Kvikmyndir

Damien: Omen II

Leikstjórn: Don Taylor
Handrit: Stanley Mann og Mike Hodges eftir sögu Harvey Bernhard
Leikarar: William Holden, Lee Grant, Jonathan Scott-Taylor, Robert Foxworth, Nicholas Pryor, Lew Ayres
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1978
Lengd: 107mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0077394#writers
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Damien er mættur aftur en nú er hann að verða 13 ára gamall. Fjöldi manns kemst að því hver hann er en Satan ætlar ekki að láta neinn koma í veg fyrir að sonur hans vaxi úr grasi.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Það sorglega við þessa mynd er hversu ófrumleg hún er. Nánast sama plott og er í fyrstu myndinni er notað aftur í þessari nema hvað að alla sálfræðilega spennu vantar í myndina. Í stað þess að fylgjast með baráttu ringlaðra foreldra er áhorfendum skammtað morð á fimm mínútna fresti og ferlið er allt eins. Einhver kemst að því hver Damien er. Sá/sú hin(n) sami/sama reynir að gera eitthvað í málinu en er drepin(n) fyrir vikið. Persónurnar fara svo fljótt í hakkarann að maður nær ekki að kynnast þeim og því hefur maður litla samúð með fórnarlömbunum.

Í fyrstu myndinni eru svartir hundar í þjónustu Satans í þessari mynd eru það svartar krákur og í báðum myndunum reynir fósturfaðir Damiens að drepa hann. Báðar myndirnar ganga einnig út á leit fósturföður Damiens að réttum uppruna drengsins, og í þeim báðum er hann er jafnframt fullur efasemda til að byrja með.

Í fyrstu myndinni benti allt til þess að Damien vissi hver hann var. Brosið í lok myndarinnar gaf til kynna að Damien hafði fengið sínu framgengt. Í þessari mynd virðist Damien fávís um uppruna sinn, þegar hann kemst að því hleypur hann út í öngum sínum og spyr í undrun: „Hvers vegna ég?“. Þessi sena er áhugaverð því hún virðist gefa í skyn að Andkristur hafi ekkert val. Þótt hann hafi ekki vitað um uppruna sinn og sé ósáttur við hann ræður hann engu um örlög sín. Stuttu síðar virðist Damien alfarið vera búinn að gleyma þjáningum sínum og án umhugsunar byrjar hann að brytja niður andstæðinga sína.

Í myndinni er spilað á hjátrú en atburðarrásin gerist þegar Damien er að verða þrettán ára gamall. Talan þrettán er að sjálfsögðu óhappatala. Það má greina gagnrýni á herinn í myndinni en Damien fær verðlaun fyrir að sýna þær dyggðir sem herinn metur mest. Það getur varla talist til hróss að sonur Satans skuli endurspegla gildismat hersins í allri sinni “dýrð”.

Eins og í fyrri myndinni sækir þessi mynd fyrst og fremst í Opinberunarbókina og þá sérstaklega kafla 13 og 17, þ.e. um dýrið og skækjuna, en í myndinni kemur fram að Damien er dýrið sjálft. Drekinn er sagður vera hið nýja rómverska ríki en það kemur hvergi fram í myndinni hver skækjan er. Að lokum er það áhugavert að fornt málverk af Damien sýnir hann með slönguhár, rétt eins og Medúsu. Það er því ekki aðeins sótt í Biblíuna heldur einnig í gríska goðafræði, en þetta tvennt blandast hér saman.

Framhald umræðunnar á umræðutorginu

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Mt 6:9-13, Lk 11:2-4, Jh 6:37, 2Kor 11:13, 2Þ 2:8, Opinberunarbókin, Opb 12-13, Opb 17
Persónur úr trúarritum: Andkristur, Guð, Medúsa, Satan
Sögulegar persónur: Bugenhagen
Guðfræðistef: heimsslit, upprisa
Siðfræðistef: græðgi, hungursneyð, morð
Trúarbrögð: romversk kaþólska kirkjan
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: himnaríki
Trúarleg tákn: kráka, kross, þrettán