Leikstjórn: Hector Babenco
Handrit: Hector Babenco, Fernando Bonassi og Victor Navas, byggt á bók eftir Dráuzio Varella
Leikarar: Luiz Carlos Vasconcelos, Milhem Cortaz, Milton Gonçalves, Ivan de Almeida, Ailton Graça, Maria Luisa Mendonça, Aida Leiner, Rodrigo Santoro og Gero Camilo
Upprunaland: Brasilía og Argentína
Ár: 2003
Lengd: 148mín.
Hlutföll: Ekki vitað
Einkunn: 3
Ágrip af söguþræði:
Drauzio Varella vann við alnæmisrannsóknir í fangelsinu Carandiru í São Paulo í Brasilíu og kynntist þar hundruðum fanga sem bjuggu við hræðilegar aðstæður. Fangarnir gerðu að lokum uppreisn árið 1992, eins og frægt er orðið, en lögreglan var að lokum send inn og féllu 111 fangar í hildarleiknum sem fengið hefur nafnið Carandiru-fjöldamorðið. Ekki einn einasti lögreglumaður lét hins vegar lífið við þessa aðgerð.
Almennt um myndina:
Kvikmyndin Carandiru er byggð á æviminningum Drauzio Varella, en bók hans var metsölubók í Brasilíu. Hún gerist í fjölmennasta fangelsi Brasilíu, en 7000 fangar dvöldu þar, þótt það ætti aðeins að hýsa 4.500 fanga. Leikstjóra myndarinnar, Hector Babenco, er mjög djarfur að því leyti að hann er með 26 aðalpersónur í myndinni og um 120 aukaleika (þar með eru ótaldar þúsundir manna sem taka þátt í fjöldasenum). Vanalega er reynt að hafa ekki fleiri en 1-3 aðalpersónu í kvikmyndum vegna þess að erfitt er að gera fleiri persónum skil. Hector Babenco sannar hér að þetta er ekki ófrávíkjanlegt lögmál en honum tekst ótrúlega vel að koma sögum þessara manna til skila, enda tekur hann sér nægan tíma til þess. Hann tekur tvo tíma í að kynna aðalpersónur myndarinnar en fjöldamorðið og aðdragandi þess fær síðasta hálftíma myndarinnar. Hector Babenco vefur sögur fanganna saman þannig að úr verður ein heild, ein margbrotin og heillandi saga.
Styrkur myndarinnar er á mörgum sviðum. Fyrst ber að nefna leikinn sem er nánast undantekningalaust óaðfinnanlegur. Kvikmyndatökunni og listrænni hönnun tekst að fanga glundroða og andrúmsloft staðarins, en tónlistin er notuð sparlega og Hector Babenco reiðir sig aldrei á hana til að skapa tilfinningar.
Leikstjórnin er þétt og markviss, enda Hector Babenco hér á heimavelli en hann hefur margoft áður fjallað um undirheima og lágstéttarsamfélag Brasilíu. Hector Babenco gætir þess að fella aldrei dóm yfir persónum sínum, en á sama tíma reynir hann ekki að fegra þær heldur. Áhersla hans er fyrst og fremst á persónusköpun og andrúmsloft staðarins. Hlutleysi hans er þó ekki algjört því að hann fellur mjög harðan dóm yfir lögreglusveitinni sem framdi fjöldamorðið í fangelsinu og fáum við hvorki að heyra þeirra hlið á málinu né kynnast nokkrum þeirra náið.
Hector Babenco tengist reyndar Íslandi á nokkuð sérstakan hátt, en á tímabili var rætt um að hann myndi leikstýra Sjálfstæðu fólki eftir Halldór Kiljan Laxness. Reyndar veit ég ekki hvort það sé enn upp á teningnum en Hector Babenco hefur lítið látið í sér heyra á síðustu árum vegna veikinda. Hann er líklega hvað þekktastur fyrir myndirnar Kiss of the Spider Woman (1985), sem hann var tilnefndur til óskarsverðlauna fyrir, og Ironweed (1987). Hann hefur þrisvar verið tilnefndur til verðlauna á Cannes, þ.e. fyrir Kiss of the Spider Woman, Hjarta flónsins (Corazón iluminado: 1996) og svo þessa mynd um Carandiru fangelsið.
Að lokum má geta þess að Carandiru fangelsið var jafnað við jörðu árið 2002, að einni byggingu frátaldri en hún verður notuð sem sýningarsalur í framtíðinni. Kvikmyndin var tekin upp í fangelsinu og var það síðasta sem gert var innan veggja þess áður en það var rifið niður.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Fangelsismyndir eru oftast háguðfræðilegar enda fjalla þær flestar um lægstu hvatir mannkynsins, iðrun og jafnvel endurlausn. Carandiru er hér engin undantekning.
Eins og áður sagði byggir myndin á endurminningum Dráuzio Varella. Hann veltir því fyrir sér í upphafi myndarinnar hvort það sé rétt af honum að sýna þessum syndumspillta lýð miskunn: „Ég vissi að margir þeirra höfðu ekki sýnt fórnarlömbum sínum neina miskunn, en það er nóg af dómurum í þessum heimi. Ég er ekki einn þeirra.“
Það er ljóst að þessum mönnum er ekkert heilagt. Einn þeirra segir frá því þegar þeir frömdu stórrán á jólunum og var einn þeirra klæddur jólasveinabúningi. Reyndar fer allt í vaskinn þegar einn þeirra skýtur samstarfsaðila sinn til bana sem hann hélt að ætlaði að skjóta sig. Upp koma miklar deilur og segir þá sá sem var í jólasveinabúningnum við morðingjann: „Þú ert gráðugur eins og Júdas, sá sem hrækti í andlit Jesú.“ Hér birtist á áhugaverðan hátt það tvöfalda siðgæði sem er gegnum gangandi í myndinni. Sem dæmi mætti nefna að einn stórglæpamaðurinn segist vera í fangelsinu vegna þess að hann sé svo nálægt Guði og bætir við: „Djöfullinn freistar aðeins þeirra sem eru nálægt Guð.“
Það vekur athygli að fangarnir eru með sitt eigið réttarkerfi innan fangelsisins. Það er t.d. bannað að drepa annan fanga án samþykkis. Það verður einnig að bera öll deilumál fram og leita lausna áður en gripið er til ofbeldis. Einn fanginn, Ezequiel að nafni, verður t.d. að greiða eiturlyfjaskuld sína innan viku, að öðrum kosti fær sá sem hann skuldar leyfi til að drepa hann. Ezequiel tekst að lokum að greiða skuld sína með því að selja blíðu systur sinnar innan veggja fangelsisins. Það að fangar komi sér upp lögum og reglum sýnir vel hversu mikilvægur lagaramminn er í samfélagi manna. Meira að segja glæpamenn sem lifa á því að brjóta reglur samfélagsins skapa sínar reglur til þess að halda friðinn og gera líf sitt bærilegra.
Samkynhneigð kemur mikið við sögu í myndinni, en reyndar virðist það vera svo að ekki aðeins samkynhneigðir njóti ástar með öðrum karlmönnum. Þegar einn fanginn er t.d. spurður hvort hann hafi notið ástar með karlmanni segir hann að þeir fangar sem neiti því séu lygarar. Þótt vissulega birtist fordómar í garð samkynhneigðra í myndinni verður maður ekki var við þá afstöðu hjá kvikmyndagerðamönnunum. Ein fallegasta ástarsagan í myndinni er t.d. um samkynhneigt par sem giftir sig í fangelsinu.
Einn fangi myndarinnar, Dagger að nafni, hefur hingað til ekki veigrað sér við að myrða mann og annan en áttar sig allt í einu á því sér til skelfingar að hann getur ekki lengur framið morð. Samviskan leyfir honum það ekki. Maðurinn sem hann átti að drepa var reyndar drepinn af öðrum. Um nóttina birtist hinn látni í draumi. Dagger spyr hann hvort hann hafi hitt Guð á himnum og segir hinn látni þá að hann hafi ekki hitt hann í eigin persónu. Dagger leitar þá til Dráuzio Varella og spyr hann hvort hann geti læknað samviskubit og endar svo á bænasamkomu. Þar er honum tekið opnum örmum. Dagger á reyndar erfitt með að ganga inn í fangelsiskapelluna og segir grátandi að það sé svo mikið blóð á honum. Söfnuðurinn spyr á móti hvort hann vilji taka á móti Jesú og fellur hann þá á kné og játar því.
Síðasti hálftími myndarinnar fjallar um fjöldamorð lögreglunnar og er ljóst að afstaða kvikmyndagerðamannanna er sú að lögreglan hafi drepið hvern einn og einasta fanga að ástæðu lausu. Fjöldamorðið er bæði hrottafengið og miskunnarlaust. Lögreglumaður drepur t.d alla fanga í einu herberginu nema einn, en hann segir við fangann að hann fái að lifa til að segja frá því sem gerst hafi. Stuttu síðar birtist lögreglumaðurinn aftur og segist hafa skipt um skoðun og drepur fangann. Afstaða leikstjórans sést hvað best á því að lík sumra fanganna eru baklýst í krossfestingu. Boðskapurinn er augljós. Lögreglan er að endurtaka glæpinn á Golgata.
Mitt í þessum fjöldamorðum, þar sem 111 fangar létu lífið, sjáum við ungan fanga hlaupa á milli herbergja og um ganga til að bjarga lífi sínu. Hann þarf jafnvel að leggjast niður innan um fjöldann allan af líkum til að þykjast vera dauður. Þegar hann rís upp frá líkunum gengur hann inn í herbergi sitt og les bréf frá móður sinni en þar stendur: „Ég veit að þú trúir ekki á Guð en í dag las ég sálm 91 í Biblíunni. Þar segir: „Þótt þúsundir falli þér við hlið og tíþúsund þér til hægri handar, þá nær það ekki til þín.“ Það var eins og þú værir hjá mér þegar ég las þessi orð.“ Sálmurinn á reyndar afskaplega vel við því að enda þótt fjöldinn allur hafi fallið í þessu fjöldamorði slapp þessi ungi piltur lifandi.
Myndin endar svo á eftirfarandi staðhæfingu: Þeir einu sem vita hvað raunverulega gerðist í fangelsinu eru Guð, löggan og fangarnir sjálfir.
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían, Sl 91:7
Persónur úr trúarritum: Guð, jólasveinn, Júdas, Jesús Kristur, María mey, djöfullinn, draugur
Guðfræðistef: blessun, freisting, sál, samviskubit, iðrun, örlög, tilvist Guðs, krossfesting
Siðfræðistef: morð, ofbeldi, þjófnaður, hefnd, vændi, samkynhneigð, lygar, leigumorð, framhjáhald, nauðgun, klám, græðgi, kærleikur, dómur, fordómar, loforð, heit, eiturlyfjaneysla, fjöldamorð
Trúarbrögð: kristin trú
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: himnaríki, fangelsiskapella, kirkja
Trúarleg tákn: kross, róðukross, krossfestingarstelling
Trúarleg embætti: prestur
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, bænahringur, signun, biblíulestur
Trúarlegar hátíðir, sögulegir atburðir: jól
Trúarleg reynsla: afturhvarf, endurlausn