Leikstjórn: Fernando Di Leo
Handrit: Fernando Di Leo
Leikarar: Claudio Cassinelli, Martin Balsam, Barbara Bouchet, Olga Karlatos, Pier Paolo Capponi, Vittorio Caprioli, Carmelo Reale, Alberto Squillante, Franco Beltramme og Salvatore Billa
Upprunaland: Ítalía
Ár: 1977
Lengd: 97mín.
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0075940
Einkunn: 2
Ágrip af söguþræði:
Smáglæpamaðurinn Guido er sannfærður um að mafíuforinginn Rizzo hafi ekki aðeins vísað lögreglunni á sig þar sem hann var við innbrot hjá tryggingarfélagi heldur beri hann einnig á ábyrgð á dauða eiginkonu sinnar. Af þeim sökum segir hann mafíunni stríð á hendur um leið og hann losnar úr fangelsi fimm árum síðar og brennir þannig allar brýr að baki sér áður en í ljós kemur að hann hafði haft Rizzo fyrir rangri sök.
Almennt um myndina:
Frekar mistæk sakamálamynd sem sleppur þó naumlega fyrir horn. Reyndar hefði alveg mátt vanda einstök hasaratriði aðeins betur eins og t.d. rúturánið snemma í myndinni en framleiðslan hefur klárlega ekki kostað mikið. Leikararnir eru sumir fínir eins og Martin Balsam í hlutverki mafíuforingjans Rizzos og Barbara Bouchet í hlutverki enn einnar fatafellunnar á löngum ferli hennar. Þó skemmir ofleikur sumra leikaranna aðeins fyrir, sérstaklega í tilfelli Vittorios Caprioli í hlutverki lögreglustjórans.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Kvikmyndin fjallar fyrst og fremst um vafasaman heiður ítalskra afbrotamanna þar sem tryggð, þagmælska og hatur á öllum laganna vörðum vega þyngst. Þannig dást útsendarar mafíuforingjans Rizzos að einu fórnarlambi þeirra þegar það lætur frekar lífið en að ljóstra upp um félaga sinn. Fórnarlambið krossfesta þeir með hamri og nöglum eftir að hafa gefið því kost á að segja þeim allt, sem þeir vilja vita, eða láta lífið ella sem píslarvottur. Megin boðskapur myndarinnar er því sá að glæpir borgi sig ekki.
Guðfræðistef: krossfesting, píslavætti
Siðfræðistef: manndráp, ofbeldi, heiður afbrotamanna, sjálfsvörn, innbrot
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarlegt atferli og siðir: messa