Kvikmyndir

Django Kill! (If You Live, Shoot!)

Leikstjórn: Giulio Questi
Handrit: Giulio Questi og Franco Arcalli
Leikarar: Tomas Milian, Ray Lovelock, Piero Lulli, Milo Quesada, Francisco Sanz, Patrizia Valturri, Roberto Camardiel, Marilu Tolo, Daniel Martin, Edoardo de Santis, Miguel Serrano, Angel Silva, Sancho Gracia og Mirella Panfili
Upprunaland: Ítalía og Spánn
Ár: 1967
Lengd: 116mín.
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0062082
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Eftir að hafa rænt allstórum gullfarmi og stráfellt hermennina, sem áttu að flytja hann yfir óbyggðir vestursins, neyðir glæpaflokkurinn mexíkanska samstarfsmenn sína til að grafa sér eigin gröf áður en þeir eru allir skotnir. Einum Mexíkananum tekst þó á síðustu stundu að fæla flesta hestana á brott þannig að glæpaflokkurinn neyðist til að halda fótgangandi yfir eyðimörkina með allar gullbyrðirnar. Um nóttina koma tveir Indíanar að fjöldagröfinni og finna þar lífsmark með einum Mexíkananum, sem þeir síðan hjálpa til byggða. Þegar glæpaflokkurinn nær loks örmagna til fyrsta bæjarsamfélagsins, átta íbúarnir sig fljótlega á því hvers konar menn þar eru á ferðinni og eru ræningjarnir allir drepnir. Mexíkaninn nær þó til bæjarins í tíma til að gera upp sakirnar við foringja glæpaflokksins og eru líkin hengd uppi á torginu öðrum til viðvörunar. Gullbyrðirnar reynast hins vegar horfnar og ákveður Mexíkaninn að vera um kyrrt þar til hann finnur þær. Fyrir vikið lendir hann hins vegar ekki aðeins upp á kannt við bæjarbúana heldur einnig voldugan óðalsbónda, sem sendir samkynhneigða aðstoðarmenn sína til að hafa uppi á gullinu með öllum ráðum.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Illa fengið fé leiðir aðeins af sér bölvun samkvæmt spaghettí-vestranum Django Kill! (If you Live, Shoot!), eins þess besta og bölsýnasta sem gerður hefur verið. Sjaldan hefur græðgin verið jafn taumlaus og mannlýsingarnar naprar eins og hér. Allir eru breyskir og sjálfhverfir í föllnum og spilltum heimi. Handbragð Questis er frábært, tónlistin fín, myndatakan eins og hún gerist best hjá Ítölunum og hraðar klippingarnar í átakaatriðunum og endurlituninni hrein snilld. Vestrinn er auk þess óvenju hrottafenginn, jafnvel á nútíma mælikvarða, enda var hann víðast hvar styttur verulega þegar hann var settur á markað utan Ítalíu og mun hann t.d. vera enn á bannlista breska kvikmyndaeftirlitsins. Ástæðan er sennilega tvö atriði þar sem hnífskurður er sýndur mjög nákvæmlega, í fyrra tilfellinu þegar verið er að taka byssukúlu úr særðum manni en í síðari tilfellinu þegar höfuðleðrinu er svipt af öðrum. (Þessum atriðum er skotið inn með ítölsku tali og í hlutföllunum 1.85:1 í þeirri myndbandsútgáfu, sem er hér til umfjöllunar.) Ef það má gagnrýna myndina fyrir eitthvað, væri það einna helst talsetning Indíánanna, sem eru báðir afskaplega formlegir, en talsetning kvikmynda hefur svo sem aldrei talist til sterkari hliða Ítala.

Í myndinni eru tvær beinar biblíutilvitnanir, báðar fluttar af bæjarprestinum við útför og báðar efnislega í mótsögn við raunverulegar aðstæður bæjarbúanna. Fyrri ritningartextinn segir: „Ég hef gefið yður vald að stíga á höggorma og sporðdreka og yfir öllu óvinarins veldi.“ (Lúk. 10:19.) Reyndin er hins vegar sú, að enginn treystir sér til að losa sig við þá höggorma og sporðdreka, sem halda samfélaginu í heljargreipum. Síðari ritningartextinn segir: „… heldur sé sá, sem mikill vill verða meðal yðar, þjónn yðar. Og sá er vill fremstur vera meðal yðar, sé þræll yðar, eins og Mannsonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga.“ (Matt. 20:26-28.) Öllum virðist hins vegar mest umhugað um eigin hag og virða þeir líf náungans í samræmi við það. Helsti kaupmaður bæjarins notar alloft biblíulegt orðfæri, en hann er annar þeirra, sem sölsar undir sig gullbyrðirnar, þegar ræningjarnir eru teknir af lífi. Hann hrópar yfir líkum þeirra, að þjófum og morðingjum sé engin frelsun búin nema því aðeins að þeir leiti sjálfir til Guðs eftir fyrirgefningu, en sjálfur á hann bráðlega eftir að verða hvort tveggja. Þegar svo ungur piltur fremur sjálfsvíg í bænum, segir kaupmaðurinn Guð hafa lostið hann, því að siðlaus faðir hans hafi lifað í synd með sambýliskonunni. Ýmsir, sem skrifað hafa um myndina, hafa jafnframt bent á, að krossfestingarstelling Mexíkanans, þegar hann er pyntaður til sagna undir lok myndarinnar, vísi til Jesú Krists. Það er þó það eina sem mögulega er hægt að finna sameiginlegt með þeim og verður vísunin því að teljast heldur léttvæg. Hvað Indíánana varðar þá koma þeir inn á trúarhugmyndir sínar á nokkrum stöðum í myndinni og ræða þá einkum handanveruleikann og afdrif hinna framliðnu.

Þess má að lokum geta, að enda þótt nafnið Django vísi til aðalsöguhetjunnar, Mexíkanans sem rís (svo að segja) upp frá dauðum til að hefna sín á illgjörðarmönnum sínum, er hann aldrei nefndur með nafni í myndinni heldur ávallt kallaður aðkomumaðurinn. Nafnið Django kom ekki til fyrr en myndin var sett á markað út fyrir Ítalíu, en hún hét upphaflega Se sei vivio spara, þ.e. ‚Skjóttu ef þú lifir‘.Kvikmyndin Django, sem Sergio Corbucci gerði árið 1966, reyndist einn vinsælasti spaghettí-vestrinn og fylgdi því ekki aðeins í kjölfarið fjöldi framhaldsmynda heldur voru nokkrir tugir annarra spaghettí-vestra nefndir eftir honum um leið og þeir voru settir á heimsmarkaðinn, jafnvel þótt þeir ættu ekkert annað sameiginlegt en hefndarþemað.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Mt 20:26-28, Lk 10:19
Hliðstæður við texta trúarrits: 3M 24:20
Guðfræðistef: helvíti, guðsótti, dauðraríki
Siðfræðistef: ágrind, hefnd, kynþáttahatur, sjálfsvíg, manndráp, hræsni, óvígð sambúð, nauðgun, samkynhneigð, pynting
Trúarbrögð: kristindómur, indíánatrúarbrögð
Trúarleg tákn: krossfesting
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, fyrirbæn, biblíulestur, útför