Kvikmyndir

China Cry

Leikstjórn: James F. Collier
Handrit: James F. Collier, byggt á sannri sögu eftir Nora Lam og Irene Burke
Leikarar: Julia Nickson-Soul, France Nuyen, James Shigeta, Russell Wong, Philip Tan, Daphne Cheung, Lau Lee Foon, Lloyd Kino, Bruce Locke, Bennett Ohta og Elizabeth Sung
Upprunaland: Bandaríkin og Bretland
Ár: 1990
Lengd: 101mín.
Hlutföll: 1.33:1
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Myndin segir sögu ungrar kínverskrar konu Sung Neng Sji og þess mótlætis og þeirra þjáninga sem hún má þola af hendi hinna kommúnísku yfirvalda í Kína. Athyglisverð er notkun Sl 23 í myndinni því að þar tengist hann kraftaverki sem verður í lífi söguhetju myndarinnar.

Almennt um myndina:
Myndin, sem er að talsverðu leyti byggð á sannsögulegum atburðum, gerist einkum á árunum upp úr 1950 þótt einnig veiti hún innsýn í stríð Japana við Kínverja þar sem Japanir hertóku m.a. Shanghai, heimaborg Sung Neng Sji. „Stríðið rændi mig æskunni,“ hefur hún um þær minningar að segja, en hún var af auðugum foreldrum komin, bæði greind og gáfuð.

Í byrjun myndarinnar sjáum við er hermenn ráðast inn á heimili foreldra hennar, beita þar miklu harðræði og leiða fjölskylduna á brott. Sjálf lenti Sung Neng Sji smám saman í ónáð hjá kommúnistum eftir að hafa áður komist svo langt í endurhæfingu hjá þeim að hún var farin að kenna stjórnmálafræði. Faðir hennar hafði þá fallið í ónáð og mátti sæta niðurlægingu og var látinn vinna við skúringar á sjúkrahúsinu þar sem hann hafði áður verið einn af virtustu læknunum. Það varð til þess að dóttir hans spurði kommúnískan uppfræðara sinn í skólanum: „Hvað um þá sem dæmdir hafa verið saklausir?“ Svarið sem hún fékk var aðeins: „Maó formaður hefur margsagt okkur að byltingin er ekki matarveisla!“ Eftir þetta var þess skammt að bíða að hún fengi sjálf að kynnast dekkstu hliðum kommúnismans.

Myndin er 101 mín. að lengd og í þokkalegum gæðum á myndbandsspólunni frá Bergvík. Það sama verður hins vegar ekki sagt um DVD diskinn frá Top Ten New Media í Bandaríkjunum en þar eru myndgæðin frekar slök og óskýr auk þess sem myndin nær ekki lengra en á mín. 93 og sek. 4 þótt hún sé sögð 103 mín. að lengd. Þar vantar sem sagt enda myndarinnar, en diskurinn er að sjálfsögðu gallaður.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Einkum erum kúgarar Sung Neng Sji áfjáðir í að vita um kynni hennar af öldungakirkjunni á æskuárum. Þegar hún er síðar neydd til að skrifa endurminningar sínar, sérstaklega í ljósi kynna sinna af kristinni trú, segist hún hafa verið búin að gleyma Guði og hafa litið til „hins mikla Maó“ með alla kennslu og leiðbeiningu allt frá því hún var sextán ára. Henni hafði verið boðað af kommúnistum að trúarbrögð myndu alveg hverfa úr sögunni en í þeirra stað myndi renna upp „gullöld“ fyrir Kína sem myndi einkennast af stéttlausu þjóðfélagi.

Sung Neng Sji kemst í kynni við kristna neðanjarðarhreyfingu og þar kviknar hin kristna trú hennar á nýjan leik. „Fyrirgefðu mér hin þöglu ár,“ segir hún í bænarávarpi sínu til Guðs.

Þegar hún er við yfirheyrslu spurð út í sína kristnu trú svarar hún fyrst: „Kristur er fjarri mér en ég neita ekki tilvist hans.“ Í framhaldi af því er hún neydd til að svara aðeins með já eða nei spurningunni um hvort hún sé kristin og þá svarar hún játandi. Það verður hins vegar til þess að vandræði hennar versna til muna enda er hún leidd beina leið fyrir aftökusveit. Þegar bundið hefur verið fyrir augu hennar og aftökusveitin bíður aðeins merkis um að skjóta, fer Sung Neng Sji þá með hinar þekktu ljóðlínur úr Sl 23: „Þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt því að þú ert hjá mér.“ Skiptir þá engum togum að það skellur á mikið stormviðri og jafnframt kemur eins og elding af himni. Aftökusveitin missir marks og Sung Neng Sji heldur lífi. Sjálf túlkar hún atburðinn sem kraftaverk og átti frásögnin af þessu kraftaverki eftir að lifa meðal kristinna manna í Kína. Kommúnistar tala hins vegar aðeins um að „rafmagnstruflanir“ hefðu orðið og hæðst er að trú hennar á kraftaverk. „Hvers vegna skyldi guð kristinna manna gera kraftaverk fyrir þig sem trúir ekki á hann?“ spyr einn hermannanna hana í hæðnistón.

Exodusstefið er einnig til staðar í þessari mynd. Sung Neng Sji átti sér þann draum æðstan að komast frá Kína, frá þeirri kúgun og þrælkun sem hún og fjölskylda hennar hafði kynnst þar. „Ég hef fyrirheit frá Guði um að við munum öll komast frá Kína,“ segir hún. Fær hún því framgengt að maður hennar fær leyfi til að heimsækja deyjandi föður sinn í Hong Kong og biður hún hann að snúa ekki eftir. Fyrir það fær hún að gjalda með vinnu í þrælkunarbúðum við grjótnám, sem óneitanlega skapar hugrenningatengsl við frásögn 2. Mósebókar af þrælkun Hebrea í Egyptalandi. Og eins og Móse trúir Sung Neng Sji á að hún muni sleppa úr þrælahúsinu, segir sig hafa hlotið fyrirheit frá Guði um það og verður þrautsegja hennar til þess að hún sleppur um síðir yfir til Hong Kong þar sem fjölskyldan sameinast á nýjan leik árið 1958.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Sl 23: 4, Sl 27:1
Hliðstæður við texta trúarrits: 2M 1:11
Persónur úr trúarritum: Jesús Kristur, dýrlingar
Sögulegar persónur: Maó, Lenín
Guðfræðistef: boð frá Guði, exodus (björgun úr ánauð), frelsi, fyrirgefning, fyrirheit Guðs, Guðstrú, játning, kraftaverk, að gleyma Guði, sáning, synd, spurningin um tilvist Guðs, traust, trú, uppskera
Siðfræðistef: ást, bylting, endurhæfing (þvinguð), frillulíf, gagnnjósnir, glæpur, letilíferni, líkamsárás, lygi, morð, niðurlæging, ofbeldi, ranglæti, réttlæti, sakleysi, sjálfsagi, sjálfsgagnrýni, smygl, stríð, svik, sættir, útskúfun, virðing, vændi, þjófnaður, þrælkun
Trúarbrögð: Kristni (rómversk-kaþólsk), kommúnismi (trú á Maó), öldungakirkjan
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: Kirkja, grafreitur
Trúarleg tákn: Altari, Biblía, kertaljós í kirkju, kross í hálsmeni, líkneski af Maó, róðukross
Trúarleg embætti: Prestur
Trúarlegt atferli og siðir: Að skrifa krossmark, bæn, sálmasöngur, skírn, trúarsamkoma
Trúarlegar hátíðir, sögulegir atburðir: brúðkaup, guðsþjónusta, nýárshátíð Kínverja
Trúarleg reynsla: bænheyrsla, að upplifa kraftaverk