Leikstjórn: Tim Robbins
Handrit: Tim Robbins
Leikarar: Hank Azaria, Rubén Blades, Joan Cusack, John Cusack, Cary Elwes, Philip Baker Hall, Cherry Jones, Angus MacFadyen, Bill Murray, Vanessa Redgrave, Susan Sarandon, Jamey Sheridan, John Turturro, Emily Watson og Bob Balaban
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1999
Lengd: 132mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0150216
Einkunn: 2
Ágrip af söguþræði:
Cradle Will Rock greinir frá lífi fjölda fólks, bæði sögulegra og skáldaðra, en meðal þeirra fyrrnefndu má nefna Marc Blitzstein, Orson Welles, Nelson Rockefeller og William Randolph Hearst.Myndin gerist í kreppunni miklu, þegar ríkisleikhúsið var sett á fót (Federal Theatre Project) og fjöldinn allur af listamönnum voru dregnir fyrir rétt og dæmdir fyrir að vera kommúnistar. Hinir ríku styðja fasistana á Ítalíu og nazistana í Þýzkalandi meðan hinir fátæku sveiflast til vinstri og allt logar í verkföllum og óeirðum.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Cradle Will Rock er ein af vonbrigðum kvikmyndahátíðarinnar. Ég hafði lengi beðið eftir að sjá þessa mynd en flestir hafa gefið henni góða dóma. Vandinn við Cradle Will Rock er að Tim Robbins færist allt of mikið í fang. Hann ætlar að segja svo margt og í stað þess að skapa áhugavert verk með sannfærandi persónum verður mynd hans yfirborðskennd flatneskja.Tim Robbins treystir áhorfendum ekki til að komast að réttri niðurstöðu og hamrar því stöðugt á boðskap myndarinnar. Það sést ekki sýst á persónusköpuninni, en allar góðu persónurnar eru vinstri sinnaðar á meðan vondu persónurnar eru hægri sinnaðar.Annar vandi myndarinnar er sá að í stað þess að fjalla um nokkrar persónur eða einn atburð reynir Tim Robbins að fjalla um fjöldan allan af persónum og fjölmörg atvik á sama tíma. Fyrir vikið verður myndin yfirborðskennd og jafnvel farsakennd á köflum. Staðreyndin er einfaldlega sú að Robbins er hvorki Robert Altman (Short Cuts) né Paul Tomas Anderson (Magnolia), hann skortir hæfileika til að segja margar litlar sögur sem mynda sannfarandi heild.Myndin er fyrst og fremst siðfræðilega áhugaverð en mörg álitamál koma þar við sögu. Þar ber þó líklega hæst spurningin um tjáningarfrelsið. Eiga að vera einhver höft á tjáningarfrelsi og ef svo er hver á þá að draga línuna og hvar? Þessi spurning er jafn áleitin og hún var á krepputímanum. Eiga t.d. kynþáttahatarar rétt á því að tjá sig í fjölmiðlum á Íslandi eða mætti stjórnmálamaður lýsa því yfir að hann styddi Bin Laden?
Persónur úr trúarritum: draugur, Guð, Jesús Kristur, Satan
Guðfræðistef: dauðasyndirnar sjö, frelsi, púritanismi
Siðfræðistef: kynþáttafordómar, lauslæti, mannát, morð, samkynhneigð, sifjaspell, stríð, tjáningarfrelsi, vændi, þjófnaður
Trúarbrögð: gyðingdómur, hjálpræðisherinn, kommúnismi, rómversk kaþólska kirkjan
Trúarleg tákn: kirkja
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, signing
Trúarleg reynsla: sýn