Kvikmyndir

Crime Boss

Leikstjórn: Alberto De Martino
Handrit: Lucio Battistrada og Alberto De Martino
Leikarar: Antonio Sabato, Telly Savalas, Paola Tedesco, Giuliano Persico, Guido Lollobrigida, Nino Dal Fabbro, Sergio Rossi, Sergio Tramonti, Piero Morgia og Carlo Gaddi
Upprunaland: Ítalía
Ár: 1972
Lengd: 98mín.
Hlutföll: 2.35:1
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:

Launmorðingi á vegum ítölsku mafíunnar á harma að hefna og kemur sér ásamt bróður sínum í mjúkinn hjá einni fjölskyldunni í Þýzkalandi til þess eins að sundra henni og þeim sem hann egnir henni gegn, en sem á líður taka völdin ekki síður að freista hans.

Almennt um myndina:

Þessi ítalska mafíumynd er alls ekki jafn slök eins og margar kvikmyndahandbækur halda fram en þar fær hún að jafnaði *½ af fjórum. Vissulega er framsögn margra leikaranna bæði ófhefluð og óþjál, a.m.k. í enskri talsetningu myndarinnar, en það er ekki laust við að það hæfi sögupersónunum einkar vel sem eru upp til hópa glæpamenn sem svífast einskis. Söguþráðurinn er tiltölulega fyrirsjáanlegur og atburðarrásin hæg en hún heldur samt áhorfandanum allan tímann við efnið og er það aðeins kostur að varið sé tíma í persónusköpun, sögufléttu og form, jafnvel þótt ýmislegt hefði mátt betur fara. Myndin er í heild fallega tekin með óvenjumiklum andlitsnærmyndum sem einkenna svo margar ítalskar kvikmyndir frá þessum tíma og nær hún að fanga tíðarandann óvenju vel, ekki síst tísku þess tíma og þýzku bifreiðirnar sem fjölmargar fá þar að njóta sín, svo sem Mercedes-Benz og Opel. Ekki er því laust við að myndin vekji vissa nostalgíu með þeim áhorfendum sem eru bílaáhugamenn. Djasstónlist ítalska kvikmyndatónskáldsins Francesco de Masi hæfir henni ennfremur vel og bætir hana jafnvel nokkuð.

Eftirminnilegastur er Telly Savalas í hlutverki mafíuforingjans í Þýzkalandi en myndin er gerð þremur árum eftir James Bond myndina On Her Majesty’s Secret Service (Peter Hunt: 1969) þar sem hann lék SPECTRE foringjann Ernst Stavro Blofeld og ári áður en hann tók að leika bandaríska lögregluforingjann Kojak í samnefndri sjónvarpsmyndaþáttaröð, en hann er hvað þekktastur fyrir það hlutverk. Óhætt er að segja að hlutverk bófaforingja hæfi skallahausnum Telly Savalas einkar vel með þann hörkusvip sem hann gat brugðið upp og þá djúpu og kraftmiklu rödd sem hann hafði, enda lék hann fjölmargar slíkar persónur á ferli sínum. Aðalleikarinn Antonio Sabato, sem aldrei þessu vant er príddur veglegu yfirvaraskeggi, er þó ekki eins þekktur og Savalas fyrir utan þann mikla fjölda ódýrra ítalskra harðhausamynda og spaghettí-vestra sem hann lék í á sjöunda, áttunda og níunda áratugnum.

Leikstjóri kvikmyndarinnar, Ítalinn Alberto De Martino, var afkastamikill kvikmyndagerðarmaður á sínum tíma sem sérhæfði sig í ódýrum b-myndum eins og sakamálamyndum og vestrum en hann gerði m.a. spaghettí-vestrann Django Shoots First (1966). Framan af voru þessar myndir margar um eða yfir meðallagi en þegar leið fram á níunda áratuginn sendi hann (eins og reyndar svo margir aðrir sambærilegir kvikmyndagerðarmenn í Ítalíu á þeim tíma) hverja ruslmyndina frá sér á fætur annarri, svo sem ævintýramyndirnar The Puma Man (1980), sem síðar varð ekki að ástæðulausu einn af skotspónum MST3K, og Miami Golem (1985) sem var jafnvel enn verri.

Kvikmyndin er fáanleg á DVD í Bandaríkjunum frá Passion Productions sem er eitt af fjölmörgum metnaðarlausum útgáfufyrirtækjum á borð við Brentwood og Direct Source Special Products sem gefa út mikið magn af svonefndum „Public Domain“ myndum í oftar en ekki ferlega slæmum myndgæðum. Með „Public Domain“ er vísað til þess að enginn rétthafi eigi lengur tilkall til myndanna og því geti hver sem er gefið þær út en sá málflutningur er afar umdeildur og benda ýmsir á að viðkomandi útgáfufyrirtæki komist upp með þessar útgáfur aðeins vegna þess raunverulegir rétthafar myndanna búi oftar en ekki fyrir utan Bandaríkin og hugsanlegur málarekstur geti reynst of kostnaðarsamur til þess að hann geti talist fyrirhafnarinnar virði. Hvort heldur sem er eru myndir þessara útgáfufyrirtækja fáanlegur hjá flestum netverslunum, svo sem hjá Amazon.com, auk þess sem finna má ýmsar þeirra í sumum íslenskum verslunum. Þessi tiltekni DVD diskurinn var keyptur í Kolaportinu í Reykjavík þar sem hann kostaði 200 kr. Þótt myndgæðunum sé áfátt eru þau mun betri en á flestum svona ódýrum diskum og reyndist myndin blessunarlega í réttu 2.35:1 breiðtjaldshlutföllunum sem telst algjör forsenda þess að hægt sé að njóta hennar til fulls enda allur myndramminn nýttur til hins ítrasta. Það versta við útgáfuna er hins vegar það að það vantar fyrstu mínúturnar á myndina og byrjar hún ekki fyrr en í miðju titillaginu eftir að titillinn og allar leikaraupplýsingarnar eru farnar! Jafnframt er sá hluti myndarinnar sem er á diskinum 98 mín. að lengd en ekki 93 mín. eins og segir á baksíðu kápunnar. Engu að síður er vel þess virði að kaupa þennan disk fyrir alla áhugamenn um ítalskar kvikmyndir enda er myndin ekki fáanleg öðru vísi á DVD.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:

Kvikmyndin bregður upp hefðbundinni mynd af breyskum mönnum á glapstigum þar sem illa fer fyrir öllum að lokum en það er sem fyrr rækilega áréttað í bláendann.

Helsta trúarlega vísunin í myndinni varðar tengsl mafíunnar við rómversk-kaþólsku kirkjuna, ekki vegna þess að kirkjan sé spillt heldur vegna þess að glæpamennirnir reyna að afla sér almennra virðingar með stuðningi sínum við málstað trúarinnar. Þegar tvær nunnur mæta á heimili mafíuforingjans til að afla stuðnings fyrir kristilega góðgerðastarfsemi, nánar til tekið fyrir byggingu nýs munaðarleysingjahælis, er þeim tekið opnum örmum af flestum viðstöddum sem meðtaka blessunarorð þeirra með auðmýkt. Aðalsöguhetjan, launmorðinginn sem komið hefur sér í mjúkinn hjá þýzku mafíufjölskyldunni, byrstir sig hins vegar við nunnurnar í einrúmi og segir þeim að ef þær vilji láta eitthvað raunverulega gott af sér leiða skuli þær beita hnefanum, ella séu þær aðeins eins og hverjir aðrir sauðir í hjörð fávita. Það breytir því hins vegar ekki að mafíuforinginn tekur beiðni nunnanna vel og heimsækir þær síðan þar sem þær eru að vinna með munaðarleysingjunum og er honum mikið fagnað af börnunum við komuna.

Hefndin er þó aðalstef myndarinnar og það sem öllu máli skiptir þegar upp er staðið en faðir launmorðingjans hafði verið drepinn af helstu mafíuforingjunum fyrir meinta sviksemi þegar hann var aðeins barn að aldri. Engu máli skiptir þótt honum taki síðar að þykja vænt um einhvern, ef viðkomandi tengdist morðinu á föðurnum á sínum tíma telst hann dauðasekur.

Hliðstæður við texta trúarrits: Jh 10
Guðfræðistef: kristileg góðgerðastarfsemi
Siðfræðistef: ofbeldi, manndráp, heiður, hefnd, launmorð, vændi, skipulagðir glæpir, mannrán, eiturlyfjasmygl, ást, svik, hræsni
Trúarbrögð: rómversk-kaþólska kirkjan
Trúarleg tákn: kross
Trúarleg embætti: nunna
Trúarlegt atferli og siðir: blessun, útför, signun