Leikstjórn: Peter Weir
Handrit: Tom Schulman
Leikarar: Robin Williams, Robert Sean Leonard, Ethan Hawke, Josh Charles, Gale Hansen, Dylan Kussman, Allelon Ruggiero, James Waterston, Norman Lloyd, Kurtwood Smith, Carla Belver, Leon Pownall, George Martin, Joe Aufiery og Matt Carey
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1989
Lengd: 128mín.
Hlutföll: 1.66:1
Einkunn: 3
Ágrip af söguþræði:
Kvikmyndin Dead Poets Society frá árinu 1989 vakti töluverða athygli á sínum tíma. Í aðalhlutverki er Robin Williams, en hann leikur John Keating sem ræður sig sem kennara í enskum bókmenntum við einkaskóla fyrir pilta í Nýja Englandi. Hann notar óhefðbundnar kennsluaðferðir sem koma eins og ferskur vindur inn í skóla sem er í ánauð tilbreytingarleysis, heraga og utanbókarlærdóms. Einkunnarorð skólans eru: Hefð heiður agi afburðir, og skólastjórinn þakkar það reglufestu að skólinn hafi náð góðum árangri.
Keating leggur áherslu á að nemendur hans læri að hugsa sjálfstætt og fylgi sannfæringu sinni og gefur þeim gott fordæmi með því að láta þá rífa kafla úr námsbókinni þar sem lýst er „geldri“ aðferð við túlkun skáldskapar. Hann fær þá til að hugleiða latnesku orðin „carpe diem“ sem merkja „gríptu daginn“. Eitt af uppátækjum hans er að hvetja nemendur til að standa uppi á skólaborðunum og minna sig þannig á mikilvægi þess að horfa á hlutina frá nýju sjónarhorni.
Keating kemst fljótlega upp á kant við yfirvöld skólans sem telja hann ógna stöðugleikanum. Lærisveinar hans tendrast hins vegar af kennslu hans og hugmyndum og endurvekja m.a. gamalt skáldskaparfélag (Dead Poets Society) sem Keating hafði stofnað þegar hann var nemandi við skólann. Þar er í fararbroddi Neil Perry en hann heillast af hugmyndum og kennslu Keatings. Hann býr hins vegar við ofríki föður síns sem meinar honum meðal annars að taka að sér ábyrgðarstörf í félagslífi skólans svo hann geti einbeitt sér að náminu og búið sig undir að læra læknisfræði. Smám saman magnast spennan og að lokum verða atburðir sem leiða til þess að Keating er látinn fara.
Almennt um myndina:
Dead Poets Society er vel gerð og áhrifarík mynd. Hún er í leikstjórn Peters Weir en dæmi um þekktar myndir eftir hann eru The Last Wave frá 1977, Witness frá 1985 og The Truman Show frá 1998. Dead Poets Society var á sínum tíma tilnefnd til margra varðlauna, m.a. nokkurra Óskarsverðlauna (1990) og hlaut verðlaunin fyrir besta frumsamda handritið en það er skrifað af Tom Schulman. Þá hlaut hún BAFTA-verðlaunin sem besta myndin (1990). Robin Williams var tilnefndur til nokkkurra verðlauna fyrir leik sinn í myndinni, m.a. Óskarsverðlauna, BAFTA og Golden Globes, enda fer hann á kostum í hlutverki Keatings.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Færa má ýmis rök fyrir því að kvikmyndin Dead Poets Society feli í vísun til Nýja testamentisins. Hún dregur upp mynd af ánauðugu skólasamfélagi. Við upphaf myndarinnar er táknmynd þess eða „lögmálið“ borið inn í salinn við skólasetningu í formi fána sem bera einkunnarorð skólans. Kúgunin og ofríkið kemur smám saman í ljós í stjórnun skólans og einnig í uppeldisaðferðum föður Neils Perry. Faðir hans ætlast til að hann læri læknisfræði en hann fær hins vegar áhuga á leiklist í óþökk föður síns. Myndin tekur því á málum eins og kúgun og andlegu ofbeldi ásamt fleiri siðferðisstefjum.
Inn í þetta ánauðuga samfélag kemur nýr einstaklingur, kennari, sem fljótlega safnar um sig hópi „lærisveina“ sem hann hefur mikil áhrif á. Hann boðar þeim „fagnaðarerindi“ þess að hugsa sjálfstætt, grípa tækifærið og horfa á hlutina frá mismunandi sjónarhóli. Hann bendir þeim meðal annars á mátt tungumálsins og skáldskaparins og að orð og hugmyndir geti breytt heiminum. Kennsluaðferðir Keatings vekja athygli samkennara og skólastjóra en smám saman verður hann ógnun umhverfi sínu og þeim valdhöfum sem þar ráða. Þeir óttast að aðferðir hans geti spillt þeim hefðum og aga sem skólinn byggir á. Viðbrögð þeirra eru þau að finna leið til að losna við hann til að viðhalda stöðugleikanum og um leið kúguninni. Afleiðingarnar verða hins vegar þveröfugar og leiða til lausnar úr ánauð.
Vísunin til Nýja testamentisins er athyglisverð. Finna má margar hliðstæður í myndinni við atvik og atriði úr guðspjöllunum. Keating er viss hliðstæða við Krist og safnar um sig lærisveinahópi áhugasamra nemenda og kennir þeim eitthvað nýtt alveg eins og Jesús safnaði um sig hópi lærisveina og boðaði þeim frelsun og nýja tíma guðsríkisins (Mt 4:17-22 og Jh 1:35-51). Yfirvöld skólans eru jafnframt hliðstæða við yfirvöld Gyðinga sem snúast gegn Keating og því sem hann stendur fyrir og láta hann að lokum fara. Yfirvöldum Gyðinga fannst sér ógnað af Jesú og óttuðust um stöðugleikann ef til uppreisnar kæmi (sbr. Mt 26:3-4 og Jh 11:45-53). Þau ákváðu því að fórna honum.
Svik á borð við svik Júdasar koma meira að segja við sögu í myndinni. Þegar skólastjórnin ákveður að gera Keating að fórnarlambi eftir að einn nemendanna fremur sjálfsvíg hefjast yfirheyrslur. „Lærisveinar“ hans eru m.a. yfirheyrðir og þvingaðir til að undirrita játningu gegn Keating. Þar á svikari í hópnum eða eins konar „Júdas“, Richard Cameron, nokkurn hlut að máli. Hann gefur skólayfirvöldum ýmsar upplýsingar um Keating og aðferðir hans og hvetur hina til að svíkja hann til að bjarga sjálfum sér frá því að verða reknir úr skólanum.
Keating er rekinn og allt virðist tapað. En þegar hann er að yfirgefa skólann koma áhrif hans á nemendahópinn í ljós. Þegar fara á að kenna ljóðagreiningu með gamla laginu og lesa kaflann sem hann hafði látið þá rífa úr bókinni gera þeir uppreisn gegn skólastjóranum og standa uppi á borðum í skólastofunni. Þar fer fyrstur Todd Anderson sem þjáðst hafði af minni máttar kennd en smám saman öðlast meira sjálfstraust fyrir tilstuðlan Keatings. Frelsunin eða endurlausnin undan kúguninni náði þannig fram að ganga þrátt fyrir að Keating væri fórnað af skólayfirvöldum. Þegar Kristur var krossfestur virtist sem um algjöran ósigur væri að ræða. En það reyndist þó ekki vera. Jesús Krisur reis upp frá dauðum, leysti lærisveina sína úr fjötrum óttans og fyllti þá djörfung til að ganga fram í nafni frelsisins og boða komu guðsríkisins. „Lærisveinar“ Keatings fylltust hliðstæðri djörfung og þorðu að standa uppi á borðum og sýna þannig í verki að boðskapur hans hafði leyst þá úr fjötrum kúgunarinnar. Endurlausnin varð því veruleiki þrátt fyrir að Keating væri látinn fara.
Athyglisvert er að rétt áður en Neil Perry fremur sjálfsvíg í myndinni er eins konar krans, sem hann bar á höfði í leiksýningu og faðir hans hafði bannað honum að taka þátt í, sýndur þannig að hann minnir á þyrnikórónu sem hann setur á höfuð sér við gluggann í herbergi sínu. Hann er ber að ofan, lokar augum og hneigir höfuðið þannig að hann minnir á myndir af Kristi með þyrnikórónuna.
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Mt 5:5
Hliðstæður við texta trúarrits: Pd 3:2-8, ýmsir textar guðspjallanna, s.s. Mt 4:17-22, Jh 1:35-51, Mt 26:3-4, Jh 11:45-53
Persónur úr trúarritum: Drottinn, Guð
Guðfræðistef: dauði
Siðfræðistef: andlegt ofbeldi, djörfung, hugleysi, kúgun, lygi, sannleikur, sjálfsvíg, svik
Trúarbrögð: kristni
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: himinn
Trúarleg tákn: Biblían
Trúarleg embætti: prestur
Trúarlegt atferli og siðir: borðbæn, minningarathöfn, sálmasöngur