Kvikmyndir

Catlow

Leikstjórn: Sam Wanamaker
Handrit: Scott Finch og J.J. Griffith, byggt á sögu eftir Louis L’Amour
Leikarar: Yul Brynner, Richard Crenna, Daliah Lavi, Jo Ann Pflug, Leonard Nimoy, Jeff Corey, Michael Delano, Julián Mateos, Dan van Husen, David Ladd, Bessie Love, Bob Logan, John Clark og Cass Martin
Upprunaland: Bretland og Spánn
Ár: 1971
Hlutföll: 1.33:1 (var 2.35:1)
Einkunn: 1

Ágrip af söguþræði:
Glaðlyndur bófi með leigumorðingja og vinveittan lögreglumann á hælunum reynir hvað hann best getur að forðast vandræði til að geta sótt ránsfeng sinn sem falinn er skammt frá landamærunum í Mexíkó.

Almennt um myndina:
Gamansamur spaghettí-vestri sem tekinn er á Spáni en gæti allt eins verið bandarískur. Eðalskallinn Yul Brynner leikur bófann Catlow með bros á vör og kemst upp með flest sem hann gerir. Richard Crenna er jafnframt óaðfinnanlegur í hlutverki lögreglumannsins, sem staðráðinn er í að koma bófanum á bak við lás og slá þrátt fyrir að kauði hafi nokkrum sinnum bjargað lífi hans. Daliah Lavi er hins vegar illþolanleg sem skapvond og svikul vinkona Catlows, en sú leikkona hefur oft gert betur, t.d. í ítölsku hrollvekjunni The Whip and the Body (Mario Bava: 1963) og James Bond myndinni Casino Royale (John Huston, Ken Hughes, Val Guest, Robert Parrish og Joe McGrath: 1967).

Indíánar fá sérstaklega slæma útreið í myndinni, en þeir eru þar allir stórhættulegir villimenn, sem drepa hvern þann bleikskinna, sem þeir komast í tæri við. Catlow bjargar þó lögreglumanninum helsárum frá hópi indíána í upphafi myndarinnar, en síðar neyðast þeir til að snúa bökum saman gegn árásum villimannanna í óbyggðum villta vestursins. Í raun er persónusköpunin og sögufléttan öll ósköp gamaldags og er hlutskipti indíánanna sérstaklega sorglegt.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Nokkrum sinnum er minnst á Guð, gjafir hans og nafn, en allt er það ósköp almennt og hefur í raun enga þýðingu fyrir myndina. T.d. slær ríkur Mexíkani fagurri frænku sinni margvíslega gullhamra fyrir lögreglumanninum, sem bjargað hafði lífi hans frá morðóðum indíánum, og segir hana meira að segja skarpa, en því svarar stúlkan, að Guð hafi nú líka gefið konum heilabú.

Guðfræðistef: fyrirgefning, nafn Guðs, gjöf Guðs
Siðfræðistef: manndráp, þjófnaður, kynþáttahatur, skyldurækni
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: bænabók
Trúarlegt atferli og siðir: kirkjuklukknahringing