3. árgangur 2003, Vefrit

Dómsdagskvikmyndir – Þrjár tegundir heimsslitamynda

Í þessum fyrirlestri mun ég leitast við að flokka kvikmyndir, sem fjalla á einn eða annan hátt um heimsendi. Mun ég sérstaklega fjalla um þá þrjá undirflokka, sem eiga rætur að rekja í kristna hefð og leitast við að skilgreina helstu einkenni þeirra. Mér er ekki kunnugt um að þessi kvikmyndaflokkur hafi verið rannsakaður áður, en ég hef stuðst við þá skilgreiningu að heimsslit, heimsendir eða dómsdagur sé yfirvofandi atvik, sem ógni mannlegri tilvist eins og við þekkjum hana, hvort sem það sé vegna utan að komandi afla eins og djöfulsins og geimvera eða vegna synda mannsins, óábyrgrar þekkingarleitar hans og vísindastarfa. Hér er engin skylda að myndirnar endi með heimsslitum, enda er mannkyninu oft bjargað á síðustu stundu.

Nú kann einhver að segja að heimsslitahugmyndir heyri fortíðinni til og eigi lítið erindi við nútíma samfélag, en svo er hins vegar ekki. Á kaldastríðsárunum var það t.d. algengt viðhorf að mannkynið ætti eftir að eyða sjálfu sér í kjarnorkustríði og margir töldu að um áramótin 2000 myndi efnahagskerfi heimsins hrynja, með tilheyrandi afleiðingum, vegna þess að tölvur gætu ekki lesið ártalið 2000. Þá jókst einnig framleiðsla ýmislegra heimsslitakvikmynda í kringum aldamótin, eins og kvikmyndirnar Armageddon (1998)Deep Impact (1998)The Matrix (1999)Bless the Child (2000)Dogma (1999)End of Days (1999)Lost Souls (2000), The Devil’s Advocate (1997) og The Ninth Gate (1999) bera vitni, svo aðeins nokkrar séu nefndar. Þannig virðist það engu máli skipta hversu menntuð og nútímaleg við erum, heimsendahugmyndir virðast seint eldast af okkur.

Heimsslit geta birst með margvíslegum hætti í kvikmyndum, en þeim má þó skipta strax í tvo lauslega flokka, annars vegar þar sem um er að ræða veraldlegar heimsslitahugmyndir og hins vegar þar sem um er að ræða trúarlegar heimsslitahugmyndir.

Sem dæmi um kvikmyndir með veraldlegum heimsslitahugmyndunum má nefna stórslysamyndir á borð við Armageddon (1998) og Deep Impact (1998), en í þessum tveim myndum felst ógnin í loftsteinum utan úr geimnum sem stefna á jörðina og gætu grandað öllu lífi á henni.[1] Kaldastríðsmyndir um ógnir yfirvofandi kjarnorkustríðs eru einnig dæmi um veraldlegar heimsslitahugmyndir en þar má nefna The Day After, (1983)The Day That the Earth Caught Fire (1961)Testament (1983)Dr. Strangelove or: How I Learned to Stop Worrying and Love the Bomb (1964)Fail-Safe (1964 og 2000) og When the Wind Blows (1986). Sömuleiðis má þar nefna kvikmyndir um innrás utan úr geimnum eins og Invasion of the Body Snatchers (1956 og 1978)Independence Day (1996)The War of the Worlds (1953)Mars Attacks! (1996) og sérútgáfuna af The Abyss (1989).[2] Í sama flokk lenda einnig plágumyndir eins og Outbreak (1995) og kvikmyndir þar sem náttúran gerir uppreisn gegn manninum eins og í The Birds 1963) eftir meistara Alfred Hitchcock. Allar eiga þessar kvikmyndir það sameiginlegt að tilvist mannsins er ógnað af utan að komandi veraldlegri innrás, hvort sem það eru geimverur, loftsteinn, kjarnorkuárás óvinaríkis, vírusfaraldur eða náttúran sjálf. Þess ber þó að geta að veraldlegu heimsslitakvikmyndirnar eru oftar en ekki háguðfræðilegar enda þótt uppruni ógnarinnar sé ekki trúarlegur.

Undir trúarlegar heimsslitamyndir falla kvikmyndir sem vinna annað hvort með kristnar dómsdagshugmyndir eða sækja þær til annarra trúarbragða og þjóðsagna. Þar má t.d. nefna blóðsugumyndir eins og Blade 1 og 2 (1998 og 2002), sombíumyndir eins og The Beyond (1981), Zombi 2 (1979), Dawn of the Dead (1978) og Zombie Flesh Eaters (1988), djöfladýrkendamyndir eins og Rosemary’s Baby (1968) og áströlsku frumbyggjamyndina The Last Wave (1977).

Í þessum þætti ætla ég þó að beina sjónum mínum að þrem kristnum undirflokkum heimsslitamynda, sem ég hef gefið vinnuheitin rómversk-kaþólski geirinn, bókstafstrúargeirinn og táknræni geirinn. Nöfn flokkanna ber þó ekki að taka of bókstaflega því að þótt þeir séu kenndir við ákveðna kirkjudeild eða trúarafstöðu eru kvikmyndirnar ekki endilega gerðar af fylgismönnum þeirra og fjalla heldur ekki alltaf um þá. Einnig eru til aðrir trúarhópar sem geta túlkað heimsslitin með svipuðum hætti auk þess sem skoðanir áhangenda einstakra trúarhópa geta reynst skiptar þegar betur er að gáð. Nafngiftina ber því að taka með varúð. Allar eiga þessar kvikmyndir það þó sameiginlegt að þær sækja meira eða minna í Opinberunarbók Jóhannesar, síðustu bók Biblíunnar.

Rómversk-kaþólski geirinn

Kvikmyndir sem falla undir rómversk-kaþólska geirann eiga það sameiginlegt að fjalla um tilraunir kaþólikka til að koma í veg fyrir að Satan nái heimsyfirráðum. Þess ber þó að geta í upphafi að þessar myndir endurspegla ekki viðhorf kaþólsku kirkjunnar, heldur vill svo til, af einhverjum ástæðum, að kvikmyndir af þessu tagi eru alltaf settar í kaþólskt samhengi.

Flestar þessara mynda hefjast á fæðingu andkrists, en svo kallast sonur Satans. Hugmyndin að baki fæðingu andkrists er sú að Satan reynir að leika sama leik og Guð með því að færa mannkyninu hið sataníska and-hjálpræði í gegnum son sinn. Getnaðurinn er hins vegar ekki blessun heldur bölvun og er andkristurinn yfirleitt afkvæmi sifjaspells eða nauðgunar, sbr. kvikmyndina Lost Souls (2000), en í þessum myndum er Satan jafnan konungur úrkynjaðs kynlífs. Þá er saklaus hvítvoðungur stundum drepinn og andkristi komið fyrir í stað hans og honum þannig þröngvað í fóstur hjá strangheiðarlegu fólki, sbr. Omen myndirnar (1976; 1978; 1981; 1991).

Algengt er í þessum kvikmyndum að fæðingu andkrists fylgi tákn á himnum, sbr. End of Days (1999), og The Omen (1976) en í hinni síðar nefndu birtist stjarna á himnum, öfugumegin á hnettinum, og á fæðingin sér stað 6. 6. kl. 6:00, sem leiðir hugann að talnaröðinni 666. Þessi tákn verða vanalega til þess að nokkrir aðilar innan rómversk-kaþólsku kirkjunnar sannfærast um að andkristur sé fæddur og leggja í krossferð gegn honum til að bjarga heiminum. Það er einmitt einkenni þessara kvikmynda að öll sönn þekking er bundin við rómversk-kaþólsku kirkjuna og virðast aðrar kirkjudeildir eða önnur trúarbrögð ekki vera til. Kaþólsku krossfararnir eru yfirleitt prestar, munkar eða nunnur og vinna þeir oftast í óþökk yfirboðara sinna sem trúa ekki að dómsdagur sé í nánd.

Áhugavert er hversu raunverulegur máttur trúarinnar er í þessum kvikmyndum. Í The Omen (1976) þekur t.d. prestur nokkur veggina á íbúð sinni með blaðsíðum úr Biblíunni til að halda hinu illa fyrir utan. Sami prestur festir einnig tugi krossa upp á vegg sér til varnar. Fósturfaðir andkristsins þarf að drepa fósturson sinn með því að reka sjö hnífa, en sjö er heilög tala, í gegnum hann þannig að þeir mynda kross út frá brjósti hans. Kirkjubyggingin hefur einnig sérstakan mátt sem sést t.d. á því að andkristurinn tryllist þegar fósturforeldrar hans ætla að fara með hann til kirkju. Síðast en ekki síst hefur altarissakramentið sérstakan mátt og er fósturfaðirinn t.d. hvattur til að drekka blóð Krists til að verja sig gegn djöflinum. Í heimsslitamyndum er máttur trúarinnar því raunverulegur og í The Omen (1976) á það sérstaklega við altarissakramentið, krossa, kirkjur og Biblíuna.

Sögusvið flestra kvikmyndanna er Bandaríkin og þá sérstaklega New York, en kenningin er þá yfirleitt sú að New York sé hin nýja spillta Róm eða Babýlon. Þá er barnið í þessum myndum yfirleitt alið upp af voldugri ætt eða fjölskyldu, sem hefur tengsl við æðstu stofnanir ríkisins og jafnvel í vinfengi við sjálfan forseta Bandaríkjanna. Hér er The Omen (1976) aftur gott dæmi.

Í guðspjöllunum segir að engill hafi verndað Jesúbarnið fyrir utan að komandi ógn. Andkristurinn á sér einnig verndara í þessum kvikmyndum en þeir eru oftast svartir hundar, krákur, hrafnar eða barnfóstrur sem selt hafa djöflinum sál sína. Slíka barnfóstru er t.d. að finna í kvikmyndinni End of Days (1999) og er hún svo fílefld í myndinni að litlu munar að sjálfur Arnold Schwarzenegger sé lagður að velli í átökunum við hana.

Það sem vekur athygli í þessum kvikmyndum er hversu fjarlægur Guð er. Satan er nánast almáttugur en Guð virðist halda að sér höndum og reiða sig alfarið á hjálp fulltrúa rómversk-kaþólsku kirkjunnar. Þá dettur engum í hug að leggjast á bæn eða treysta á guðlegt inngrip. Hér eru kvikmyndirnar End of Days (1999) og Bless the Child (2000) þó undantekningar. Í End of Days (1999) leggst Arnold Schwarzenegger á bæn við lok myndarinnar, en vandinn er hins vegar sá að djöflinum hefði líklega tekist ætlunarverk sitt ef Arnold hefði ekki gripið til vopna fram að því. Bless the Child (2000) er sérstök að því leyti að hún fjallar ekki um fæðingu andkristsins, heldur fæðist Kristur aftur sem lítil telpa. Bænin er þar vopn hinna trúuðu og grípur Guð inn í atburðarrásina með því að senda engla þeim til hjálpar.

Gott dæmi um fjarlægð Guðs í þessum kvikmyndum er að andkristurinn eða Satan fær yfirleitt að halda einræðu um ágæti sjálfs síns og heimsku þess að trúa á Drottin. Guð fær hins vegar aldrei tækifæri til að svara fyrir sig, heldur er það komið undir aðalpersónu myndarinnar að setja ofan í við djöfulinn. Í kvikmyndinni End of Days kemur t.d. fyrir dæmigerð einræða í slíkum heimsslitamyndum en í lauslegri þýðingu er hún eitthvað á þessa leið:

„Ég skal segja þér frá Guði. Hann er mesti lúser allra tíma. Það var aðeins honum til láns að hann hafði góðan kynningarfulltrúa. Eitthvað gott gerist og það er hans vilji. Ef eitthvað slæmt gerist eru vegir Guðs órannsakanlegir. Tökum sem dæmi þann ofmetna fjölmiðlapésa sem kallast Biblían. Hvað segir þar þegar þú leitar svara? Slæmir hlutir gerast! Hlífðu mér!“

Það áhugaverðasta við kvikmyndir í þessum flokki er að því er aldrei svarað hvers vegna kaþólikkar vilja ávallt koma í veg fyrir heimsslitin. Samkvæmt hefðbundnum kristnum hugmyndum um dómsdaginn ætti hann að vera hinum trúuðu fagnaðarefni því að þá klári Kristur verk sitt og geri jörðina að nýrri Eden, þar sem dauði og synd heyri sögunni til. Þessa ósk kristinna manna er meira að segja að finna í Faðirvorinu, þar sem segir: ,,… til komi þitt ríki, verði þinn vilji svo á jörðu sem á himni.“

En í stað þess að fanga tímamótunum reyna hinir trúuðu að koma í veg fyrir heimsslitin með því að stöðva djöfulinn. Niðurstaðan virðist því vera sú að samfélag nútímans sé ákjósanlegra en himnaríki á jörðu!

Kvikmyndir sem falla undir þennan flokk eru t.d. Bless the Child (2000)Child of DarknessChild of Light (1991)The Day of the Beast (1995)End of Days (1999),The First Power (1990)Lost Souls (2000) og Omen myndirnar (1976; 1978; 1981; 1991).

Bókstafstrúargeirinn

Kvikmyndir sem falla undir bókstafstrúargeirann eru líklega sá flokkur dómsdagskvikmynda sem fæstir kannast við, enda margar illfáanlegar hérlendis. Allar eru þessar kvikmyndir gerðar af hvítasunnumönnum og öðrum bókstafstrúarmönnum í Bandaríkjunum, sem trúa á burthrifninguna og nokkurra ára þrengingartímabil fyrir tilkomu þúsund ára ríkisins. Markmið þessara kvikmynda er ekki endilega að gera gott listaverk heldur að hræða fólk inn í kristindóminn, n.k. ,,Þú tryggir ekki eftir á!!!“ áróður.

Algengt stef í þessum kvikmyndum er að vantrúaður einstaklingur sé á báðum áttum hvort hann eigi að taka við Jesú Kristi sem frelsara sínum. Í þessum kvikmyndum er mikið um langar prédikanir sem fyrst og fremst eru ætlaðar áhorfandanum. Vantrúaða sögupersónan segir við einhvern prédikara að hann eða hún sé ekki tilbúin að taka við Kristi og um leið er myndavélinni beint að prédikaranum sem notar tækifærið og heldur fimm mínútna einræðu þar sem hann útskýrir fyrir áhorfendum hjálpræði Krists og mikilvægi þess að bíða ekki með að taka trú, því að dómsdagur gæti verið í nánd.

Burthrifningin á sér síðan yfirleitt stað þegar um hálftími er liðinn af myndinni, en þá hrífur Guð hina sannkristnu upp til himna og skilja þeir aðeins eftir sig fötin og skartgripina sem þeir klæddust. Þessi atburður gerist samstundis alls staðar í heiminum og skiptir þá engu máli þótt hinir sannkristnu séu að keyra bíl eða fljúga flugvél. Afleiðingarnar geta því verið skelfilegar. Farartæki af öllum gerðum þeytast stjórnlaust áfram eða hrapa af himnum ofan þannig að fjöldi manns ferst. Þeir sem skildir eru eftir á jörðunni eru bæði hinir vantrúuðu og þeir sem voru ekki nógu heilir í trúnni. Þannig er alltaf að minnsta kosti einn frjálslyndur prestur skilinn eftir. Synd hans var sú að hafa ekki tekið heilagri ritningu nægilega alvarlega og reynt að þynna út kristindóminn. Hinir vantrúuðu sjá nú orð kristinna vina sinna, sem hrifnir voru burt, rætast hvert af öðru.

Ólíkt kvikmyndunum í rómversk-kaþólska geiranum er engin áhersla lögð á fæðingu andkristsins heldur hefjast þær allar þegar hann er orðinn fulltíða maður. Andkristur nær alltaf annað hvort heimsyfirráðum með því að verða leiðtogi Sameinuðu þjóðanna eða Evrópusambandsins. Hann byrjar á því að heilla mannkynið með því að koma á friði milli Ísraels og Palestínu, en Ísrael er alltaf þungamiðja atburðarrásarinnar. Þar sem það er útbreidd skoðun meðal kristinna bókstafstrúarmanna, að gyðingar eigi að eignast allt landsvæði palestínumanna svo hægt verði að stofnsetja hið forna Ísraelríki að nýju, er þessi verknaður augljóslega runninn af rótum hins illa. Annað sem andkristur gerir til að öðlast aðdáun heimsins er að koma á heimsfriði, einni gjaldmynt og að þurrka út alla hungursneyð.

Andkristur notfærir sér síðan öngþveitið sem skapast við burthrifninguna til að ná heimsyfirráðum og kemur á fót sinni eigin lögreglusveit sem gengur undir einingarheitum eins og ONE eða UNITE. Til þess að herða tökin skipar andkristur svo öllum jarðarbúum að taka á sig merkið sitt, annað hvort á ennið eða höndina og er það ýmist pýramídi eða tölustafirnir 666. Þá endurreisir andkristur musteri Salómons, sest þar í hásæti Drottins og krýnir sjálfan sig sem Guð.

Þeir sem hafa tekið trú eftir burthrifninguna neita hins vegar flestir að taka á sig merki andkristsins og eru því hundeltir og drepnir ef þeir nást. Þeir fá ekki að kaupa mat, hafa engan rétt til eigna eða atvinnu og verða að fara huldu höfðu. Þannig verða þeir sem ekki vilja selja djöflinum sál sína að þrauka í sjö hryllileg ár.

Í þessum myndum birtist einnig oft neikvæð afstaða til tækninnar. Í kvikmyndinni A Thief in the Night og framhaldsmyndum hennar (1972, 1978, 1980, 1983) eru tölvur t.d. komnar frá djöflinum. Hinir kristnu ná hins vegar að sigra andkristinn með því að syngja „Áfram kristsmenn krossmenn“ inn í tölvukerfi Satans en tölvan skilur laglínuna sem skipun um sjálfseyðingu á tölvumáli.

Kvikmyndir í þessum flokki eru t.d. A Thief in the Night (1972), A Distant Thunder (1978), The Image of the Beast (1980)The Prodigal Planet (1983), The Late Great Planet Earth (1976)Apocalypse (1998), Revelation (1999)Tribulation (2000)Judgement (2001)The Omega Code (1999) Megiddo: The Omega Code 2 (2001), Left Behind (2000) og Left Behind II: Tribulation Force (2002).

Táknræni geirinn

Kvikmyndir sem falla undir táknræna geirann eiga það sammerkt að heimsslitin eru ekki einhver afmarkaður eða endanlegur atburður heldur eiga þau sér sífellt stað vegna syndugs eðlis mannkynsins. Í hvert skipti sem syndin heltekur manninn er dýrinu í opinberunarbókinni sleppt lausu og barátta góðs og ills hefst á nýjan leik. Þannig má í raun segja að helstu voðaverk mannkynssögunnar séu n.k. síendurtekin heimsslit.

Slíka túlkun er að finna í mörgum kirkjudeildum og er hún t.d. algeng í lúthersku kirkjunni í dag. Dr. Sigurbjörn Einarsson biskup segir t.d. í bók sinni Opinberun Jóhannesar, sem kom út árið 1957, að Opinberunarbókin eigi ekki aðeins við um samtíma höfundar bókarinnar heldur einnig við um alla sögu mannkynsins. Í inngangi bókarinnar vísar hann meðal annars í nazismann og kommúnismann og segir:

„Það, sem Jóhannes segir um þetta, á erindi við alla tíma, ekki sízt vora. Að sumu leyti er samtíð höfundar nær oss, sem nú lifum, en mörgum gengnum kynslóðum. Orð hans mættu hafa fullskýra merkingu í eyrum kynslóðar, sem hefur horfzt í augu við tvær tröllefldar stefnur, er báðar hafa tignað foringja sína sem einu guðdómsverur alheimsins, báðar lagt reginþunga og klóhvassa hramma á kirkju Krists og hvert það afl, sem líklega gat verið til þess að hamla gegn algerri einmótun í hugsun, fullkominni undirgefni undir kúgunarvaldið.“

Þessi hugmyndafræði birtist hvað skýrast í stríðsmyndinni The Four Horsemen of the Apocalypse frá árinu 1961, sem gerist í síðari heimstyrjöldinni. The Four Horsemen of the Apocalypse hefst á því að tvær ríkar og náskyldar fjölskyldur í Argentínu halda læknanemanum Heinrich veislu eftir að hann snýr heim frá Þýskalandi. Fjölskyldunum er hins vegar brugðið þegar þær komast að því að Heinrich hafði hætt námi og gengið nasistum á hönd og er áfallið svo mikið fyrir afa drengsins að hann hnígur dauður niður eftir að hafa lýst því yfir að drengurinn hafi sleppt reiðmönnunum í opinberunarbókinni lausum. Eftir að fjölskyldan flyst til Evrópu klofnar hún í afstöðu sinni til nasismans.

Eins og flestum er ljóst er nafn myndarinnar sótt í sjötta kafla Opinberunarbókar Jóhannesar, en þar segir að reiðmönnunum fjórum hafi verið ,,gefið vald yfir fjórða hluta jarðarinnar, til þess að deyða með sverði, með hungri og drepsótt og láta menn farast fyrir villidýrum jarðarinnar.“ Eins og áður sagði hefst myndin á veislu sem haldin er fyrir hinn efnilega Heinrich. Þegar í ljós kemur að Heinrich hefur gengið til liðs við nasista slær afi drengsins hann utan undir og segir:

„Eiga nú reiðmennirnir að ríða enn einu sinni? […] Ég byggði garð hér í Argentínu, garð sem snákur kemst ekki inn í, þar sem dýrið finnst ekki. Ó heimski gamlingi. Hélstu virkilega að þú myndir aldrei sjá dýrið aftur? Bölvaðar séu syndir mínar. Dýrið er innra með mér, í kviði mínum, í lendum mínum. Mun ég sjá dýrið aftur? Dýr heimsslitanna? Eld reiðmannanna!“

Í því sér gamli maðurinn reiðmennina fjóra ríða í skýjum himins og við það fellur hann dauður niður. Hér tengir gamli maðurinn stríðsbrölt mannkynsins ekki aðeins við heimsslitin heldur greinir hann einnig frá ástæðu þess. Garðurinn sem hann minntist á er augljós vísun í söguna af Adam og Evu. Í rauninni er gamli maðurinn að hæðast að einfeldni sinni, að hann skuli hafa haldið að hann gæti flúið erfðarsyndina og byggt sér nýja Eden. Orð hans um að dýrið sé í kvið hans eru sömuleiðis áhugaverð því að þar tengir hann dýrið í Opinberunarbókinni við erfðarsyndina.

Vísanir til reiðmannanna eru fleiri í myndinni. Þrisvar sinnum eru þeir sýndir þeytast áfram á hestum sínum. Fyrst í fyrr nefndu atriði, þá um miðbik myndarinnar þegar Julio gengur inn í samkomusal þýskra herforingja og í lok myndarinnar þegar öll börn fjölskyldanna tveggja eru fallin í stríðinu og sprengjum rignir yfir sviðsmyndina.

Þannig eru heimsslitin ekki eitthvert endanlegt atvik eins og í rómversk-kaþólska-geiranum og bókstafstrúargeiranum heldur síendurtekinn atburður. Dýrinu og reiðmönnunum eru í raun sleppt lausum í hvert skiptið sem synd mannsins ræður för. Þannig má segja að stríðbrölt mannsins sé ekkert annað en síendurtekin heimsslit. Aðrar myndir sem falla undir þennan flokk eru vestrarnir Four of the Apocalypse (1975) og The Pale Rider (1985) sem og Sjöunda innsiglið (1957) eftir Ingmar Bergman. Það má einnig velta því fyrir sér hvort kvikmyndirnar Devil’s Advocate 1997 og The Ninth Gate (1999) eigi einnig heima í þessum flokki, en það veltur reyndar á því hvernig myndirnar eru túlkaðar.

Niðurlag

Eins og minnst var á hér að framan er mér ekki kunnugt um að heimsslitamyndir hafi verið flokkaðar eða rannsakaðar áður. Af þessum sökum hefur umfjöllun mín miðast við þær fáu kvikmyndir, sem ég hef komist yfir. Án vafa eru til fleiri flokkar heimsslitakvikmynda en ég hef nú þegar nefnt. Ég minntist t.d. engu orði á ævintýramyndir eins og The Lord of the Rings myndirnar (2001, 2002 og 2003), Harry Potter myndirnar (2001 og 2002), The Dark Crystal (1982) og Lara Croft: Tomb Raider (2001), en allar svipa þær til kaþólska geirans í uppbyggingu nema hvað að fulltrúa rómversk-kaþólsku kirkjunnar og andkristinn vantar.

Ég vona þó að þessi drög mín að flokkun á heimsslitamyndum hafi vakið einhvern áhuga á þessum áhugaverða kvikmyndaflokki, sem löngu er orðið tímabært að fræðimenn gefa frekari gaum.

Tilvísanir

[1] Sjá nánar ágætis grein eftir Sigurð Finnsson um hamfaramyndir í sögulegu og samfélagslegu ljósi: „Enn er heimurinn að farast: Hamfaramyndir þá og nú.“ Heimur kvikmyndanna. Ritstjóri: Guðni Elísson. Forlagið. Reykjavík. 1999. Bls. 577-582. Varast ber þó að leggja hamfaramyndir að jöfnu við heimsslitamyndir. Þótt sumar hemisslitamyndir séu einnig hamfaramyndir, eru ekki allar hamfaramyndir heimsslitamyndir, og öfugt.

[2] Björn Ægir Norðfjörð hefur ritað mjög áhugaverða grein um kjarnorkuótta og kommúnismafælni í kvikmyndum og hvernig þetta tvennt endurspeglaðist oft í framtíðarmyndum um árás utan úr geimnum. Sjá: „Horft til himins: Kjarnorkuótti og kommúnistafælni.“ Heimur kvikmyndanna. Ritstjóri: Guðni Elísson. Forlagið. Reykjavík. 1999. Bls. 505-518.