Leikstjórn: Ingmar Bergman
Handrit: Ingmar Bergman
Leikarar: Gunnar Björnstrand, Bengt Ekerot, Nils Poppe, Max von Sydow, Bibi Andersson, Inga Gill, Maud Hansson, Inga Landgré, Gunnel Lindblom, Bertil Anderberg, Anders Ek, Åke Fridell, Gunnar Olsson og Erik Strandmark
Upprunaland: Svíþjóð
Ár: 1957
Lengd: 96mín.
Hlutföll: 1.33:1 (var 1:37:1)
Einkunn: 3
Ágrip af söguþræði:
Krossfarinn Antonius Block snýr heim til Svíþjóðar eftir tíu ára dvöl í landinu helga. Margar hörmungar hafa gengið yfir heimaland hans og herjar svarti dauði þar sem stendur. Um leið og Antonius Block gengur í land mætir hann dauðanum sjálfum, sem kominn er til að sækja hann. Þar sem Antonius Block er hins vegar ekki tilbúinn að deyja fyrr en hann hefur fengið fullvissu um tilvist Guðs, reynir hann að kaupa sér tíma með því að leika skák við dauðann. Taflið tekur um einn sólarhring en á meðan heldur Antonius Block heim til sín. Á leiðinni kynnist hann ýmsum löndum sínum, svo sem leikarahjónunum Míu og Jof og syni þeirra Mikael.
Almennt um myndina:
Það er óþarfi að kynna Ingmar Bergman, enda þekktasti leikstjóri Norðurlandanna. Kvikmyndin Sjöunda innsiglið (Det sjunde inseglet) var frumsýnd sama ár og Sælureitur (Smultronstället) en báðar vöktu þessar myndir heimsathygli á Bergman. Þær tilheyra miðtímabili hans á leikstjórnarferlinum, en flestir telja það tímabil hafa verið það besta og frjóasta á ferli hans. Bergman fékk dómaraverðlaunin fyrir leikstjórn Sjöunda innsiglisins á kvikmyndahátíðinni í Cannes 1957.
Kvikmyndatakan í Sjöunda innsiglinu er stórkostleg og eru mörg atriðin ógleymanleg, svo sem taflið við dauðann, þegar dauðinn sagar niður tré eins leikarans, yfirbótaganga hinna trúuðu og dans dauðans í lok myndarinnar. Bergman sótti ríkulega í kirkjulist frá miðöldum og er t.d. hugmyndin að taflinu við dauðann komin þaðan.
Galli myndarinnar er hins vegar sá að hún er í raun lítið annað en flottar og djúpar senur, þar sem hver tilvistarlega og heimspekilega vangaveltan, skreytt táknrænni sviðsmynd og snjallri kvikmyndatöku rekur aðra. Og alltaf kynnumst við nýjum persónum, án þess að þær hafi sýnilega mikið með söguna að gera. Hvað kemur járnsmiðurinn og kona hans t.d. sögunni við? Og hvað með „mállausu“ stelpuna sem Jöns bjargar? En fyrst of fremst lýður myndin fyrir það að sagan er óáhugaverð. Bergman er svo upptekinn við að koma tilvistarlegum og guðfræðilegum vangaveltum sínum á framfæri að hann gleymir sjálfri sögunni.
Tónlistin er falleg og viðeigandi en Erik Nordgren sækir að miklu leyti í smiðju Carls Orff og þá sérstaklega meistaraverk hans Carmina Burana. Leikurinn er jafnframt með eindæmum góður og sannfærandi, hvort sem litið er til aðalleikara eða aukaleikara. Það er sérstaklega sláandi að sjá hvernig Max von Sydow tekst að tjá miðaldra krossfara, aðeins 27 ára að aldri.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Það er leitun að myndum sem eru jafn hlaðnar trúarlegum vísunum og Sjöunda innsiglið. Það kemur því ekki á óvart að sumir hafi flokkað hana sem biblíumynd. Nafn myndarinnar er sótt í Opinberunarbók Jóhannesar, áttunda kafla, en í fyrsta versinu segir: „Þegar lambið lauk upp sjöunda innsiglinu, varð þögn á himni hér um bil hálfa stund.“
Það er þessi „þögn“ Guðs sem myndin fjallar fyrst og fremst um. Antonius Block þolir ekki fjarlægð og „þögn“ Guðs lengur og neitar að deyja fyrr en hann fær áþreifanlega sönnun á tilvist hans. Myndin er því fyrst og fremst vangavelta um dauðann, tilvist Guðs og hvaða merkingu það hefur fyrir manninn ef Guð er ekki til. Fyrir hvað á maðurinn þá að lifa? Í myndinni eru aðalpersónurnar fulltrúar ólíkra viðhorfa til þessara stóru spurninga.
Antonius Block er fulltrúi hins leitandi manns, sem hefur misst trúna en hefur engu að síður sterka innri trúarþörf og getur ekki hugsað sér að lifa í guðlausum heimi. Leit hans að svörum er fyrst og fremst vitsmunaleg og því er taflið viðeigandi tákn fyrir leitina. Leit og þjáning Antoniusar Block kemur hvað best fram í skriftum hans, en þar segir hann meðal annars:
„Hvers vegna þessi grimma hindrun sem meinar okkur um að nálgast Guð með skynseminni? Hvers vegna felur hann sig fyrir okkur í stjörnuþoku loforða sem við heyrum ekki og kraftaverka sem við sjáum ekki? […] Hvað verður um okkur sem viljum trúa en getum það ekki? Hvers vegna get ég ekki drepið Guð innra með mér? Hvers vegna lifir hann enn í vitund minni? Hvers vegna þjáist hann auðmjúkur með mér, þrátt fyrir formælingarnar sem frá mér fara til að fjarlægja hann úr hjarta mínu? […] Ég vil skilja, ekki trúa. Ég vil að Guð taki í hönd mína, snúi ásjónu sinni að mér og tali við mig.“
Þegar dauðinn svarar Antoniusi Block og spyr hvort það geti ekki verið að það sé enginn Guð svarar hann að bargði: „Lífið myndi glata allri merkingu sinni. Það getur enginn dáið, horfandi á dauðann og vitandi að hann hverfur út í tómið.“
Skjaldsveinn hans, Jöns að nafni, er hins vegar fulltrúi efahyggjumannsins, en afstaða hans til lífsins einkennist af kaldhæðni og köldu raunsæi. Munurinn á Antonius Block og Jöns sést hvað best þegar þeir horfa á unga stúlku sem brenna á á báli. Jöns hæðist að leit meistara síns og spyr: „Hver mun taka við þessu barni? Englarnir, Guð, djöfullinn, tómið? Er það kannski tómið?“ Antonius Block neitar að fallast á það og svarar: „Nei, það getur ekki verið svo!“ Afstaða Jöns til ástarinnar lýsir honum einnig vel, en í myndinni segir hann meðal annars: „Ástin er verst af öllum plágum […] Það væri kannski einhver nautn í ástinni ef hún drægi mann til dauða, en maður deyr ekki af ást.“
Fulltrúar kirkjunnar eru hvað óþægilegustu persónur myndarinnar en þær eru tákn hræsninnar, þjófnaðar og lyga. Þar er engin svör að finna og virðist kirkjan fremur upptekin af því að hræða fólk til fylgis við sig og ræna hina dauðu en að sinna hirðishlutverki sínu.
Andstæða þessa alls eru síðan leikarahjónin og náttúrubörnin Mía og Jof og sonur þeirra Mikael. Nöfn þeirra vísa líklega til hinnar helgu fjölskyldu, þ.e. Maríu, Jósefs og Jesú en nöfn foreldranna eru oft þýdd þannig á ensku. Mía og Jof er fulltrúar hinnar einföldu og einlægu trúar. Ólíkt Antonius Block, sem beitir skynsemi sinni í leit að sannleikanum og uppsker ekkert, virðist trú þeirra koma frá hjartanu. Þau lifa fyrir lífsins nautnir, stundina og hvort annað og virðast hafa litlar áhyggur af tilvistarlegum vangaveltum eða veraldlegum auð.
Eina stundin sem Antonius Block verður fyrir innilegri trúarlegri reynslu er þegar hann er í návist þeirra. Þetta á sérstaklega við um máltíðina sem þau eiga saman en hún minnir um margt á altarissakramentið, nema í stað víns og brauðs eru komin mjólk og villt jarðarber. Það er ekki aðeins hvernig þau bera mjólkurskálina að vörum og deila með sér villtu jarðarberunum, sem minnir á altarissakramentið, heldur einnig orð Antoniusar Block, þar sem hann leggur áhersluna á minninguna, rétt eins og Jesús í síðustu kvöldmáltíðinni:
„Ég mun minnast þessarar stundar, þessarar þagnar, ljósaskiptanna, viltu jarðarberjanna, mjólkurskálarinnar. Andlita ykkar í kvöldroðanum. Mikeal sofandi, Jof með lýru sína. Ég mun minnast samræðu okkar. Ég mun bera þessa minningu í höndum mínum eins og barmafulla skál af nýrri mjólk. Þessi stund verður tákn fyrir mig og lífsfylling.“
Það er einmitt hjá þessari „helgu“ fjölskyldu, sem Antonius Block finnur tilgang með lífinu. Þótt hann geti ekki fengið fullvissu fyrir tilvist Guðs er hann tilbúinn að deyja eftir að hafa bjargað fjölskyldunni úr hrömmum dauðans.
Þótt megið viðfangsefni Sjöunda innsiglisins sé tilvist Guðs, tilgangur lífsins og dauðinn, verður ekki horft fram hjá dómdagsstefinu, sem gengur eins og rauður þráður í gegnum myndina. Eins og áður sagði er nafn myndarinnar sótt í upphaf 8. kafla Opinberunarbókar Jóhannesar. Fyrstu tvö versin eru einnig lesinn í upphafi myndarinnar og svo aftur í lok hennar, ásamt versum 6-11 í sama kafla:
„Þegar lambið lauk upp sjöunda innsiglinu, varð þögn á himni hér um bil hálfa stund. Og ég sá englana sjö, sem stóðu frammi fyrir Guði, og þeim voru fengnar sjö básúnur. […] Og englarnir sjö, sem héldu á básúnunum sjö, bjuggu sig til að blása. Hinn fyrsti básúnaði. Þá kom hagl og eldur, blóði blandað, og því var varpað ofan á jörðina. Og þriðjungur jarðarinnar eyddist í loga, og þriðjungur trjánna eyddist í loga, og allt grængresi eyddist í loga. Annar engillinn básúnaði. Þá var sem miklu fjalli, logandi af eldi, væri varpað í hafið. Þriðjungur hafsins varð blóð, og þriðjungurinn dó af lífverum þeim, sem eru í hafinu, og þriðjungur skipanna fórst. Þriðji engillinn básúnaði. Þá féll stór stjarna af himni, logandi sem blys, og hún féll ofan á þriðjung fljótanna og á lindir vatnanna. Nafn stjörnunnar er Remma. Þriðjungur vatnanna varð að remmu og margir menn biðu bana af vötnunum, af því að þau voru beisk orðin.“
Við þetta bætist að margoft er því haldið fram í myndinni að dómsdagur sé yfirvofandi og ýmis tákn talin upp því til stuðnings. En samt sem áður er ekki bókstaflegur heimsendir í lok myndarinnar og þar er ekki heldur nein hetja sem sigrað hefur djöfulinn og bægt ógninni frá. Heimsslitin í myndinni eru fyrst og fremst táknræn. Þau eru ekki einhver afmarkaður eða endanlegur atburður heldur eiga þau sér sífellt stað vegna syndugs eðlis mannkynsins. Í hvert skipti sem syndin heltekur manninn er dýrinu í Opinberunarbókinni sleppt lausu og barátta góðs og ills hefst á nýjan leik. Þannig má í raun segja að helstu voðaverk mannkynssögunnar séu nokkurs konar síendurtekin heimsslit.
Slíka túlkun er að finna hjá mörgum kirkjudeildum og er hún t.d. algeng í lúthersku kirkjunni. Dr. Sigurbjörn Einarsson biskup segir t.d. í bók sinni Opinberun Jóhannesar, sem kom út árið 1957, að Opinberunarbókin eigi ekki aðeins við um samtíma höfundarins heldur einnig um alla sögu mannkynsins. Í inngangi bókarinnar vísar hann meðal annars í nazismann og kommúnismann og segir:
„Það, sem Jóhannes segir um þetta, á erindi við alla tíma, ekki sízt vora. Að sumu leyti er samtíð höfundar nær oss, sem nú lifum, en mörgum gengnum kynslóðum. Orð hans mættu hafa fullskýra merkingu í eyrum kynslóðar, sem hefur horfzt í augu við tvær tröllefldar stefnur, er báðar hafa tignað foringja sína sem einu guðdómsverur alheimsins, báðar lagt reginþunga og klóhvassa hramma á kirkju Krists og hvert það afl, sem líklega gat verið til þess að hamla gegn algerri einmótun í hugsun, fullkominni undirgefni undir kúgunarvaldið.“
Í Sjöunda innsiglinu má e.t.v. líta á heimsslitin sem örlög einstaklingsins vegna meðfædds eðlis hans. Hið fallna eðli mannsins leiðir hann stöðugt til sjálfseyðingar og það er einmitt í þessari sjálfsógn sem maðurinn stendur ráðþrota frammi fyrir skapara sínum og sjálfum sér.
Það hafa margir bent á að þótt myndin gerist á miðöldum hafi Bergman fyrst og fremst verið að fjalla um samtíma sinn, þ.e. ógn vígbúnaðarkapphlaupsins á kaldastríðsárunum. Kjarnorkuváin var afsprengi okkar eigin eðlis, jafnmikið sjálfskaparvíti og krossferðirnar fyrr á tímum.
En hvernig er hægt að bjarga manninum frá sjálfum sér? Þótt svarið sé ekki að finna hjá kirkjunni og Guð sé óþægilega hljóður virðist Bergman eygja von og tilgang og birtist hann í fjölskyldunni „helgu“, sem stendur utan kirkjunnar en finnur lífsfyllingu í kærleika manna á meðal og fegurð og gjöfum sköpunarinnar.
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Mt 27:52; Jh 19:30; Jk 1:11; 2Pt 3:12; Opb 8:1-2; Opb 8:6-11, Opb 16:9
Hliðstæður við texta trúarrits: Mt 26:26-30; Mk 14:22-26; Lk 22:15-20
Persónur úr trúarritum: engill, dauðinn, Guð, Satan, María mey, Jesús Kristur, Jósef, illur andi
Guðfræðistef: sálin, tákn, refsing Guðs, miskunn Guðs, tilvist Guðs, efi, trúleysi, örlög, heilög þrenning, dómsdagur, heimsslit, altarissakramentið
Siðfræðistef: lygi, þjófnaður, nauðgun, krossfarir
Trúarbrögð: rómversk-kaþólska kirkjan
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja, Ísrael, helvíti
Trúarleg tákn: hrafn, dúfa, hauskúpa, kross, róðukross, kirkjuklukka, snákur
Trúarleg embætti: krossfari, prestur, norn, munkur
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, meinlæti, yfirbótaverk, skriftir, signun
Trúarleg reynsla: sýn