Kvikmyndir

Bingo Bongo

Leikstjórn: Pasquale Festa Campanile
Handrit: Franco Ferrini, Franco Marotta, Enrico Oldoini og Laura Toscano
Leikarar: Adriano Celentano, Carole Bouquet, Felice Andreasi, Enzo Robutti, Walter D’Amore, Roberto Marelli, Alfio Patane, Elizabeth Cobben og Tanga
Upprunaland: Ítalía
Ár: 1982
Lengd: 102mín.
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0083655

Ágrip af söguþræði:
Vísindamennirnir við mannfræðistofnun Mílanó-háskólans á Ítalíu verða yfir sig hrifnir þegar mannapinn Bingo Bongo finnst í frumskógum Kongó í Afríku, enda reynist hann svo þrælskarpur að hann endar þar sem prófessor. Bingo Bongo er í raun mennskur enda höfðu apar alið hann upp frá því er hann komst lífs af úr flugslysi þegar hann var aðeins ómálga barn að aldri.

Almennt um myndina:
Verulega slæm ítölsk aulahúmorsmynd sem sennilega hefur einkum verið ætluð yngstu kynslóðinni, en hún mun vera endurgerð af vinsælli tyrkneskri gamanmynd frá árinu 1975 sem nefnist Hanzo. Vart er myndin þó við hæfi barna enda einkennast margir brandararnir af kynferðislegu áreitni á borð við þukl á brjóstum og bossum kvenna.

Eini kostur myndarinnar er James Bond ‚beibið‘ Carole Bouquet úr kvikmyndinni For Your Eyes Only, en hér leikur hún Láru, þjálfara Bingos Bongo.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Boðskapur myndarinnar virðist vera sá að menn og dýr eigi að búa saman í sátt og samlyndi, en vestræn siðmenning er sögð hafa rænt manninn sakleysi sínu.

Þegar Bingo Bongo verður ástfanginn af Láru þjálfaranum sínum, ákveður hann að kvænast henni í snarheitum og flettir í því skyni upp á presti í símaskránni og finnur strax einn undir nafninu Dr. William Priest. Þó svo að brandarinn sé vissulega slæmur, er hann samt einn sá skásti í allri myndinni.

Guðfræðistef: siðmenningin, sakleysi
Siðfræðistef: kynferðisleg áreitni
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: kross í hálsmeni