Kvikmyndir

Charlie’s Angels

Leikstjórn: Joseph McGinty Nichol
Handrit: Ivan Goff (Sjónvarpsþættir), Ben Roberts (III)
Leikarar: Cameron Diaz, Drew Barrymore, Lucy Liu, Bill Murray, Sam Rockwell, Kelly Lynch, Tim Curry, Crispin Glover, John Forsythe og Matt LeBlanc
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 2000
Lengd: 98mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Title?0160127
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Þrjár ungar konur eru hluti af yfirburða sveit sem berst gegn glæpum. Yfirmaður þeirra heitir Charlie, en þær hafa aldrei séð hann. Í myndinni eru þær ráðnar af eigendum hugbúnaðarfyrirtækis til að leita að stolnum hugbúnaði. En ekki er allt sem sýnist.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Þetta er ein af þeim myndum sem maður býst ekki við að finna mikið af trúarstefjum í. Það var ekki fyrr en undir lokin að í ljós kom skemmtileg líking eða hliðstæða sem má ef til vill nota til að auðvelda skilning á ákveðnum þáttum í kristnum boðskap.Þessa líkingu má raunar ráða af titlinum og nafninu sem stúlknahópurinn gengur undir: Englar. Samkvæmt kristnum skilningi eru englar sendiboðar og fulltrúar Guðs, sem vinna ýmis verk í þágu hins góða. Segja má að eins og englar Charlie’s eru framsettir í myndinni séu þær e.k. hliðstæður við hefðbundna engla. En hlutskipti þeirra minnir ekki síður á hlutskipti hins kristna manns, sem er að vinna góð verk og jafnvel inna af hendi ákveðin verkefni fyrir Guð, þótt hann hafi aldrei séð þennan Guð og eigi aðeins samskipti við hann í gegnum milliliði af einhverju tagi (svo sem presta og bænir). Þær hafa aldrei séð Charlie og eiga samskipti við hann í gegnum yfirmann sinn Bosley og í gegnum síma. Meira að segja Bosley hefur aldrei séð Charlie, hann hefur aðeins séð hönd hans. Athyglisverð sena er í lok myndarinnar þegar stúlkurnar spyrja Charlie hvernig þær geti verið fullvissar um að hann sé til án þess að hafa hitt hann. Hann svarar um hæl (í síma): „Trú, englar, það kallst trú“.Ef maður vildi stíga skrefinu lengra með þessa líkingu þá mætti segja sem svo að Charlie væri eins og Guð, Bosley væri eins prestur eða trúarlegur leiðtogi og englarnir eins og kristið fólk. Andstæðingar þeirra í myndinni eru þá dæmi um andstæðinga Guðs.

Persónur úr trúarritum: Guð, engill
Guðfræðistef: barátta góðs og ills
Siðfræðistef: þjófnaður, lygar