Kvikmyndir

Brothers in Blood

Leikstjórn: Tonino Valerii
Handrit: Roberto Leoni
Leikarar: Bo Svenson, Martin Balsam, Peter Hooten, Nat Kelly Cole, Werner Pochath, Juan Jose Ceballos, Franklin Dominguez, Rocco Lerro, Carlo Mucari, Sergio Testori og Pietro Torrisi
Upprunaland: Ítalía
Ár: 1986
Lengd: 89mín.
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0091997

Ágrip af söguþræði:
Árið 1974 neyðast fjórir bandarískir hermenn til að skilja eftir særðan félaga sinn í höndum Vietkong í Víetnam. Þegar hann er síðan leystur úr haldi ásamt fjölda annarra bandarískra stríðsfanga rúmum áratug síðar, eru þeir fyrst sendir á hressingarhæli í Sviss áður en ferðinni er haldið áfram heim til Bandaríkjanna. Áður en þeir ná hins vegar á leiðarenda, ræna hryðjuverkamenn flugvélinni sem þeir eru í og stefna henni til Suður-Ameríku. Um leið og það spyrst út safnar einn hermaðurinn, sem hafði skilið félaga sinn eftir í Víetnam á sínum tíma, liði til að bjarga honum en mætir andstöðu bandarískra ráðamanna, sem reyna allt hvað þeir geta til að koma í veg fyrir björgun gömlu stríðsfanganna frá hryðjuverkamönnunum.

Almennt um myndina:
Ótrúlega léleg ítölsk harðhausamynd sem stælir bandarísku spennumyndina Uncommon Valor eftir Ted Kotcheff frá árinu 1983. Persónusköpunin er ekki aðeins verulega ósannfærandi heldur verða athafnir helstu sögupersónanna oftar en ekki að teljast óskiljanlegar. Þannig virðast þær með öllu óháðar takmörkunum tímans og rúmsins, enda geta þær skotið upp kollinum svo til hvar sem er hvenær sem er algerlega óháð því hvað gengur á eða hvaða vitneskju þær hafa.

Auk þess hefur gerð kvikmyndarinnar vart kostað neitt, enda allt gert með sem allra einföldustum hætti. Að undanskyldum fáeinum myndskotum frá New York snemma í myndinni virðist nánast allt annað tekið upp á sama staðnum, hvort sem um er að ræða Víetnam eða Suður-Ameríku. Sömuleiðis virðist bandaríski herinn í Víetnam og suður-ameríska herforingjastjórnin nota sömu herþyrluna, en farþegaflugvélin, sem hryðjuverkamennirnir rændu, er aldrei sýnd.

Það er alveg ljóst að Tonino Valerii hefur verið með öllu áhugalaus um gerð myndarinnar, en á árum áður skilaði hann frá sér fjölda verulega betri kvikmynda eins og Day of Anger árið 1967, My Dear Killer árið 1971 og My Name Is Nobody árið 1973.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Sennilega er það aðeins léttvæg tilviljun en þegar aðalsöguhetjan kvartar undan sífelldum predikunum eiginkonunnar yfir sér þá eru þau að keyra framhjá höfuðstöðvum Votta Jehóva í Brooklyn í New York. Síðar í myndinni segja tvær af söguhetjunum með nokkrum hæðnistón það vera hreint kraftaverk ef björgunaraðgerðir þeirra komi til með að takast og verði bænin því að koma þar til hjálpar.