Kvikmyndir

Day of Anger

Leikstjórn: Tonino Valerii
Handrit: Ernesto Gastaldi
Leikarar: Lee Van Cleef, Giuliano Gemma, Walter Rilla, Christa Linder, Piero Lulli, Al Mulock, Yvonne Sanson, Lukas Ammann, Andrea Bosic, Ennio Balbo, José Calvo, Giorgio Gargiullo, Anna Orso, Karl-Otto Alberty og Nino Nini
Upprunaland: Ítalía og Þýzkaland
Ár: 1967
Lengd: 111mín.
Hlutföll: 2.35:1
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Bæjarbúarnir í Clifton í Arizona hafa alla tíð lagt kamarhreinsarann og öskukarlinn Scott Mary í einelti enda óskilgetinn munaðarleysingi sem á í vandræðum með að samlagast samborgurum sínum. Þegar bófinn Toby ríður í hlaðið og kemur fram við hann eins og vitiborinn mann, reynir Scott Mary allt sem hann getur til að fá að slást í för með honum og fær það að lokum eftir að hafa bjargað lífi hans. Toby þekkir vafasama fortíð helstu góðborgara bæjarins og nær að kúga þá einn af öðrum til hlýðni með aðstoð bófagengis síns og Scotts Marys, sem notar tækifærið til að ná sér niður á misgjörðarmönnum sínum. Smám saman fær hann þó nóg af grimmdarverkum Tobys og snýst gegn honum þegar hann myrðir lögreglustjóra bæjarins, eina manninn sem hafði nokkurn tímann komið vel fram við hann.

Almennt um myndina:
Þetta er ekki frumlegasti spaghettí-vestri í heimi en hann sleppur alveg fyrir horn hjá hörðustu aðdáendum þessarar stórskemmtilegu kvikmyndagreinar. Ýmislegt er vel gert, einkum þó kvikmyndatakan, og leikararnir með þá Lee Van Cleef og Giuliano Gemma í fararbroddi eru almennt fínir. Van Cleef með sinn hörkusvip er óaðfinnanlegur í hlutverki Tobys og Gemma er temmilega viðkunnanlegur sem pilturinn Scott Mary sem í fyrstu heillast af skúrkinum en snýst síðan gegn honum. Al Mulock er sömuleiðis eftirminnilegur sem hörkulegur bófi sem ekki sparar hnefahöggin í slagsmálum, en Gemma heldur því fram í viðtali á DVD diskinum frá Wild East að þau hafi öll verið raunveruleg og hafi hann fyrir vikið verið blár og marinn og rauninni lemstraður eftir átökin við manninn. Mulock átti við andleg veikindi að stríða og framdi að lokum sjálfsvíg meðan á tökum stóð á spaghettí-vestranum Once Upon a Time in the West (Sergio Leone: 1969), en hann lék einn af launmorðingjunum þremur í upphafi myndarinnar.

Leikstjóri myndarinnar er Tonino Valerii en hann hafði starfað sem aðstoðarleikstjóri Sergios Leone um langt skeið áður en hann fór að leikstýra eigin myndum, sem margar hverjar voru spaghettí-vestrar eða gular morðgátur. Ein af þekktustu myndum hans er sennilega spaghettí-vestrinn My Name Is Nobody (1973), sem hann gerði í samvinnu við Sergio Leone læriföður sinn.

Spaghettí-vestrinn Day of Anger hefur lengst af aðeins verið fáanlegur í verulega styttri ‚pan and scan‘ útgáfum undir ýmsum öðrum titlum á myndböndum, en núna loksins er hann kominn út óstyttur og í réttum breiðtjaldshlutföllum á DVD hjá bandaríska útgáfufyrirtækinu Wild East. (Sömuleiðis er hann fáanlegur í óstyttri DVD útgáfu í Japan með ítalska káputitlinum I giorni dell’ira.) Þar sem breiðtjaldið er notað til hins ítrasta munar heldur betur um réttu hlutföllin auk þess sem myndin er u.þ.b. 20 mín. lengri, en það voru einkum manndrápin og ýmsar grundvallarupplýsingar um framvindu sögunnar sem klippt höfðu verið í burt.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Efnistökin eru fyrst og fremst siðferðilegs eðlis og snúast einkum um baráttu góðs og ills í föllnum heimi.

Hinn undirokaði snýst á sveif með skúrkinum vegna þess að það er fyrst í samfylgdinni með honum sem hann öðlast einhverja sjálfsvirðingu. Samviskan lætur hann samt ekki í friði og fær hann að lokum nóg af öllum grimmdarverkunum og snýst gegn bófaforingjanum og öllu gengi hans, en þar kemur að góðum notum allt sem hann hafði lært af honum. Toby segir Scott Mary m.a. að þegar hann sé á annað borð farinn að drepa geti hann ekki hætt og virðist pilturinn samþykkja það enda unir hann sér ekki hvíldar fyrr en allir bófarnir hafi fallið í valinn. Skiptir engu máli þótt um óvopnaða særða menn er að ræða, hann skýtur þá alla til bana til öryggis. Sem sagt sannkallaður spaghettí-vestri.

Guðfræðistef: miskunn Guðs
Siðfræðistef: einelti, manndráp, vændi, kúgun, félagslegt misrétti, meðaumkun, hefnd, réttlæti, sjálfstraust, fjárhættuspil, samviskan, sjálfsvörn
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: kross í hálsfesti
Trúarlegt atferli og siðir: bæn