Kvikmyndir

Center of the World

Center of the World

Leikstjórn: Wayne Wang
Handrit: Ellen Benjamin og Wayne Wong, eftir hugmynd Wayne Wang, Miranda July, Paul Auster og Siri Hustvedt
Leikarar: Peter Sarsgaard, Molly Parker, Mel Gorham, Jason McCabe og Carla Gugino
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 2001
Lengd: 86mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Title?0240402
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Richard Longman er ungur tölvu-„nörd“ sem hefur komist í miklar álnir. Svo miklar að hann veit varla aura sinna tal. Florence er ung nektardansmær sem reynir að framfleyta sér uns hún „meikar það“ sem trommari í hljómsveit. Richard ræður hana til að koma með sér til Las Vegas og veita sér félagsskap (og blíðu) í langþráðu fríi frá vinnunni. Von hans er sú að þannig takist honum að kaupa sér ást hennar.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Center of the World er hispurslaus úttekt á klámiðnaðinum og kynlífsdýrkun samtímans. Nafn myndarinnar vísar einmitt til kynfæra kvenna en Florence segir þau vera helgan blett, miðju alheimsins (center of the world). Í myndinni er varpað fram nokkrum athyglisverðum siðferðilegum álitamálum.

Stóra spurningin hefur að gera með kærleikann og samskipti yfirleitt. Richard hefur misst tökin á veruleikanum og lifir í einhvers konar sýndarveruleika. Samskipti hans og viðhorf til kvenna eru til að mynda fyrst og fremst í gegnum klám á internetinu og heimsóknir á nektarbúllur. Þetta leiðir til mjög brenglaðra hugmynda um samskipti kynjanna og þá kvenímyndar sérstaklega.

Richard borgar Florence fyrir að koma með sér í frí til Las Vegas. Í fyrstu ná þau ágætlega saman en Richard áttar sig ekki á því að samband sem er byggt á viðskiptum getur aldrei gengið. Ástin er ekki föl og hver sá sem reynir að versla með hana gengur af henni dauðri. Þegar Florence hafnar Richard og minnir hann á að samskipti þeirra hafi verið á viðskiptalegum forsendum missir hann stjórn á sér og nauðgar henni.

Stuttu síðar segir Florence við Richard „Viltu raunveruleika? Ég skal sýna þér raunveruleika …“ Síðan fróar hún sjálfri sér fyrir framan hann, en hann horfir ráðvilltur út í loftið. Þarna er Richard í rauninni kominn í hring í samskiptum sínum við hitt kynið – það er nefnilega enginn munur á samskiptum hans við Florence á þessari stundu og samskiptum hans við konurnar á internetinu: Óvirkur sem áhorfandi er hann firrtur frá sjálfum sér og veröldinni í kringum sig.

Í myndinni er einnig velt upp þeirri spurningu hvort einhver munur sé á nektardansi og vændi og er niðurstaðan sú að munurinn sé enginn. Að lokum má geta þess að rétt fyrir nauðgunina kemur vinkona Florence í heimsókn og stingur upp á því að þau njótist öll þrjú saman. Á meðan þessi umræða á sér stað stendur Richard upp við vegg og borðar epli. Það er freistandi að tengja þessa senu við söguna af Adam og Evu.

Persónur úr trúarritum: Pandóra
Siðfræðistef: klám, nauðgun, nektardans vændi
Trúarleg tákn: askja Pandóru, epli