Kvikmyndir

Central do Brasil (Central Station)

Leikstjórn: Walter Salles
Handrit: Marcos Bernstein og João Emanuel Carneiro eftir hugmynd Walters Salles.
Leikarar: Fernanda Montenegro, Marília Pêra, Vinícius de Oliveira, Soia Lira, Othon Bastos, Otávio Augusto, Stela Freitas, Matheus Nachtergaele, Caio Junqueira.
Upprunaland: Brasilía, Frakkland
Ár: 1998
Lengd: 113mín.
Hlutföll: 2.35:1
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Myndin segir frá Dóru, fyrrum kennara, sem drýgir ellilífeyrinn með því að skrifa bréf fyrir fólk sem á leið um aðaljárnbrautarstöðina í Rio de Janeiro. Meðal viðskiptavina hennar er ung kona, Anna, með son sinn Jósef (Josué), sem biður hana að skrifa bréf fyrir sig til föður drengsins sem heitir Jesús. Svo virðist sem Anna hafi lítinn áhuga á Jesú og hann hafi komið illa fram við hana en að drenginn langi að hitta föður sinn.

Í lok hvers dags á járnbrautarstöðinni safnar Dóra bréfunum, sem hún hefur skrifað, saman og fer yfir þau, ásamt vinkonu sinni Irene. Í sameiningu ákveða þær hvaða bréf skulu fara í póst, hverjum hent og hver geymd til frekari skoðunar síðar. Bréf Önnu lendir í síðasta flokknum og Dóra stingur því ofan í skúffu.

Daginn eftir kemur Anna á ný að borði Dóru og biður hana um að skrifa nýtt og mun jákvæðara bréf til Jesú þar sem hún gefur í skyn að hún vilji gjarnan hitta hann aftur. Þegar þau Jósef yfirgefa járnbrautarstöðina verður Anna hins vegar fyrir bíl og deyr og Jósef því orðinn móðurlaus og aleinn í Rio de Janeiro.

Eftir að Dóra hefur tekið eftir því að drengurinn heldur til á járnbrautarstöðinni býðst hún til að skjóta yfir hann skjólshúsi og gefa honum að borða. Hún fer síðan með hann á ættleiðingarskrifstofu undir því yfirskini að það sé honum fyrir bestu því von sé um að honum verði komið fyrir hjá auðugri fjölskyldu. Fyrir vikið fær hún nokkra peningaupphæð sem hún notar m.a. til að kaupa sér sjónvarpstæki.

Vinkonan Irene bendir Dóru á að ættleiðingarskrifstofan sigli undir fölsku flaggi og fáist við að útvega líffæri í fólk sem þarf á slíku að halda. Því verði Jósef einfaldlega drepinn og líffærin úr honum seld. Dóra sér þá eftir öllu og fer og rænir Jósef af stofnuninni og þar sem hún getur ekki snúið heim af ótta við fólkið frá „ættleiðingarskrifstofunni“ kaupir hún tvo miða með rútu til bæjarins Bom Jesus da Norte. Anna móðir Jósefs hafði látið Dóru fá heimilisfang þar í bæ til að senda bréfið til Jesú, föður Jósefs. Þau leggja síðan af stað þangað í leit að föður Jósefs.

Almennt um myndina:
Kvikmyndin Central do Brasil hefur vakið töluverða athygli. Hún var meðal annars tilnefnd til tvennra Óskarsverðlauna árið 1999, annars vegnar sem besta erlenda myndin og hins vegar var Fernanda Montenegro, sem leikur Dóru, tilnefnd sem besta leikkonan í aðalhlutverki. Myndin hlaut Golden Globe verðlaunin 1999 sem besta erlenda myndin og Fernanda Montenegro var tilnefnd til þeirra verðlauna sem besta leikkonan.

Þá fékk Walter Salles Gullbjörninn fyrir myndina á kvikmyndahátíðinni í Berlín árið 1998 og Fernanda Montenegro hlaut Silfurbjörninn sem besta leikkonan. Eru þá aðeins nefnd nokkur dæmi um þær tilnefningar og viðurkenningar sem myndin hefur hlotið.

Styrkur myndarinnar felst í því að hún segir einfalda sögu sem í er fólgin dýpri merking. Jafnframt gefur hún innsýn í líf og aðstæður fólks í Brasilíu. Margir leikarar í myndinni eru fólk sem var á þeim slóðum sem myndin var tekin og er í raun að leika sig sjálft og leikmyndin er í mörgum tilfellum ekki búin til sérstaklega fyrir myndina heldur er um raunverulegar aðstæður og híbýli að ræða sem var lítið eða ekkert breytt.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Central do Bresil fjallar á vissan hátt um þrjár höfuðdygðir kristninnar, þ.e. trú, von og kærleika, og hvernig tveir einstaklingar geta tengst þannig að harður veruleikinn umskapist. Í upphafi myndarinnar skortir allar þessar dygðir og það sem einkennir líf aðalpersónanna er vonleysi, sjálfselska og skortur á trú á lífið.

Aðaljárnbrautarstöðin í Rio de Janeiro er sögusviðið. Fátækt, einsemd og vonleysi blasir hvarvetna við og mannmergðin endurspeglar hvernig einstaklingarnir hafa glatað sjálfsmynd sinni og tengslum við annað fólk, bæði ættingja og vini. Bréfaskrifarinn gegnir hér mikilvægu hlutverki í viðleitni fólks til að viðhalda eða koma á tengslum við ættingja sína og vini og það setur traust sitt á hann. Dóra er þó ekki meðvitaðri en svo um hlutverk sitt að hún hugsar um það eitt að drýgja tekjurnar á bréfaskriftunum. Siðferðisvitund hennar er blinduð af eigingirni og hún bæði hnýsist í bréf annarra og hirðir lítið um að setja þau í póst þótt hún hafi tekið það að sér. Það er helst að vinkoma hennar, Irene, veiti henni svolítið siðferðislegt aðhald.

Jósef býr við heldur dapran kost með móður sinni í Rio de Janeiro og þegar hún deyr er hann einn og yfirgefinn í mannmergðinni og eina von hans er sú að Dóra skrifi bréf til föður hans. Dóra sér sér hins vegar hag í því að koma honum í hendur á ættleiðingarskrifstofu því þannig fær hún peninga, m.a. til að kaupa sér sjónvarp. Atburðarásin hagar því hins vegar þannig til að þau tengjast sérstökum böndum.

Eftir að Dóra hefur rænt Jósef af ættleiðingarskrifstofunni hefst eins konar pílagrímsferð þeirra saman í leit að Jesú, föður Jósefs. Sú ferð breytir þeim báðum og skapar trú, von og kærleika í lífi þeirra. Dóra opnar sig smám saman og fer að tala við Jósef um sjálfa sig, móður sína og föður. Hún getur þannig hægt og bítandi horfst í augu við sárar minningar og sæst við þær. Jósef byrjar aftur á móti smátt og smátt og treysta Dóru og skilur að hann er betur kominn í fylgd hennar en einn á báti. Jafnframt uppgötvar hann styrk sinn.

Eftir því sem á ferðina líður verður hið trúarlega æ meir áberandi í umhverfinu. Fyrst hitta þau vakningapredikarann á vörubílnum, sem hefur sem yfirskrift á bílnum sínum að mæta örlögum sínum í fylgd Guðs, og síðan slást þau í för með pílagrímum á leið til hátíðar sem tileinkuð er Maríu mey. Segja má að ferð þeirra verði eins konar hliðstæða við ferð pílagrímanna. Eftirvæntingin vex og nær á vissan hátt hámarki í húsinu sem þau töldu að Jesús byggi í og í ljós kemur að húsbóndinn á heimilinu heitir einmitt Jesús. Leikstjóri myndarinnar notar vindinn á skemmtilegan hátt til að tjá eftirvæntinguna eða vonina í þessu sambandi (e.t.v. undir áhrifum frá Jh 3:8). En vonbrigðin verða líka þeim mun meiri þegar í ljós kemur að um allt annan Jesú er að ræða.

Pílagrímahátíðin í Bom Jesus da Norte tekur við. Atriðið í myndinni sem sýnir biðjandi pílagrímana er tekin með hjálp 800 raunverulegra pílagríma. Í skýringum við myndina segir leikstjórinn Walter Salles frá því að María mey kertaljóssins (sem hátíðin er tileinkuð) flytji ljósgeisla inn í myrkur vonleysis og örvæntingar. Um sé að ræða eins konar myndlíkingu um það sem er að gerast í lífi aðalpersóna myndarinnar. Þau eru í myrkri vonleysis og örvæntingar en nú fer að rofa til – vonin að vakna á ný. Á nokkrum stöðum í myndinni bregður fyrir íkonum og myndum af Maríu með Jesúbarnið og eru þær tákn ljóss eða vonar.

Í áhrifaríku atriði hleypur Dóra á eftir Jósef í gengum pílagrímamergðina og inn í svonefnt hús kraftaverkanna. Slík hús eru þekkt í Norður-Brasilíu en í þau kemur fólk með myndir af ættingjum eða vinum og biður Guð um að veita þeim lækningu, huggun og von. Inni í húsinu fer allt að snúast fyrir augunum á Dóru og hún loks líður yfir hana. Atriðið í framhaldinu er athyglisvert því þar sjáum við Jósef með Dóru í fanginu. Leikstjórinn lýsir þessu atriði sem eins konar umsnúinni „pieta“ (þ.e. mynd af Maríu mey með líkama Jesú í fanginu eftir að hann var tekinn niður af krossinum). Jósef verður nánast eins og faðir fyrir Dóru og sýnir það aukinn styrk hans til að takast á við aðstæðurnar, en jafnframt hvað þau eru orðin háð hvort öðru. Leikstjórinn talar einnig um Jósef sem eins konar ummyndaðan engil sem gefur Dóru von. Í framhaldinu hefur Jósef frumkvæðið að því að Dóra aflar þeim peninga með því að skrifa bréf fyrir pílagríma Bom Jesus da Norte.

Þegar hér er komið sögu hefur einnig orðið breyting á Dóru. Siðferðisvitund hennar er endurvakin og hún vill nú ekki henda bréfunum í ruslið þegar Jósef leggur það til og ákveður að setja þau í póst. Hún opnar sig einnig meira fyrir Jósef og tjáir sig nánar um samband sitt við föður sinn sem sýnir hvernig hún er smám saman að sættast við sjálfa sig.

Þau halda síðan af stað út fyrir bæinn í nýja byggð þar sem Jesús átti að hafa sest að. Þar er þeim hins vegar tjáð að Jesús hafi farið burt út í óbyggðina og horfið þar en synir hans tveir, Móse og Jesaja, búa á þessum slóðum og reka trésmíðaverkstæði föður síns. Tengslin milli Jósefs og bræðranna verða ljós á trésmíðaverkstæðinu þegar Móse kennir honum að smíða skopparakringlu eins og þá sem hann hafði misst á leiðinni yfir götu í Rio de Janeiro og varð þess valdandi að móðir hans varð fyrir bíl. Bræðurnir biðja Dóru að lesa fyrir sig bréf frá Jesú til Önnu. Í því kemur fram að Jesús þrái að hitta hana á ný og biður hana að fyrirgefa sér og bíða sín ef hún sjái bréfið áður en hann kemur aftur. Í því birtist önnur mynd af Jesú en áður í myndinni því flestir virtust hafa misjafnar hugmyndir um hann.

Í lok myndarinnar snýr Dóra til baka til Rio de Janeiro en Jósef verður eftir hjá bræðrum sínum. Hann hefur fundið fjölskylduna sína þótt hann hafi ekki fundið föður sinn og Dóra hefur fundið sjálfa sig og öðlast nýjan kærleika og von og trú á lífið. Hún yfirgefur heimili bræðranna með tár í augum en um leið bros á vör. Atriðið þegar hún fer úr húsi þeirra um nóttina er athyglisvert. Hún gengur annars vegar fram hjá mynd af Maríu og Jesúbarninu sem er eins konar tákn um nýja birtu og von inn í líf hennar og síðan að mynd af foreldrum Jósefs, þar sem hún setur bréfið sem hún skrifaði frá Önnu til Jesú við hlið bréfsins frá Jesú til hennar. Þannig sameinast þau á ný á táknrænan hátt. Þegar hún er síðan komin um borð í rútuna skrifar hún bréf til Jósefs. Þar minnist hún jákvæðra stunda með föður sínum sem áréttar að hún hefur tekið minningar sínar og sjálfa sig í sátt. Jafnframt leggur hún áherslu á það við Jósef að hann eigi heima með bræðrum sínum og að Jesús muni koma aftur til þeirra. Þannig leggur hún áherslu á von hans um að fá að hitta föður sinn. Þau tvö eigi hins vegar minninguna um hvort annað í huga sér og hún er staðfest á mynd sem þau létu taka af sér fyrir framan mynd af dýrling og þau geta skoðað hvenær sem er.

Myndinni lýkur þannig með því að árétta mikilvægi þess að öðlast sátt við sjálfan sig og rætur sínar og á þeim umskiptum sem pílagrímsför Dóru og Jósefs leiddi af sér: Vonin er komin í stað vonleysis, kærleikur í stað sjálfselsku og trú á lífið og framtíðina í stað trúleysis.

Aðstandendur myndarinnar Central do Brasil benda á í skýringum við hana að hún fjalli um leitina að eigin rótum og innri sátt, sinni eigin „Central station“. Hvarvetna leitar fólk eigin róta, það berst við að viðhalda sambandi við þá sem þeim eru nánastir og kærir og það þráir sátt við sjálft sig og minningar sínar. Því má segja að allir geti á vissan hátt fundið sig í myndinni. Hún er í raun mynd um pílagrímsferð í leit að eigin sjálfsmynd og innri sátt.

Einnig hefur verið bent á að Central do Brasil sé nokkurs konar líking eða allegóría um Guðs börn, yfirgefin í framandi landi, sem bíða eftir að frelsarinn komi aftur (Bowman, D. 2001. Faith and the Absent Savior in Central Station, The Journal of Religion and Film, Vol. 5, No. 1. http://www.unomaha.edu/). Því má skoða myndina út frá guðfræðilegum sjónarhóli sem dæmisögu um mannlega baráttu fyrir því að viðhalda sambandi við fjarlægan Guð eða sem eins konar allegóríu um leitina að Jesú. Ennfremur má skoða hana í ljósi boðskapar Nýja testamentisins um endurkomu Krists á efsta degi.

Jesús er ein af persónum myndarinnar en hann er fjarverandi eða ósýnilegur og aðrar persónur myndarinnar reyna að mynda sér skoðun á honum. E.t.v. má líta svo á að myndin sé eins konar líking um stöðu nútímafólks andspænis Jesú Kristi eða kristinn trú. Margt fólk á erfitt með að skilja boðskap kristninnar eða vantar staðfestingu á sannleiksgildi hennar. Setningin „Jesus doesn´t live here any more“ getur verið táknræn í því sambandi. Fólk myndar sér alls konar skoðanir á Jesú Kristi eða það leitar svara við spurningum sínum um hann. Það skortir hins vegar samband við hann og er því ekki í tengslum við endanlegt upphaf sitt, sem er Guð (sbr. Ágústínus kirkjuföður: „Hjarta vort er órótt uns það hvílist í þér“).

Þegar myndin er skoðuð vekur það strax athygli hvernig biblíunöfn eru notuð markvisst í henni. Hér er þó ýmsu snúið við. Jesús er faðirinn og sonur hans heitir Jósef. Eldri synir Jesú fá nöfn úr Gamla testamentinu og heita Móse og Jesaja. Það er varla tilviljun að þau nöfn skuli valin því þeir Móse og Jesaja sögðu fyrir um eða voru eins konar fyrirmynd að komu Krists, Móse sem meðalgangari gamla sáttmálans (sbr. Heb 8) og Deuteró-Jesaja með boðskapinn um komu Drottins (Jes 40.1-11) og ljóðin um hinn líðandi þjón Drottins (sbr. Jes 42.1-4; 49.1-6; 50.4-9; 52.13-53.12). Einnig má velta fyrir sér hvort Jósef í myndinni vísi til sögunnar um Jósef í 1. Mósebók sem var seldur af bræðrum sínum og fluttur sem þræll til framandi lands. Í myndinni er Jósef fjarri fjölskyldu sinni í framandi borg og hann er „seldur“ í hendur fólks sem ætlar síðan að selja úr honum líffærin. Hann bjargast þó og finnur síðan fjölskyldu sína.

Það er líka athyglisvert að Jesús í myndinni er smiður og þeir bræður reka trésmíðaverkstæði föður síns, en líklegt er að Jesús Kristur hafi lært trésmíðar af föður sínum (sbr. Mk 6.3). Þá er Jesús horfinn út í óbyggðina, líkt og Jesús gerði samkvæmt frásögn guðspjallanna (Mt 4. 1-11). Þessar hliðstæður og þessi notkun á biblíunöfnum er ágæt rök fyrir því að líta megi á myndina sem eins konar líkingu eða allegóríu. Ekki þó á þann hátt að um sé að ræða allegóríu um frásögn guðspjallanna af Jesú Kristi heldur er fremur á ferðinni líking um leit fólks að Jesú og fjarveru hans í lífi þess og ennfremur þá þýðingu sem hann getur haft fyrir líf þess.

Á einum stað í myndinni, þ.e. þegar Dóra og Jósef bíða eftir að komast um borð í rútu frá Bom Jesus da Norte til nýju byggingasvæðanna þar sem Jesús átti að búa, bregður fyrir áletrun á stólpa. Um er að ræða tvær biblíutilvísanir. Annars vegar í Jesaja 44.9 og hins vegar Sálm 115.1-8. Í báðum tilfellum er að ræða ritningarvers sem tala gegn smíði og tilbeiðslu líkneskja og skurðgoða. Þetta er athyglisvert því þarna eru þau að yfirgefa Bom Jesus da Norte þar sem öll dýrlingadýrkunin og sölumennskan í kringum hana á sér stað og því rök fyrir því að þarna sé á ferð óbein gagnrýni á slíkt.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Jesaja 44.9, Sálm 115.1-8
Hliðstæður við texta trúarrits: Mk 6.3, Mt 4:1-11
Persónur úr trúarritum: Guð, heilagur andi, Jesús Kristur, María mey, Satan
Guðfræðistef: blóð Krists, bölvun, dýrlingadýrkun, fyrirgefning, synd, trú, von
Siðfræðistef: eigingirni, kærleikur, lygi, morð, svik, þjófnaður
Trúarbrögð: kristni, rómversk-kaþólska kirkjan
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: hreinsunareldur
Trúarleg tákn: helgimynd, íkon, Kristslíkneski, kross, Maríulíkneski, talnaband
Trúarleg embætti: nunna, pílagrími, predikari
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, pílagrímaferð, sálmasöngur, signing