Kvikmyndir

Bram Stoker’s Dracula

Leikstjórn: Francis Ford Coppola
Handrit: James V. Hart , byggt á skáldsögu Bram Stoker
Leikarar: Gary Oldman, Winona Ryder, Anthony Hopkins, Keanu Reeves.
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1992
Lengd: 123mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0103874
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Myndin fylgir skáldsögu Stokers nokkuð vel. Prinsinn Vlad Drakúla missir eiginkonu sína þegar hún sviptir sig lífi. Eftir að kirkjan lýsir því yfir að sál hennar sé bölvuð vegna sjálfsvígsins snýst Drakúla gegn Guði og kirkjunni. Fjórum öldum síðar fjárfestir Drakúla í Englandi og er ungur sölumaður, Jonathan, sendur til Transiljaníu til að ljúka kaupunum. Jonathan hyggst snúa strax aftur heim að því loknu til að kvænast unnustu sinni, Mínu. Þegar Drakúla sér mynd af Mínu áttar hann sig á því að hún er eiginkona hans endurfædd. Hann lokar því Jonathan inni í kastala sínum og heldur til Englands. Nú hefst barátta Jonathans og Drakúla um sálarheill og ástir Mínu.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Eins og flestar vampírumyndir er þessi kvikmynd mjög guðfræðileg, en hugmyndin um að lífið sé í blóðinu er komin úr Biblíunni (sjá t.d. 1M 9:4, 2M 17:11-14, 5M 12:23, Jh 6:53-54). Drakúla er fullkomin andstæða Krists. Í stað þess veita örðum eilíft líf með blóði sínu öðlast hann eilíft líf með því að drekka blóð annarra. Það má því líta á „matarvenjur“ Drakúla sem vanhelgað sakramenti. Þessi vanhelgun kemur oftar fyrir í myndinni. T.d. er talað um vampíruskírn (sem er andstæða kristinnar skírnar) og hver sá sem gengur Drakúla á hönd glatar sálu sinni. Þegar Drakúla afneitar Guði veltir hann um koll skírnarfonti og afneitar þannig á táknrænan hátt skírninni. Ein besta vörn gegn vampírum er krossinn og oblátan en oblátan er sérstaklega sterk. Og að lokum eru orðin „Við erum sterk í Drottni og krafti máttar hans“ (Ef 6:10) notuð til að verjast vampírum. Af þessu er ljóst að þeir sem kljást við vampírur eru að berjast við myrkraöflin sjálf. Í myndinni rennur Drakúla greifi nánast saman við Djöfulinn. Hann minnir um margt á fallinn engil og talað er um hann sem Satan sjálfan. En líf utan trúarinnar er martröð og sést það vel í lokasenu myndarinnar (og hér ljóstra ég upp um endinn) þegar Drakúla liggur helsærður á kirkjugólfinu, en einmitt á þessum stað snérist hann gegn Guði. Hann hlýtur loks frið þegar hann deyr fyrir framan altarið og krossinn. Enda er hið sanna líf aðeins að finna undir verndarvæng Drottins.

Það er áhugavert að skoða viðhorf til kynlífs í þessari mynd. Allir þeir sem standa utan trúarinnar virðast vera með brókarsótt, en samkvæmt hefðinni tengist taumlaust kynlíf djöflinum. Annað sem vekur athygli er sú kenning að Mína sé endurholgun Elísabetar, en þá kenningu er ekki að finna í skáldsögu Stokers, enda hugmyndin tiltölulega ný á vesturlöndum. Að lokum langar mig að minnast á frumlega og skemmtilega kenningu Guðna Elíssonar, en hann sér hliðstæðu við sköpun Evu úr rifi Adams þegar Drakúla sker í síðu sína og gefur Mínu blóð sitt að drekka. Það er eins og að Drakúla sé að skapa „bein af sínu beini og hold af sínu holdi“.

Framhald umræðunnar á umræðutorginu

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 1M 9:4, 2M 17:11-14, 5M 12:23, Jh 6:53-54, Ef 6:10
Hliðstæður við texta trúarrits: 1M 2:21-22, 1M 3, Sl 22:1, Mt 27:46, Mt 15:34
Persónur úr trúarritum: börn Djöfulsins, Drakúla, draugur, djöflar, Djöfullinn, dreki, Guð, Satan, Snákur, úlfur, vampíra
Guðfræðistef: bölvun, eilíft líf, endurfæðing, endurholgun, endurlausn, heilög jörð, kynlíf, náð Guðs, óhreint, sál, örlög
Siðfræðistef: morð, sjálfsvíg
Trúarbrögð: gríska rétttrúnaðarkirkjan, islam, krossfari
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: dómkirkja, helvíti, himnaríki, kirkja, Konstantinopel,
Trúarleg tákn: kross, obláta, róðukross, skírnarfontur, vígt vatn
Trúarlegt atferli og siðir: brúðkaup, bæn, bölvun, guðsafneitun, signun, særing, trúvampírisk skírn, þakkargjörð
Trúarleg reynsla: endurlausn, leiðsla