Kvikmyndir

Bury Them Deep

Leikstjórn: Paolo Moffa [undir nafninu John Byrd]
Handrit: Enzo Dell’Aquila
Leikarar: Craig Hill, Ettore Manni, Giovanni Cianfriglia [undir nafninu Ken Wood], José Greci, Francesco Santoveti, Luciano Doria, Alberto Bucchi, Antonio Danesi, Ruggero Salvadori, Giuseppe Sorrentino og Silvano Zuddas
Upprunaland: Ítalía
Ár: 1968
Lengd: 93mín.
Hlutföll: 1.33:1 (var sennilega 2.35:1)
Einkunn: 1

Ágrip af söguþræði:
Þegar bófaforinginn Billy Gunn rænir miklum gullbirgðum frá bandaríska riddaraliðinu, er mannaveiðarinn Clive Norton fenginn til þess að hafa uppi á honum. Norton ákveður þó fyrst að bjarga bróður bófaforingjans úr gálganum í trausti þess að hatrið milli bræðrana dugi til að draga þá sem fyrst saman.

Almennt um myndina:
Enda þótt þessi spaghettí-vestri nefnist Bury Them Deep, er enginn grafinn í honum, jafnvel þótt menn séu skotnir til hægri og vinstri svo til allan tímann. Skotbardagarnir eru reyndar svo fyrirferðamiklir að það er sjaldnast á hreinu hver er að drepa hvern eða til hvers, en inn á milli má þó finna nokkur glórlaus slagsmálaatriði.

Meðferðin á hestunum í helstu átakaatriðunum er hörmuleg, enda eru margir þeirra látnir þeytast á spotta eða kaðla með þeim afleiðingum að þeir steypast allharkalega fram yfir sig. Nær væri að láta hestana falla á hliðina eins og tíðkast í vandaðri vestrum.

Kvikmyndatakan er í höndum Aristides Massaccesi, sem síðar gerðist afkastamikill ruslmyndagerðarmaður en hann gerði meðal annars hrollvekjurnar Death Smiles at Murder (1972), Emanuelle and the Last Cannibals (1977) og Anthropopahgus (1980) og harðhausamyndina Tough to Kill (1978), flestar reyndar undir dulnefninu Joe D’Amato. Þar sem u.þ.b. helmingur myndflatarins virðist hafa verið skorinn í burt á myndbandsspólunni til að myndin fylli upp í skjá sjónvarpstækisins, kemur myndatakan frekar illa út, ekki síst þar sem myndramminn er jafnan hafður á miðju breiðtjaldinu óháð því hvað er að gerast á köntunum.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Við ýmis tækifæri er minnst á Biblíuna, helvíti og mikilvægi þess að sættast við Guð en hvergi er unnið með þau þemu að neinu marki enda allt fremur almennt og loðið.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían
Guðfræðistef: helvíti, sættast við Guð, krossfesting
Siðfræðistef: manndráp, þjófnaður, svik, dauðarefsing
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: kross á leiði
Trúarlegt atferli og siðir: sverja