Kvikmyndir

Blue Velvet

Leikstjórn: David Lynch
Handrit: David Lynch
Leikarar: Isabella Rossellini, Kyle MacLachlan, Dennis Hopper, Laura Dern
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1986
Lengd: 120mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0090756
Einkunn: 4

Ágrip af söguþræði:
Ungur strákur, Jeffrey að nafni, finnur afskorið eyra út á víðavangi. Eftir að hafa afhent lögreglunni eyrað ákveður hann að öðlast smá lífsreynslu og rannsaka málið upp á eigin spýtur. En áður en hann veit af hefur hann dregist inn í myrkraheim sem ógnar lífi hans og rænir hann sakleysinu.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Þetta meistaraverk Lynch hefur að geyma mun fleiri trúarstef en virðist við fyrstu sýn. Um miðbik myndarinnar segir Sandy (verðandi kærasta Jeffrey): „Mig dreymdi draum. Reyndar dreymdi mig hann nóttina sem ég hitti þig fyrst. Okkar veröld var í þessum draumi, en veröldin var myrk vegna þess að þar voru engir glóbrystingar [fuglategund, robins á ensku], en glóbrystingarnir táknuðu ást. Og lengi vel var aðeins myrkur. En allt í einu var þúsund glóbrystingum sleppt. Þeir flugu niður og þeim fylgdi blindandi ljós ástar. Mér fannst sem þessi ást væri það eina sem skipti máli. Og hún skipti máli. Ég held að draumurinn merki að það eru vandamál fram að komu glóbrystinganna.“ Það er engin tilviljun að þessi frásögn er sögð fyrir framan kirkju og að á sama tíma er spilað á orgel. Það er áhugavert að skoða myndina í ljósi þessa draums, en það er oft vísað í hann í myndinni; Sandy spyr t.d. grátandi hvar draumur hennar sé o.s.frv. Myndin byrjar á því að sýna dásamlegan, ná!nast fullkominn heim. Allir eru glaðir og allt er fallegt og gott. Myndavélin fer þá fram hjá stofuglugga og sýnir glæpamynd í sjónvarpi þar sem maður læðist um með byssu. Myndavélin hverfur þá frá þessari illsku (sem er í hróplegri andstöðu við þá fegurð sem hefur verið sýnd hingað til) og sýnir garðslöngu sem virðist vera að sprynga vegna og mikils þrýstings. Það er eins og illskan úr sjónvarpinu hafi lekið inn í garðslönguna sem, eins og snákur, er vafin um trágrein. Faðir Jeffery er að vökva með garðslöngunni en fær hjartaáfall og fellur niður á jörðina. Myndavélin sýnir þá krökkt skordýra sem eru undir grasfletinum. Margir hafa túlkað þessa senu þannig að Lynch sé að segja að undir hinu fágaða yfirborði sé allt rotið. Það er vissulega möguleg túlkun en alls ekki nauðsynleg. Það má rétt eins túlka senuna sem tilvísun til saklausari tíma, n.k. Eden ástands sem hrundi þegar illskan réðist inn í aldingarðinn (ofbeldið í sjónverpinu virðist á einhvern dularfullan hátt fara inn! í garðSLÖNGUNA og um leið fær faðir Jeffery hjartaáfall). Við þetta bætist að í lok myndarinnar (og nú ljóstra ég upp um endinn) sést glóbrystingur með samskonar skordýr í gogginum og Sandy og Jeffery vitna um leið í draum Sandyar. Á þessari stundu hefur allt fallið í ljúfa löð á ný. Faðir Jeffrey er búinn að ná heilsu, Dorothy (helsta fórnarlamb myndarinnar) er laus úr klóm Frank (sem er tákn illskunnar) og hefur fengið son sinn aftur. Sandy og Jeffery hafa einnig náð saman og eru yfirsig ástfangin. Við þetta bætist að glóbrystingur, tákn ástarinnar, hefur sigrað skordýrið, tákn illskunnar. Og til að kóróna þetta allt saman er lagið Mysteries of Love spilað undir en þar segir meðal annars: „Og dulúð ástarinnar verður ljós.“ Að lokum eru aftur sýndar hinar fögru, saklausu myndir sem sáust í upphafi, fyrir „fallið“. Því höfum við mjög skírt mynsur, þ.e. fullkominn heimur, fall, hörmungar og að lokum guðlegt inngip sem færir allt til betri vegar á ný (1000 glóbrystingar sem! tákna ást koma að ofan). Ástin hefur sigrað og Eden er endurheimt.

Hliðstæður við texta trúarrits: 1M 2-3
Persónur úr trúarritum: Adam, Eva, snákur
Guðfræðistef: ást
Trúarbrögð: Vottar Jehúva
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: glóbrystingur, orgeltónlist
Trúarlegt atferli og siðir: bæn
Trúarleg reynsla: draumur