Leikstjórn: Orson Welles
Handrit: Herman J. Mankiewicz, Orson Welles og John Houseman
Leikarar: Orson Welles, Joseph Cotten, Dorothy Comingore, Agnes Moorehead, Ruth Warrick, Ray Collins
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1941
Lengd: 119mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Title?0033467
Einkunn: 4
Ágrip af söguþræði:
Citizen Kane er sú kvikmynd sem oftast birtist á listum yfir bestu myndir allra tíma og er þá jafnan í fyrsta sæti. Þótt ég sé mjög hrifinn af myndinni og gefi henni fullt hús stiga þá er Citizen Kane ekki sú besta sem ég hef séð. Þar tróna myndir eins og Blade Runner og La Passion de Jeanne d’Arc.Eins og flestir vita fjallar Citizen Kane um rannsókn fréttamanns á andlátsorðum auðkýfingsins Charles Foster Kane, „Rosebud“. Áhorfandinn kynnist síðan stórbrotinni persónu Kanes og átakamiklu lífi hans í gegnum rannsókn fréttamannsins.Myndin er byggð á ævi blaðakóngsins Williams Hearts, en málaferli og deilur vegna myndarinnar urðu til þess að hún fékkst varla sýnd í Bandaríkjunum á sínum tíma. Nú hefur myndin verið gefin út á DVD en með henni fylgir hin frábæra heimildamynd The Battle Over Citizen Kane sem greinir frá átökum þeirra Welles og Hearts og ævi þeirra.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Það er ekki margt um trúarstef í Citizen Kane. Sagt er að aðeins Nóa hafi átt stærri dýragarð en Kane og goðsögulegir staðir eins og El Dorado og Shangri la koma fyrir. Þá er höll Kanes líkt við Pýramída sem reistir voru fyrir Faraó.Nafn myndarinnar er þó alláhugavert, en það vísar sennilega til Kains, bróður Abels, en þeir voru synir Adams og Evu. Reyndar er nafnið ekki skrifað eins, en uppruninn er engu að síður sá hinn sami. Nægir að fletta upp í hvaða orðabók sem er til að ganga úr skugga um það.Samkvæmt Biblíunni drap Kain Abel bróður sinn og rak Drottinn hann burt fyrir vikið. Það fyrsta sem Kain gerði eftir það var að reisa borg en með því varð hann upphafsmaður borgarsamfélagsins. Citizen þýðir ekki aðeins ríkisborgari á ensku heldur einnig borgari (þ.e. borgarbúi) og því má vel sjá hliðstæðu við nafn myndarinnar. Þar sem markmið Orsons Welles var að ráðast á Hearts er ekki ólíklegt að nafngiftin hafi einnig verið velvalin sneið.Í rauninni eru fleiri hliðstæður við söguna af Kain. Báðir eru þeir sendir í burtu frá foreldrum sínum og enda í borgarsamfélaginu. Þegar Kain var rekinn í burtu vegna bróðurmorðsins var sett merki á enni hans. Kane er einnig merktur eftir að hann er sendur frá foreldrum sínum, ekki þó á enninu heldur á sálinni.Enda þótt Kane hafi fengið öll auðæfi heimsins þráði hann aðeins bernsku sína hjá fátækum foreldrum sínum. Þar lá einmitt vandi hans. Hann gat aldrei sætt sig við þessa höfnun og þráði alla sína ævi að aðrir elskuðu sig. Það getur nefnilega ekkert komið í veg fyrir foreldrakærleika, ekki einu sinni öll auðæfi heimsins. Höll Kanes endurspeglar það vel, því að þótt hún væri með stærstu byggingum heims þá var hún samt innantóm, rétt eins og allt hans líf .Þriðja hliðstæðan við bróðurmorðingjann Kain er siðferðisleg hnignun Kanes. Hann byrjar starf sitt sem hugsjónamaður en endar sem siðspilltur kúgari, sem er tilbúinn að brjóta hvaða siðalögmál sem er til að ná sínu fram. Þótt hann myrði engan í myndinni þá er hann tilbúinn að leggja líf annarra í rúst, ljúga og jafnvel hleypa af stað stríði til þess eins að fá góða frétt á forsíðu sína.
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 1M 6:9-9:17
Hliðstæður við texta trúarrits: 1M 4
Persónur úr trúarritum: faraó, Kain
Siðfræðistef: efnishyggja, framhjáhald, lygi
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: Pýramídi, El Dorado, Shingri la