtur að vera væntnaleg innan tíðar.

Hliðstæður við texta trúarrits: Biblían
Persónur úr trúarritum: Jesús
Guðfræðistef: jesúgervingur, kristsgervingur, dauði, fórn, upprisa, köllun
Siðfræðistef: friður

Vísanir

IMDb síða myndarinnar