Kvikmyndir

Django Strikes Again

Leikstjórn: Nello Rossati [undir nafninu Ted Archer]
Handrit: Franco Reggiani og Nello Rossati
Leikarar: Franco Nero, Christopher Connelly, Donald Pleasence, William Berger, Alessandro Di Chio, Licia Lee Lyon, Micky og Bill Moore
Upprunaland: Ítalía
Ár: 1987
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0093113

Ágrip af söguþræði:
Django hefur sagt skilið við hríðskotabyssuna og er genginn í klaustur á afskekktum stað í Suður-Ameríku. Þegar hann hins vegar fréttir, að dóttir hans hafi verið hneppt í þrældóm af þýzkumælandi þrælasölum undir stjórn fiðrildasafnara, sem kennir sig við djöfulinn, grefur hann upp hríðskotabyssuna á nýjan leik og heldur á fund þeirra.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Á níunda áratugnum fengu Ítalir þá hugmynd að endurvekja spaghettí-vestrana með því að aðlaga þá að Rambo myndunum, sem nutu þá mikilla vinsælda. Enda þótt tími hafi verið kominn til að segja skilið við aulahúmorinn, sem einkennt hafði alltof marga spaghettí-vestra á áttunda áratugnum, verður Rambo skírskotunin að teljast slæm hugmynd, a.m.k. hvað Django Strikes Again varðar. Fyrsti Django vestrinn var gerður árið 1966 og naut hann slíkra vinsælda að meira en fimmtíu kvikmyndir voru nefndar eftir honum, ekki aðeins ítalskir vestrar heldur einnig tyrkneskir. Aðeins Django Strikes Again telst þó beint framhald af fyrstu myndinni, enda heitir hún á ítölsku Django 2: Il grande ritorno.

Tveir áratugir eru nú liðnir frá lokum fyrstu myndarinnar og segist Django búinn að fá sig fullsaddan af manndrápum. Hann setur hríðskotabyssuna sína meira að segja í líkkistu og kemur henni fyrir í gröf merktri Django til tákns um, að hann hafi sagt skilið við sinn fyrri mann. Þegar hann síðan fréttir af afdrifum dóttur sinnar og blóðsúthellingum þrælasalanna, reynir hann fyrst árangurslaust að vinna bug á óréttlætinu með góðmennskunni einni en gefst loks upp og segir ‚djöflinum‘ stríð á hendur. Munkarnir í reglu hans fagna ákvörðuninni og segja hann sendan af Drottni til að frelsa hina undirokuðu, enda njóti þeir verndar Guðs. Þrátt fyrir þessa trúarlegu vísun telst Django fyrst og fremst rambogervingur, enda stráfellir hann allt og alla í herferð sinni gegn óréttlætinu og útsendurum ‚djöfulsins‘.

Django Strikes Again er einstaklega illa leikin kvikmynd og afspyrnu heimskuleg. Enda þótt margar Django myndirnar hafi í raun ekki verið neitt sérstakar, þá eru flestar þeirra hrein snilld í samanburði við þessi ósköp. Bestar eru þó fyrsta myndin sem Sergio Corbucci gerði svo og Django Kill! (If You Live, Shoot!) eftir Giulio Questi og Django the Bastard eftir Sergio Garrone.

Persónur úr trúarritum: Ágústínus, Ignatíus
Guðfræðistef: synd, helvíti, djöfullinn
Siðfræðistef: þrælahald, manndráp, mannafórn, friðarhyggja
Trúarbrögð: rómversk-kaþólska kirkjan, aztekatrúarbrögð
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: klaustur, kirkja
Trúarleg tákn: kross, róðukross, maríustytta, altari
Trúarlegt atferli og siðir: ritningarlestur, skriftir, bæn, signing, krossfesting