Kvikmyndir

Cast a Giant Shadow

Leikstjórn: Melville Shavelson
Handrit: Melville Shavelson, byggt á bók Ted Berkmans
Leikarar: Kirk Douglas, Senta Berger, Angie Dickinson, James Donald, Yul Brynner, John Wayne, Frank Sinatra, Stathis Giallelis, Luther Adler, Topol, Ruth White, Gordon Jackson, Michael Hordern, Allan Cuthbertson, Jeremy Kemp, Sean Berret, Michael Shillo og Rina Ganor
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1966
Lengd: 141mín.
Hlutföll: 2.35:1
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Mickey Marcus (Kirk Douglas), fyrrverandi liðsforingi í bandaríska hernum, er talinn á að koma til Landsins helga í ársbyrjun 1948 og skipuleggja her Gyðinga (Ísraelsmanna) fyrir þau átök sem í vændum eru þegar Bretar munu yfirgefa landið um miðjan maí og Ísrael lýsa yfir sjálfstæði í kjölfar þess.

Almennt um myndina:
Myndin byrjar skömmu fyrir jól 1947. Ísraelskur sendiboði, Safir að nafni, sem er foringi í Haganah, neðanjarðarher Ísraelsmanna, hefur uppi á David ‚Mickey‘ Marcus, fyrrverandi liðsforingja í bandaríska hernum úr seinni heimsstyrjöldinni, þar sem hann er staddur í verslun í New York. Marcus hafði m.a. starfað undir stjórn hins nafntogaða herforingja Pattons og hafði einnig barist í Miðausturlöndum og þekkir því til aðstæðna þar. Safir á það erindi við Marcus að fá hann til að koma til Landsins helga og stjórna sjálfstæðisbaráttu Ísraelshers gegn ofurefli herliðs þeirra sex Arabaríkja (50 millj.) sem hótað hafa að hrekja Gyðinga út í Miðjarðarhafið strax og Bretar fari úr landinu. Flestir þeir atburðir sem tengjast Mickey Marcus í myndinni gerðust í raun og veru.

Marcus, sem sjálfur er af Gyðingaættum, lætur tilleiðast þó að hann segist ekki hafa neina aðra trú en ameríska: „Ég er Ameríkani. Það eru trúarbrögð mín.“ Þar gengur hann hins vegar á bak loforði sem hann hafði gefið Emmu konu sinni: „Ég veit að ég er að svíkja loforð en ég held til Palestínu í næsta mánuði,“ segir hann og lendir síðan á Lydda flugvelli í Ísrael 2. febrúar 1948 undir dulnefndinu Micahel Stone. Þar tekur á móti honum falleg kona að nafni Magda Simon og á þeirri stundu veit áhorfandinn hvað í vændum er. Ástarsamband verður til milli þeirra og það er hluti af þræði myndarinnar, togstreitunnar milli vilja Marcusar til að halda tryggð við Emmu eiginkonu sína og ást hans til Mögdu sem missir eiginmann sinn í stríðsátökum eftir að hún hefur kynnst honum. Þessi ástarþríhyrningur gerir myndina dálítið væmna á köflum en verður líka til þess að leikmyndin flyst á stundum frá Ísrael til Bandaríkjanna, en myndin er að langmestu leyti tekin á þeim stöðum sem atburðirnir gerðust í raun og veru, þ.e. í Landinu helga (Ísrael/Palestínu). Víða er allrómantískur blær á myndinni og hermenn Gyðinga gjarnan sýndir syngjandi lög eins og Hava nagila.

Þá fær áhorfandinn að sjá sjálfan Frank Sinatra í hlutverki glaðbeitts flugkappa í herliði Ísraelsmanna sem varpar bensínsprengjum yfir skriðdreka og velbúinn innrásarher Egypta. Sömuleiðis kemur fram að Marcus hafði í lok síðari heimsstyrjaldarinnar komið inn í útrýmingarbúðirnar í Dachau og þannig séð með eigin augum þann óhugnað sem þar hafði átt sér stað í tilraun þýzkra nazista til að útrýma Gyðingum af jörðinni. Það má því ljóst vera að Marcus hefur einhverjar taugar til Gyðinga þó að hann láti lengst af eins og hann sé ekki Gyðingur sjálfur. Hann kynnist fljótt ástandinu í landinu því að rúta sem flytur hann af flugvellinum verður fyrir skotárás Araba í umsátri í einum af bæjunum sem bifreiðin keyrir í gegnum.

Myndin er vissulega mjög áhugaverð sögulega enda stofnun sjálfstæðs Ísraelsríkis í Landinu helga árið 1948 hreint ótrúleg í ljósi aldalangrar dreifingar Gyðinga um heimsbyggðina. Auk þess hefur þessi atburður reynst mjög svo afdrifaríkur fyrir þróun mála í Miðausturlöndum og raunar haft mikil áhrif í heimspólitíkinni allri, oft á tíðum.

Margt sýnist sagnfræðilega nákvæmt í þessari mynd. Bretar eru sýndir íjákvæðara ljósi en gjarnan má búast við í myndum sem taka eindregiðafstöðu með Ísraelsmönnum, eins og þessi mynd gerir vissulega. Þannig gefast Bretar upp á því að hindra flóttamenn af skipinu Ashkelon að ganga á land í Palestínu (Landinu helga). Hitt mun hafa verið algengara að Bretar hafi vísað slíkum flóttamönnum á brott þrátt fyrir að í mörgum tilfellum hafi verið um að ræða hrjáða flóttamenn sem komust lífs af úr útrýmingarbúðum nasista. Einn breski hermaðurinn segir raunar eitthvað á þá leið þegar liðsforingi hans hefur talið upp á tíu og hótað að skjóta á flóttamenninna: „Nú reynir á hvort við séum eitthvað skárri en nasistarnir.“ Og svo fer að Bretar skjóta ekki og tekst þar með ekki að stöðva þennan hóp ólöglegra innflytjenda.

Fátt er hins vegar gert til að sýna Arabana í jákvæðu ljósi og koma þeir áhorfendum fyrst og fremst fyrir sjónir sem ósköp frumstæðir. Þá hefur verið bent á að það sæti furðu að Golda Meir skuli ekki sjást í myndinni þegar David Ben Gurion les upp sjálfstæðisyfirlýsinguna. Skeyti berst frá Bandaríkjastjórn strax og sjálfstæðisyfirlýsingin hefur verið lesin upp og látið er að því liggja að Mickey Marcus hafi átt stóran þátt í því. Verður það að teljast vafasamt í meira lagi, en þessi mynd gerir vissulega ekki tilkall til þess að vera sagnfræðilega nákvæm í smáatriðum þó svo að hún byggi að verulegu leyti á raunverulegum atburðum. Þess má geta að Íslendingar gegndu allstóru hlutverki við stofnun Ísraelsríkis, ef marka má ævisögu Abba Ebans, síðar utanríkisráðherra Ísraels. Hann heldur því fram að Thor Thors sendiherra Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum hafi ráðið talsverðu um að atkvæðagreiðslan hjá SÞ um stofnun Ísraelsríkis hafi orðið Ísraelsmönnum í hag.

Drjúgur hluti myndarinnar fer í að lýsa tilraun Ísraelsmanna til að rjúfa umsátur Araba um Jerúsalem og brjótast með bílalest til borgarinnar. Tekst þeim um síðir að brjótast til borgarinnar helgu en Mickey Marcus lætur lífið, er skotinn til bana fyrir mistök af næturverði úr röðum Gyðinga. Í myndinni er sá atburður skrifaður á reikning þess að Marcus skildi ekki hebresku.

Mynd þessi er ekki síst athyglisverð fyrir það að hún fjallar um mjög svo forvitnilegan atburð í sögu 20. aldar sem lítið hefur verið fjallað um á hvíta tjaldinu. Tvær aðrar myndir hafa þó glímt við þetta viðfangsefni, þ.e. Sword in the Desert (George Sherman: 1949) og Exodus (Otto Preminger: 1960).

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Eins og vænta má af mynd eins og þessari er enginn skortur á trúarlegum stefjum og að sjálfsögðu er þar fyrst og síðast um að ræða tilvísanir til Gamla testamentisins. Við komuna til Landsins helga er Mickey Marcus strax boðinn velkominn til fyrirheitna landsins. Þau orð fela að sjálfsögðu í sér að Gyðingar eigi guðlegt tilkall til þessa lands vegna þess að frásagnir Gamla testamentisins greini frá því að Guð hafi gefið ættfeðrum þeirra fyrirheit um það. Á einum stað í myndinni segir breskur sendiherra við Mickey Marcus: „Vera má að vinir þínir hafi Biblíuna sín megin en Arabarnir hafa olíuna.“ Allvíða í myndinni er Gyðingum lýst með kunnuglegu orðalagi úr Gamla testamentinu, þ.e.: „Þeir eru harðsvíraður lýður.“

Ekki er mér fyllilega ljóst hvernig heiti myndarinnar ‚Cast a Giant Shadow‘ er hugsað en vissulega skapar það hugrenningatengsl við ýmsa texta í Gamla testamentinu þar sem skugganum er lýst á mjög jákvæðan hátt, hann verndar fyrir hinum mikla hita sem gjarnan er í Landinu helga. Þannig er mjög víða í Saltaranum talað um það skjól sem felst í því að sitja í ‚skugga vængja‘ Drottins eða leita þar hælis (sbr. t.d. Sl 17:8, 36:8, 57:2, 63:8, 91:1. Athyglisvert er dæmið í Sl 121:5 þar sem segir í íslensku Biblíuútgáfunni frá 1981: „Drottinn er vörður þinn, Drottinn skýlir þér.“ Orðrétt þýðing á síðari setningunni væri: „Drottinn er skuggi þinn“ og þannig er raunar þýtt í Biblíunni frá 1912. Öll áherslan í þeim sálmi er á vernd og varðveislu Guðs sem treysta megi við allar aðstæður. Hugtökin vörður og skuggi standa í hugsanarími.

Í einum texta Gamla testamentisins standa orðin ‚shadow‘ og ‚giant‘ hlið við hlið og það gerir þann texta strax forvitnilegan í okkar samhengi. Hér er um að ræða Jes 32:2. Verið er að tala um konunga og höfðingja sem ríkja með réttlæti og stjórna með réttvísi og staðhæft að þeir muni verða sem „hlé fyrir vindi og skjól fyrir skúrum, sem vatnslækir í öræfum, sem skuggi af stórum hamri í vatnslausum öræfum“. Hér er m.ö.o. verið að tala um stóran skugga sem veitir skjól og það í öræfum. Það kallast á við ýmislegt í þeirri mynd sem hér um ræðir. Baráttan fyrir stofnun sjálfstæðs ríkis Gyðinga í Landinu helga átti sér ekki síst stað í brennandi hita öræfanna. Mér finnst því í meira lagi líklegt að heiti myndarinnar sé undir áhrifum frá orðalagi um skuggann í Gamla testamentinu þar sem áherslan er á þá vernd og skjól sem hann veitir oft á tíðum þ.á.m. gegn óvinum sbr. Sl 17:8-9: „… fel mig í skugga vængja þinna/ fyrir hinum guðlausu, er sýna mér ofbeldi,/ fyrir gráðugum óvinum, er kringja um mig.“ Gyðingar voru umkringdir óvinaríkjum sem höfðu heitið að hrekja þá út í Miðjarðarhafið strax og Bretar færu úr landinu. Að öllu samanlögðu finnst mér eðlilegt að skilja heiti myndarinnar í ljósi ofannefndra ritningarstaða úr Gamla testamentinu og annarra hliðstæðra texta. Gyðingar eru í skjóli mikils skugga í baráttu sinni fyrir sjálfstæðu ríki í Landi feðra þeirra, Landinu helga.

Þá er talað um Mickey Marcus sem fyrsta herforingja (‚aluf‘ á hebresku.) Ísraels síðan Jósúa var uppi og vann Jeríkóborg (Jós 6). Á einum stað þar sem Mickey Marcus er að telja kjark í menn sína, andspænis að því er virðist vonlausum tilraunum til að komast upp til Jerúsalem gegnum umsátur Araba, vitnar hann í einn þekktasta atburð Gamla testamentisins sem skýrt er frá í 2. Mósebók 13-15 er hann segir: „Við komumst yfir Rauða hafið, ekki satt?“ (We did cross the Red sea, didn‚t we?). Þá vekur Asher, einn af liðsforingjum Ísaraelsmanna (leikinn af Yul Brynner), athygli hans á að hann hafi nú í fyrsta sinn sagt ‚við‘ er hann talaði um Gyðinga. Þannig fer ekkert á milli mála að þegar liðið er á myndina er Mickey Marcus algjörlega búinn að samsama sig með Gyðingum.

Á hinni mikilvægu leið hersveita Gyðinga til Jerúsalem breyta þeir svo hinni aldagömlu páskakveðju ‚Næsta ár í Jerúsalem!‘ yfir í ‚Næstu viku íJerúsalem!‘

Sérlega skemmtileg er notkun Sl 23 í myndinni, en hún kemur við sögu skömmu fyrir árás Gyðinga á sýrlenska herstöð. Mickey Marcus er haldinn efasemdum um þá árás, en þeir Gyðingar sem eru með honum svara að vopn þeirra og verjur felist í dýnamítinu og nóttinni. Þá botnar Mickey Marcus, allt að því hæðnislega, með orðunum: „Og Drottinn er minn hirðir‚“ (Sl 23:1) en bætir við: „Kannski er hann þeirra hirðir einnig. Sé það svo, þá verða margir sauðir ruglaðir.“ (And the Lord is my sheperd. Maybe he’s their sheperd too. If so, there will be a lot of confused sheep.) Það er algengt í stríðsmyndum að stríðsaðilarnir telji hver um sig Guð vera á sínum bandi. Hitt er sjaldgæfara að menn velti því fyrir sér í svona myndum hvort Guð kunni einnig að vera Guð óvinaþjóðarinnar. Þess vegna er þessi notkun á þekktasta texta Gamla testamentisins, texta sem er sannkölluð alheimseign, svo athyglisverð.

Fleiri biblíutilvitnanir koma einnig við sögu í myndinni en Marcus vitnar m.a. í boðorðin tíu.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 1M 8:4, 2M 20 (boðorðin), 2M 32:9; 33:3; 34: 9, 5M 9:6; 9:13, Jós 6, Ljóðaljóðin, Sl 23:1, Næsta ár í Jerúsalem (úr Haggadah)
Hliðstæður við texta trúarrits: 2M 14, Sl 17:8, 36:8, 57:2, 63:8, 91:1, 121:5, Jes 32:2
Persónur úr trúarritum: Nói, Móse, Jósúa, Salómon
Sögulegar persónur: David Ben-Gurion, Theodor Herzl
Guðfræðistef: Guð, blessun, dauði, kraftaverk, ,sjalom‘, von, skuggi
Siðfræðistef: afbrýðisemi, agi, áróður, dauðarefsing, freisting, frelsi, fyrirsát, gyðingahatur, innrás, harðsvírað fólk, heiðarleiki, heiður, heilagt stríð, hjónaband, hjónaskilanður, kynlíf, morð, réttlæti, ólöglegir innflytjendur, skömm, skelfing, stolt, stríð, þjófnaður
Trúarbrögð: Gyðingdómur, kristni, amerísk ættjarðarást
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: fyrirheitna landið, helvíti, Jerúsalem, kirkja, klaustur, Massada, moska, musteri (Salómons), Palestína, pýramítar, Rauða hafið
Trúarleg tákn: Biblían, Davíðsstjarnan, ísraelski fáninn, jólajata, krossmark, Rauð davíðsstjarna, jólasveinninn
Trúarleg embætti: spámaður, alúf (herforingi á hebresku)
Trúarlegar hátíðir, sögulegir atburðir: jól
Trúarleg reynsla: helförin