Kvikmyndir

Blade Runner

Leikstjórn: Ridley Scott
Handrit: Hampton Fancher, David Peoples
Leikarar: Harrison Ford, Rutger Hauer, Sean Young, Edward James Olmos
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1982
Lengd: 117mín.
Einkunn: 4

Ágrip af söguþræði:
Efðarannsóknir eru komnar á það stig að hægt er að skapa nær fullkomnar eftirmyndir af manninum. Þessar eftirmyndir eru notaðar sem þrælar við erfiðisvinnu, landvinninga og til þess að nota kynferðislega. Nokkrir þeirra gera uppreisn og halda til jarðar til að leita skapara síns. Deckard (Harrison Ford) fær það hlutverk að leita eftirmyndirnar uppi og drepa þær. En brátt áttar hann sig á því að hann á meira sameiginlegt með eftirmyndunum en hann grunaði í fyrstu.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Hér er á ferðinni algjört meistaraverk vísindaskáldsagna. Í myndinni eru fjölmörg trúarstef og verður aðeins minnst á nokkur þeirra hér. Í fyrsta lagi er hægt að sjá myndina sem útleggingu á sögunni af Adam og Evu. Jörðin er n.k. Eden þar sem Guð (Tyrell í þessu tilfelli) gengur um og skapar eftirmyndir (Guð skapaði jú í sinni mynd!) Rétt eins og Adam og Eva gerðu uppreisn gegn skapara sínum hafa eftirmyndirnar gert uppreisn gegn Tyrell. Adam og Eva voru rekin úr Eden vegna þess að Guð óttaðist að þau myndu éta af lífsins tré en eftirmyndirnar snúa einmitt aftur til jarðar/Eden til að lengja líftíma sinn (þ.e. til að éta af lífsins tré). Og að lokum setti Guð engla til að varna Adam og Evu inngöngu en Deckard tilheyrir einmitt lögreglusveit sem vinnur við að varna eftirmyndum inngöngu. Munurinn á sögunni af Adam og Evu og kvikmyndinni Blade Runner er hins vegar sá að manninum ferst illa að leika Guð. Edenslundur mannsins er deyjandi pláneta og hann skapar ekki af kærleika til sköpunarinnar heldur af sjálfselsku.
Í myndinni eru fjölmörg önnur trúarstef. Leiðtogi eftirmyndanna, Roy, er t.d. kristsgervingur en hann er t.d. með nagla í gegnum lófan (kristssár) þegar hann bjargar Deckard. Í borginni er stöðug rigning, rétt eins og syndarflóð hafi skollið á en tilvísun í Nóaflóðið er áréttuð þegar Roy sleppir dúfu sem flýgur upp í heiðbáan himinn. Dæmisagan af glataða syninum kemur einnig fyrir í myndinni en hún snýst þó í andhverfu sína. Að lokum má geta þess að Tyrell minnir mjög á Faróa forðum. Hann býr í Pýramíta, er fulltrúi viskunnar og stjórnar sólinni á stórum myndskjá.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 1M 3; Pd 3:2; Lk 15:11-32
Hliðstæður við texta trúarrits: 1M 1-3; 6:9-8:22; Mt 3:16; Mk 1:10, Lk 3:22; Jh 3:15-16; Rm 5:17-18; 1Kor 15:20-22; Opb 2:7; Opb 22:2, Opb 22:14, Opb 22:19
Persónur úr trúarritum: Guð, snákurinn, Adam, Eva, Faraó, Rakel, Salóme, Glataði sonurinn
Sögulegar persónur: …
Guðfræðistef: Kristsgervingur, Kristssár, sköpun í mynd Guðs, dauðinn, Eden, himinn, helvíti,
Siðfræðistef: Þrælahald, kúgun, fordómar
Trúarbrögð: Hari kristna,
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: Pýramíti
Trúarleg tákn: Einhyrningur, dúfa
Trúarlegt atferli og siðir: Bæn
Trúarleg reynsla: Hjálpræði, opinberun