Kvikmyndir

Do zan

Leikstjórn: Tahmineh Milani
Handrit: Tahmineh Milani
Leikarar: Niki Karimi, Marila Zare’i, Atila Pesiani, Mohammad Reza Forutan og Reza Khandan
Upprunaland: Íran
Ár: 1998
Lengd: 96mín.
Hlutföll: 1.50:1
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Tvær háskólastúlkur í Teheran í Íran verða vinkonur skömmu eftir islömsku byltinguna árið 1979 en leiðir þeirra skilja þegar háskólum landsins er tímabundið lokað af byltingarstjórninni og heldur önnur þá til fjarlægs heimabæjar síns eftir að hafa verið lögð í einelti af andlega sjúkum vonbiðli. Enda þótt hann sé að lokum handtekinn og dæmdur fyrir m.a. manndráp af gáleysi, tekur ekki betra við þegar hún neyðist til að ganga í hjónaband en eiginmaðurinn reynist brátt sjúklega afbrýðisamur og einangrar hana að mestu frá umheiminum.

Almennt um myndina:
Bandaríski kvikmyndagagnrýnandinn víðkunni, Roger Ebert, hefur tilgreint þessa írönsku kvikmynd sem eina af þeim eðalmyndum sem fæstir hafi heyrt um en eigi svo sannarlega það skilið að fá víðtæka dreifingu og hefur hann því sjálfur staðið fyrir sýningum á henni í landi sínu. Ástæða er til að taka undir með honum að hér sé um að ræða bæði áhugaverða og áhrifamikla kvikmynd sem virkilega sé þess virði að horfa á og ígrunda.

Leikstjóri myndarinnar og handritshöfundur hennar er Tahmineh Milani sem er ein sú þekktasta af þeim konum sem starfað hafa sem kvikmyndagerðarmenn í Íran, en hún hefur reynst alls óhrædd við að taka á viðkvæmum málefnum í myndum sínum eins og félagslegri stöðu kvenna í Íran og margvíslegu ofbeldi sem ýmsar þeirra sæta þar. Enda þótt framleiðslan sé ódýr er myndin vel gerð og eru leikararnir allir trúverðugir í hlutverkum sínum, jafnt konurnar sem karlmennirnir. Á það ekki síst við um leikkonuna Niki Karimi í hlutverki aðalsöguhetjunnar Fereshteh (sem er reyndar ekki í eina skiptið sem hún leikur konu með því nafni í mynd hjá þessum sama leikstjóra) og karlleikarana Atila Pesiani og Mohammad Reza Forutan í hlutverki ofbeldismannanna tveggja sem leggja líf hennar smám saman í rúst, jafnvel þótt þeir séu lengst af sannfærðir um að þeir vilji henni allt hið besta. Marila Zare’i í hlutverki Roju, vinkonu Fereshtehs, er ekki síður góð og alveg sérstaklega eftirminnileg í þeim atriðum þar sem hún stendur uppi í hárinu á Hassan, vonbiðlinum afbrýðisama sem leggur vinkonu hennar í einelti.

Kvikmyndin er gefin út á DVD af fyrirtækinu Irmovies.com sem sérhæfir sig í dreifingu íranskra kvikmynda í Bandaríkjunum. Myndgæðin eru þolanleg á diskinum en hefðu hæglega getað verið mun betri. Versti gallinn er þó enski textinn sem verður full ógreinilegur þegar bakflöturinn er ljós eða hvítur að ógleymdum stöfunum irmovies.com sem hafðir eru langtímum saman niðri í hægra horni myndrammans. Þrátt fyrir það er vel þess virði að verða sér úti um þessa útgáfu myndarinnar enda alls óvíst hvort hún verði nokkurn tímann aðgengileg í betri útgáfu á tungumáli sem þorri landsmanna skilur.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Eins og í öðrum kvikmyndum sínum áréttar kvikmyndaleikstjórinn og handritshöfundurinn Tahmineh Milani að myndin sé gerð Guði til dýrðar með upphafsorðunum „Í nafni Guðs“. Viðfangsefnið að þessu sinni er heimilisofbeldi og kúgun karlmanna á konum sem tekið er á með áhrifaríkum hætti í myndinni, en Tahmineh Milani hefur sagt að hún sé í raun byggð á raunverulegum atburðum í lífi einnar vinkonu hennar. Nauðsynlegt er að rekja söguþráð myndarinnar í aðalatriðum til þess að gera grein fyrir því dapurlega hlutskipti sem bíður aðalsöguhetjunnar Fereshteh á valdatíma byltingarstjórnarinnar í landi hennar, en þar verður m.a. ljóstrað upp um endi myndarinnar sem á köflum getur orðið allspennandi.

Skömmu eftir islömsku byltinguna í Íran árið 1979 verða tvær háskólastúlkur í arkitektanámi í höfuðborginni Teheran nánar vinkonur. Önnur þeirra, hin bráðvelgefna Fereshteh, kemur frá fjarlægum smábæ og er búsett heima hjá fjölskyldu föðurbróður síns, en hin er borgarstúlkan Roja sem þiggur með þökkum aðstoð vinkonunnar við námið.

Ekki líður þó á löngu þar til vonbiðlar taka að gera hosur sínar grænar fyrir Fereshteh en hún sýnir hjónabandi engan áhuga því að námið á huga hennar allan. Einn vonbiðillinn, Hassan að nafni, lætur sér hins vegar ekki segjast og eltir hana á röndum og gerir henni lífið leitt með sjúklegri afbrýði sinni. Þegar hann síðan sér ungan mann í för með henni missir hann stjórn á skapi sínu og skvettir á hann sýru í þeirri trú að þar sé um að ræða nýjan unnusta hennar en í raun reynist hann aðeins náfrændi hennar sem var að hjálpa henni við að flytja af heimilinu. Frændinn slasast alvarlega af sýrubrunanum og ásakar faðir Fereshtehs hana reiðilega um að bera ábyrgð á því. Hún hafi vanvirt heiður fjölskyldunnar með framkomu sinni sem hafi laðað brjálæðinginn að henni, en fyrir vikið skipar faðirinn henni að snúa strax með sér aftur heim.

Ekki tekur þó betra við þar því að Hassan leitar hana aftur uppi á mótorhjólinu sínu og leggur hana þar líka í einelti. Þegar hún reynir að forða sér undan honum á heimilisbílnum, verða þau fyrir því óláni að keyra inn í hóp barna í þröngri götu með þeim afleiðingum að eitt þeirra slasast alvarlega og annað deyr. Þau eru bæði handtekin og sett í fangelsi. Í réttarhöldunum í kjölfarið er Fereshteh hins vegar sýknuð af manndrápinu og aðeins dæmd til skaðabótargreiðslu fyrir slasaða barnið, en Hassan er dæmdur í 13 ára fangelsi fyrir manndráp af gáleysi, limlestingar á frændanum með sýruárásinni og einelti.

Vinsamlegur félagsfræðingur að nafni Ahmad leggur fjölskyldu Fereshtehs lið í þessum erfiðleikum og greiðir sjálfur sektina sem dóttirin hafði verið dæmd í. Hann biður Fereshteh jafnframt um að giftast sér og þrýstir fjölskyldan mjög á hana að taka bónorðinu enda hafi hún fengið illt orð á sig vegna alls sem á undan er gengið. Fereshteh neitar honum þó staðfastlega framan af en gefur þó eftir þegar hann heitir því að leyfa henni að halda háskólanáminu áfram og fjármagna það sjálfur um leið og háskólarnir verði opnaðir á nýjan leik, en byltingarstjórnin hafði látið loka þeim tímabundið. Um leið og hann segist muni veita henni þetta loforð skriflega er sem hún heyri ekkert annað sem hann eða aðrir hafa að segja enda er það tryggingin fyrir frekara námi sem skiptir hana öllu.

Hjónabandið verður henni hins vegar brátt hreint víti enda reynist Ahmad sjúklega afbrýðisamur og grunar hana sífellt um græsku. Hann lokar hana inni á heimilinu og neitar henni um að vinna úti, stunda nám eða hafa samskipti við vinkonur sínar, ekki einu sinni Roju. Heimilissímann lokar hann meira að segja inni í læstum skáp og leyfir henni aðeins að hringja í nánustu ættingja þeirra meðan hann er viðstaddur. Þegar hann svo kemst að því að hún hafði orðið sér úti um aukalykil og þannig nýtt sér símann í laumi verður hann æfur af bræði og ógnar henni með hníf enda sannfærður um að hún hafi verið að ræða við viðhaldið en ekki vinkonu sína.

Árin líða svo eitt af öðru þar sem Fereshteh er í raun haldið fanginni af eiginmanninum sem gerir allt sem hann getur til að brjóta hana niður andlega. Þegar hann er síðan lagður slasaður inn á sjúkrahús eftir átök við ókunnuga menn sem hann hafði að ósekju sakað um að hafa horft girndaraugum á eiginkonuna þar sem þau sátu saman á gangstéttarbekk, spyr faðir Fereshteh hana dapur í bragði hvernig eiginmaðurinn komi fram við hana og hvort hann misþyrmi henni líkamlega. Hann játar jafnframt fyrir henni að hann hafi gert mikil mistök þegar hann þrýsti á hana að giftast þessum manni og samþykkir að fara með henni til dómstólanna til að sækja um skilnað. Viðmót hans hefur þannig gjörbreyst en fram að því virkaði hann fyrst og fremst sem strangur faðir sem umfram allt var umhugað um heiður og virðingu fjölskyldunnar og skammaði dótturina einatt fyrir að vanvirða hana.

Lögformlegur skilnaður fæst hins vegar ekki þar sem Fereshteh svarar því játandi að Ahmed bæði borgi reikningana og veiti henni húsaskjól og neitar því jafnframt að hann berji sig, eigi siðlausa vini, drekki áfengi og spili fjárhættuspil. Dómarinn spyr þá hver sé ástæðan fyrir umsókninni um skilnað og verður Fereshteh fokreið þegar hann tekur ekkert gilt sem hún tilgreinir. Samtali þeirra lýkur með þessum allhvössu orðaskiptum (lauslega þýtt eftir enska textanum):

Fereshteh: „Hann er neikvæður, tortrygginn, hrakyrðir mig, móðgar mig vitsmunalega, læsir mig innandyra …“
Dómarinn: „Fröken, þetta eru ekki nægar ástæður fyrir skilnaði.“
Fereshteh: „Yðar náð, ég bý með manni sem ég ekki valdi mér. Hann eyðileggur mig. Hann eyðileggur sjálfstraust mitt.“
Dómarinn: „Frú, ég sagði þér að þessar ástæður væru ekki gildar.“
Fereshteh: „Leyfðu mér að klára herra … Þessi maður vill umbreyta mér í einhverja allt aðra. Ég er ekki konan sem hann vill, sú kona, hann vill einhverja allt aðra.“
Dómarinn: „Ekki sóa tíma dómstólsins. Ég sagði þér að þessar ástæður væru ekki gildar.“
Fereshteh: „Bíddu aðeins, yðar náð. Líttu á mig! Ég er mannvera! Ég vil fá að lifa sem slík. Hvernig stendur á því að karlmaður er talinn slæmur ef hann borgar ekki reikningana en það er talið allt í lagi ef hann misþyrmir mér tilfinningalega. Ég vil bara fá að verða jafningi hans í þessu hjónabandi, að fá að hafa eitthvað að segja.“
Dómarinn allreiðilega: „Ekki sóa tíma dómstólsins! Næsti!“
Fereshteh í forundran: „Fer ég fram á of mikið?“
Dómarinn við föðurinn: „Herra, sjáðu til þess að þau lifi sínu lífi.“

Þó svo að Fereshteh geti yfirgefið eiginmanninn án lögformlegs skilnaðar er það hægara sagt en gert enda búin að eignast barn með honum og ber annað undir belti. Foreldrar hennar geta tæpast séð fyrir henni þótt hún leiti þangað skjóls öðru hverju og hætt er við að hvarvetna verði litið niður á hana ef hún stingur af frá eiginmanni sínum með ófætt barn, enda gæti það þýtt að hann væri ekki faðir þess.

Eftir þrettán ára langt hjónaband sem brotið hefur bæði Fereshteh og börn hennar niður andlega kemst hún að því sér til skelfingar að brjálæðingurinn Hassan hefur lokið afplánun dómsins og hyggur nú á hefndir enda sannfærður um að hún sé ábyrg fyrir allri ógæfu hans. Eftir heiftarlegt rifildi við Ahmad sem hafði orðið fokvondur yfir því að Fereshteh hafði leyft eldri syninum að kaupa glitauga á reiðhjólið sitt, flýr hún út úr húsi með eiginmanninn á hælunum og hleypur beint í flasið á Hassan í blindgötu. Þegar Hassan dregur upp hníf til að drepa hana, hnígur hún magnþrota niður á götuna og hellir þar úr skálum reiði sinnar yfir öllu óréttlætinu sem hún hafi þurft að sæta á lífsleiðinni. Athygli vekur að hún virðist ekki lengur gera greinarmun á eiginmanninum og Hassan og talar um þá eins og þeir séu einn og sami maðurinn. Áður en Hassan nær hins vegar að munda hnífinn birtist Ahmad á hlaupum og reynir að yfirbuga hann en særist til ólífis í átökunum og deyr nokkru síðar á sjúkrahúsi.

Eftir situr Fereshteh með syni sína tvo og örvæntir hvernig hún geti einsömul sinnt skyldum sínum upp frá því en vinkonan Roja, sem hvorki hafði séð hana né heyrt frá henni árum saman, kemur henni hins vegar til hjálpar og huggar hana og styður ásamt eiginmanni sínum.

Þó svo að Fereshteh hafi verið sú sem bar af í öllu náminu hefur Roju vegnað í alla staði betur. Henni tókst að ljúka námi sínu og fá vellaunaða ábyrgðarstöðu hjá byggingarfyrirtæki þar sem hún síðar giftist einum af yfirmönnunum, vinsamlegum manni sem kemur fram við hana eins og jafningja í ástríku hjónabandi. Í raun má líta á vinkonurnar sem eina og sömu persónuna en Fereshteh er hin dæmigerða íranska alþýðukona sem lokuð hefur verið af frá umheiminum meðan Roja stendur fyrir allt það sem hún þráir að verða. En kannski má allt eins líta á Roju sem leikstjórann sjálfan Tahmineh Milani sem heldur því fram að myndin sé sannsöguleg. Athyglisvert er í því sambandi að eiginmaður Rojo er arkitekt alveg eins og eiginmaður leikstjórans og höfundar myndarinnar.

Ekki síst í ljósi þess er kvikmyndin áhugaverð þjóðfélagsgagnrýni sem á fullt erindi til almennings jafnt utan Írans sem innan þess, enda eru þau vandamál sem þar koma við sögu alltof algeng í einni eða annarri mynd um allan heim, hvort sem um er að ræða múslimi eða kristna eða einhverja allt aðra. Kvikmyndaleikstjórinn og handritshöfundurinn Tahmineh Milani virðist óhrædd að takast á við myrkustu hliðar þjóðfélags síns eins og slæma félagslega stöðu margra kvenna og á hún hrós skilið fyrir það. Þetta er kvikmynd sem enginn áhugamaður um aðra menningarheima ætti að láta framhjá sér fara og er sérstaklega ánægjulegt að sjá að hún og raunar ýmsar aðrar sambærilegar myndir skuli koma frá Íran, myndir sem árétta mikilvægi mennskunnar hvort sem konur eða karlmenn eiga í hlut.

Sögulegar persónur: Che Guevara, Khomeini
Guðfræðistef: kraftaverk
Siðfræðistef: félagsleg staða kvenna, prófsvindl, vinátta, einelti, afbrýði, heimilisofbeldi, skilnaður, hjónaband, morð, bylting, ást, ofbeldi, manndráp af gáleysi, heiður, virðing, vanvirðing, morðhótun, félagsleg einangrun, sekt, sakleysi, vantraust, sjálfstraust, ranghugmyndir
Trúarbrögð: islam, kommúnismi
Trúarleg tákn: slæða
Trúarlegt atferli og siðir: bæn