Kvikmyndir

Catch-22

Leikstjórn: Mike Nichols
Handrit: Buck Henry, byggt á skáldsögu eftir Joseph Heller
Leikarar: Alan Arkin, Martin Balsam, Richard Benjamin, Arthur Garfunkel, Jack Gilford, Buck Henry, Anthony Perkins, Martin Sheen, Jon Voight, Orson Welles, Charles Grodin, Bob Newhart, Paula Prentiss, Bob Balaban, Norman Fell og Susanne Benton
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1970
Lengd: 117mín.
Hlutföll: 2.35:1
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Yossarian er flugstjóri sprengjuflugvélar bandaríska hersins við Miðjarðarhaf í síðari heimsstyrjöldinni og hefur þegar flogið 35 ferðir. Undir venjulegum kringumstæðum hefði hann aðeins þurft að fljúga 25 ferðir en yfirmenn hans, ofurstarnir Cathcart og Korn, fjölga stöðugt flugferðunum sem hermennirnir þurfa að fara.

Almennt um myndina:
Skemmtilega súrríalísk mynd byggð á frægri bók sem sló svo rækilega í gegn að titill hennar varð að ensku orðatiltæki, þ.e. Catch-22. Í myndinni er her frægra leikara, eins og Alan Arkin, Martin Sheen, Jon Voight og Orson Welles, sem er stórkostlegur í hlutverki sínu sem Dreedle hershöfðingi. Þarna er Art Garfunkel einnig í sínu fyrsta leikhlutverki, en hann er að sjálfsögðu frægastur fyrir að vera í söngdúettinum Simon and Garfunkel.

Leikstjóri myndarinnar, Mike Nichols, er nokkuð mistækur. Frægasta mynd hans er án vafa The Graduate (1967) en hún telst jafnframt ein áhrifamesta mynd kvikmyndasögunnar. Mike Nichols hefur þó aldrei tekist að endurtaka leikinn en sló þó í gegn með myndina Silkwood árið 1983. Hann gerði jafnframt hrollvekjuna Wolf (1994) sem er stórlega vanmetin og svo nýlega hina stórgóðu sjónvarpsmynd Wit (2001).

Helsti kostur Catch-22 er dásamlegur húmor og frábær leikur.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Þegar Yossarian hefur gefið upp alla von um að klára flugkvóta sinn leitar hann til herlæknisins, Daneeka að nafni, og biður hann um að setja sig í flugbann. Daneeka segist ekki geta hjálpað Yossarian þar sem hann sé ekki veikur. Samtal þeirra lýsir innihaldi myndarinnar mjög vel:

Yossarian: „Geturðu sett þá sem eru veikir á geði í flugbann?“
Daneeka: „Já auðvitað. Lögin kveða á um það að geðveika menn eigi að setja í flugbann.„
Yossarian: „Ég er geðveikur.“
Daneeka: „Hver segir það?“
Yossarian: „Spurðu hvern sem er, Nately, Dobbs, McWatt [í þessu kemur Orr, en hann er frægur fyrir að brotlenda þeim flugvélum sem hann flýgur]. Orr segðu honum það!“
Orr: „Hvað?“
Yossarian: „Er ég geðveikur?“
Orr: „Hann er geðveikur. Hann vill ekki fljúga með mér, þótt ég myndi hugsa vel um hann. Hann er svo sannarlega geðveikur.“
Yossarian: „Þarna er sönnun. Þeir segja það allir.“
Daneeka: „Þeir eru geðveikir.“
Yossarian: „Ef þeir eru geðveikir, hví seturðu þá ekki í flugbann?“
Daneeka: „Hvers vegna biðja þeir ekki um það?“
Yossarian: „Af því að þeir eru geðveikir.“
Daneeka: „Auðvitað eru þeir geðveikir. Ég sagði það. Maður lætur ekki geðveika menn ákveða hvort þeir séu geðveikir.“
Yossarian: „Er Orr geðveikur?“
Daneeka: „Auðvitað. Hann hlýtur að vera geðveikur úr því að hann heldur áfram að fljúga, þrátt fyrir allt sem hann hefur lent í.“
Yossarian: „Hvers vegna seturðu hann þá ekki í flugbann?“
Daneeka: „Ég myndi gera það en fyrst verður hann að biðja um það.“
Yossarian: „Er það allt sem þarf að gera til að vera settur í flugbann?“
Daneeka: „Ekkert annað.“
Yossarian: „Og seturðu hann þá í flugbann?“
Daneeka: „Nei, þá get ég ekki sett hann í flugbann, því þá erum við komnir í hring.“
Yossarian: „Hring!?“
Daneeka: „Já, vítahring. Hver sem vill hætta árásunum getur ekki verið geðveikur. Þess vegna get ég ekki sett hann í flugbann.“
Yossarian: „Bíddu nú við. Til að vera sendur heim verð ég að vera geðveikur og ég hlýt að vera geðveikur ef ég held áfram að fljúga. En ef ég bið um að vera settur í flugbann get ég ekki verið geðveikur lengur og verð því að halda áfram að fljúga.“
Daneeka: „Hárrétt hjá þér. Vítahringur.“

Myndin gengur út á að sýna fram á firru stríðs. Það er sama hvað við gerum, við getum aldrei klárað stríð í eitt skipti fyrir öll og erum því föst í vítahring. Eina leiðin til að losna er að flýja, neita að berjast eða taka til fótanna. Maður gæti reyndar verið drepinn fyrir vikið en maður er dauðadæmdur hvort eð er.

Eftir að hafa leitað til læknisins reynir Yossarian að fá herprestinn til að tala máli sínu en herpresturinn lendir í vanda fyrir vikið og ónáð hjá Korn ofursta. Korn hefur frétt af málinu og spyr herprestinn hvort hann hafi nokkuð séð logandi runna (2M 3:2) eða heyrt raddir eða eitthvað svoleiðis. Hann áminnir síðan prestinn og segir honum að hann kæri sig ekki um neitt yfirnáttúrulegt rugl eða fyrirspurnir. Prestinum er síðan ekið til Cathcart ofursta sem hefur lesið í blöðunum um prestinn sem samdi veðurbænina fyrir Patton. Cathcart heimtar að presturinn semja bænir fyrir sig svo hann komist einnig í blöðin.

Það verður að skoða notkunina á 23. sálmi í myndinni í ljósi þessa súrrealíska háðs. Sálmurinn er lesinn við útför Snowderns, skyttu sem lést í fangi Yossarian, í sinni fyrstu ferð. Dauði Snowderns er gegnumgangandi stef í myndinni, en enginn þekkti hann, enginn hafði talað við hann og hann hafði ekki gert neitt gagn þegar hann lést. Við jarðarförina eru presturinn, Danby majór og Major majór. Þegar presturinn spyr hvort einhver vilji segja eitthvað afþakka majórarnir báðir, þar sem þeir þekktu manninn ekki og eru ekki einu sinni vissir um hvað hann hét. Presturinn segist þá bara ætla að lesa eitthvað en verður á sömu stundu litið upp í tré þar sem Yossarian situr nakinn.

Major majór: „Er eitthvað að?“
Presturinn: „Nei. Mér sýndist ég bara sjá eitthvað.“
Major majór: „Nakinn mann upp í tré?“
Presturinn: [Greinilega létt.] „Já, einmitt!“
Danby majór: [Lítur í kíkir sinn.] „Þetta er bara Yossarian.“
Presturinn: „Nú, jæja þá. Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta. Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vötnum, þar sem ég mun næðis njóta.“

Sálmurinn er að sjálfsögðu í hróplegri andstöðu við allt sem er að gerast í myndinni. Hermennirnir eru fastir í vítahring og álagið og geðveikin ætla engan endi að taka. Á meðan les presturinn um græna grundu og að njóta næðis. Yossarian áréttar þessa satíru með því að sitja nakinn uppi í tré á meðan sálmurinn er lesinn yfir hermanni sem enginn þekkti, áorkaði engu og lést fyrir ekki neitt. Fáránleikinn nær síðan hámarki er einn hermannanna klifrar upp í tré til Yossarian til að ræða við hann um nýtt nammi sem hann ætlar að selja, súkkulaðihúðaða bómull, en hann hafði selt allar fallhlífar sveitarinnar til að kaupa bómullina.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían, 2M 3:2, Sl 23
Persónur úr trúarritum: dýrlingur
Guðfræðistef: yfirnáttúruleg fyrirbrigði, kraftaverk
Siðfræðistef: stríð, geðveiki, lauslæti, vændi, siðgæði, tækifærismennska, manndráp, morð, græðgi, nauðgun, svartamarkaðsbrask, föðurlandsást, hótun
Trúarbrögð: anabaptistar, rómversk-kaþólska kirkjan, guðleysi
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: klaustur
Trúarleg tákn: logandi runni, trúarlegur minjagripur, kristsmynd
Trúarleg embætti: herprestur, páfi
Trúarlegt atferli og siðir: ritningarlestur, bæn, herútför
Trúarleg reynsla: dulræn upplifun, heyra raddir