Kvikmyndir

Cool Hand Luke

Leikstjórn: Stuart Rosenberg
Handrit: Donn Pearce (eftir eigin skáldsögu)
Leikarar: Paul Newman, George Kennedy, J. D. Cannon, Lou Antonio, Robert Drivas, Strother Martin, Jo Van Fleet, Clifton James, Morgan Woodward, Luke Askew, Marc Cavell, Richars Davalos, Robert Donner, Waren Finnerty og Dennis Hopper
Upprunaland: Paul Newman, George Kennedy, J. D. Cannon, Lou Antonio, Robert Drivas, Strother Martin, Jo Van Fleet, Clifton James, Morgan Woodward, Luke Askew, Marc Cavell, Richars Davalos, Robert Donner, Waren Finnerty, Dennis Hopper
Ár: 1967
Lengd: 126mín.
Hlutföll: http://www.imdb.com/
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Lukas Jackson er handtekinn fyrir að hafa eyðilagt stöðumæla drukkinn og dæmdur í tveggja ára þrælkunarvinnu. Hann kemst upp á kant við Dragline, foringja í hópi fanganna, sem skorar hann á hólm í hnefaleikum. Eftir viðureignina tekst með þeim vinátta og Luke hlýtur smám saman virðingu samfanga sinna. Fangaverðirnir líta hins vegar á hann sem varasaman. Þegar móðir hans deyr strýkur hann úr fangelsinu en næst á ný. Hann strýkur aftur og allt fer á sömuleið. Loks strýkur hann í þriðja sinn og sú spurning vaknar hvor fangavörðunum takist að brjóta hann á bak aftur.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Kvikmyndin Cool Hand Luke hefur af ýmsum verið túlkuð þannig að aðalpersónan, Luke, feli í sér skýra vísun til Jesú Krists eða að líta megi á hann sem kristsgerving. Hann kemur utan að inn í aðstæður þar sem menn eru ófrjálsir og kúgaðir og hefur loks slík áhrif að samfélag fanganna breytist og von vaknar í brjóstum sumra. Hann ögrar hins vegar fangelsisyfirvöldum og kemst upp á kant við þau en þau reyna með ýmsu móti að brjóta hann á bak aftur. Í myndinni hafa sumir séð vísun til hreinsunar musterisins þegar Luke fær fangana til að hraða sér við að malbera veg. Einnig má sjá vísun til píslarsögunnar og bænabaráttunnar í Getsemane í lokaatriði myndarinnar í kirkjunni. „Blindur“ fær jafnvel sýn þegar spegilsólgleraugu fangavarðarins, sem gekk undir heitinu „Man with no eyes“, brotna í lok myndarinnar. Krossfestingarstellingu bregður fyrir þegar Luke liggur á borði eftir að hafa borðað 50 egg. Þá er Luke þrjá daga í einangrunarklefa eftir að móðir hans deyr og má í því sjá vísun til þess að Jesús var grafinn en reis upp á þriðja degi. Eftir dauða Luke segir Dragline samföngum sínum frá því sem gerðist og viðheldur þannig minningunni um hann og þeim áhrifum sem hann hafði haft. Í því má sjá vísun til frumkirkjunnar. Athyglisvert er einnig að Luke er sá sem sækir og heldur á snák sem einn fangavarðanna hafði skotið (sbr. túlkun á 1M 3.15). Fleira mætti tína til. Af þessu er ljóst að færa má rök fyrir því að í persónu Luke sé um allnokkrar vísanir til Krists að ræða þótt deila megi um hvort rétt sé að tala um kristsgerving.

Nokkrir trúarsöngvar koma fyrir í myndinni og árétta þessa túlkun. Eftir að Luke hefur áunnið sér virðingu samfanganna syngur einn þeirra við gítarundirleik negrasálminn „Just a closer walk with thee“ – sem er bæn um nánari eftirfylgd við Jesú. Þegar Luke er í refsingarskyni látinn grafa gröf og moka ofan í hana aftur og aftur syngur sami fangi sálminn „Ain´t no grave gonna hold my body down“ sem vísar til upprisunnar frá dauðum.

Myndin Cool hand Luke er að mörgu leyti vel gerð. Gott handrit, sterk persónusköpun og góður leikur eru aðalsmerki hennar og áhugavert er að velta fyrir sér vísununum til Krists í henni, enda er það svo að þessi mynd hefur lengi verið talin eins konar frummynd eða fyrirmynd að kvikmyndum sem vísi að meira eða minna leyti til Krists.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 2M 20.15, 2M 20.17
Hliðstæður við texta trúarrits: 1 M 3.15, Mk 11.15-17, Mk 14.32-36, Mk 15.42-16.8, P 2.22-36
Persónur úr trúarritum: englar, Guð, Jesús, María mey
Guðfræðistef: ánauð, dauði, eftirfylgd, trú, upprisa, von
Siðfræðistef: girnast konu náungans, kúgun, ofbeldi, réttlæti, skemmdarverk, þjófnaður
Trúarbrögð: kristni
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: helvíti, kirkja, paradís
Trúarleg tákn: kross, slanga
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, sálmasöngur