Leikstjórn: Giulio Petroni
Handrit: Luciano Vincenzoni
Leikarar: Lee van Cleef, John Phillip Law, Anthony Dawson, Luigi Pistilli, Mario Brega, José Torres, Carla Cassola, Bruno Corazzari og Archie Savage
Upprunaland: Ítalía
Ár: 1968
Lengd: 110mín.
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0064208
Einkunn: 3
Ágrip af söguþræði:
Þegar Bill var aðeins barn að aldri varð hann vitni að því þegar bófagengi myrti alla fjölskyldu hans og brenndi bóndabýlið til grunna eftir að móður hans og systrum hafði verið nauðgað. Alla tíð síðan hefur hefndarþorstinn heltekið hann og gert hann að óviðjafnanlegri stórskyttu. Hann kemst þó ekki á spor bófagengisins fyrr en einn af liðsmönnum þess, Ryan að nafni, er leystur úr haldi eftir að hafa afplánað fimmtán ára þrælkunarvinnu í grjótnámu. Ryan heldur þegar á fund félaga sinna til að gera upp sakirnar við þá, enda höfðu þeir svikið hann í hendur yfirvalda á sínum tíma, og nýtur þar stuðnings Bills þar til upp um þátttöku hans í fjöldamorðunum kemst.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Spaghettí-vestrinn Death Rides a Horse er tvímælalaust með þeim allra bestu, enda sótsvartur hefndarvestri þar sem formið skiptir mestu máli: Glæsileg myndataka með hefðbundnum nærmyndum af helstu andlitunum á örlagastundu, hnyttin tilsvör og hreint út sagt frábær tónlist snillingsins Ennios Morricone sem fylgir hröðum en stílhreinum klippingunum vel eftir, ekki síst á skotæfingum Bills snemma í myndinni. Lee van Cleef er bófinn Ryan holdi klæddur og John Phillip Law er mátulega alvarlegur í hlutverki Bills. Gamli Bond-þrjóturinn Anthony Dawson fer þó á kostum með viðeigandi ofleik í hlutverki skúrksins Cavanaughs að ógleymdum eðalleikaranum Luigi Pistilli sem leikur félaga hans Walcott af sannfæringu.
Að Ryan undanskildum eru þrjótarnir allir alvondir og fylgir þeim bölvun hvert sem þeir fara. Á heimaslóðum Bills sækja allir kirkju og syngja sálma, en þar sem þrjótarnir setjast að verður siðgæðishrunið algjört, kirkjurnar tæmast meðan krárnar, spilavítin og vændishúsin dafna. Þannig er kirkjan í einum heimabæ þrjótanna komin í algjöra niðurníðslu og prestshjónin orðin þungt haldnir áfengissjúklingar, sem syrgja sífellt gömlu góðu dagana en bölva komu Cavanaughs, er hafi reynst „snákur, sporðdreki og dýr“ (sbr. nafngiftir djöfulsins og ára hans í Opb. 9:5; 12:9; 13). Ástandið er jafnvel enn verra í bækistöðvum Walcotts handan við landamærin í Mexíkó, en þar er kirkjan í fornri trúboðsstöð rústir einar og þorpsbúarnir allir sem einn kúgaðir þrælar.
Ryan er í fyrstu lítt hrifinn af því að fá Bill í lið með sér og kvartar undan hefndarþorsta hans með þeim orðum að hann sé of hatursfullur. Bill svarar honum hins vegar að bragði að hatur sé hatur og ekki sé hægt að stigskipta því. Hagur þeirra reynist þó kominn undir samstarfi þeirra og eiga þeir ítrekað eftir að hjálpa hvor öðrum úr verstu ógöngum.
Þegar mest allt bófagengið heldur burt í leit að Ryan upp úr miðri myndinni, nær hann að fella gæslumennina í bækistöðvunum og bjarga Bill úr prísundinni við mikinn fögnuð þorpsbúanna, sem segja þá báða frelsara senda af Guði til að leysa þá undan þrældóminum. Ryan neitar því hins vegar strax, enda markmið hans það eitt að ná fram hefndum. Engu að síður segir hann hagsmuni sína og Guðs geta vel farið saman og eru þorpsbúarnir allir virkjaðir í andspyrnu gegn bófunum, sem fá heldur betur óblíðar móttökur þegar þeir snúa aftur til trúboðsstöðvarinnar, en þar eru þeir lagðir að velli einn af öðrum í svakalegum skotbardaga í miklu sandroki (sem mögulega gæti táknað íhlutun Guðs og heimsslit fyrir a.m.k. þrjótunum). Veðurhamurinn gengur hins vegar niður um leið og sá síðasti þeirra hefur verið felldur og Bill og Ryan taka að útkljá sín mál.
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Opb 9:5; Opb12:9; Opb 13
Hliðstæður við texta trúarrits: 3M 24:20
Guðfræðistef: fyrirgefning, frelsun, réttlæti
Siðfræðistef: hefnd, hatur, manndráp, nauðgun, svik, sjálfsvörn, kynþáttahatur
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarlegt atferli og siðir: sálmasöngur